fimmtudagur, júní 11, 2009

Ég fór norður í Mývatnssveit á þriðjudaginn. Ég var þar á ráðstefnu á miðvikudag og í dag. Einnig notaði ég tímann til að skoða fugla og mynda þá. Ég var svo heppinn að á miðvikudaginn var sólskin og blíða svo veðrið kom ekki í veg fyrir myndatökur. Ég vaknaði snemma á miðvikudagsmorgun og var kominn inn að Höfða um kl. 5.00 um morguninn. Ég vissi í sjálfu sér ekkert um hvert ég átti að fara en sá kvöldið áður að þar var mikið af fuglum. Ég labbaði niður að vatninu og tók myndir af öndum sem voru þar við bakkann.Þá vissi ég ekki fyrr en flórgoðahjón syntu rétt við hliðina á mér. Ég hafði aldrei séð flórgoða áður en þarna voru þau að dunda sér við morgunsnyrtinguna í a.m.k. hálftíma. Ég held að þau hafi lagað hverja einustu fjöður á sér. Ef maður situr kyrr um stund þá hætta fuglarnir að taka eftir manni. Nokkru síðar flutti ég mig um set og fór aðeins innar. Eftir skamma stund komu húsandarhjón og hlömmuðu sér niður rétt fyrir framan mig. þar voru þau svona í fimm mínútur að pósa og svo var flogið burt. Það var gaman að fylgjast með öndunum. Það er mikið að gerast, sífelldar erjur og rifrildi. Ég náði svo smá morgunhlaupi áður en ráðstefnan byrjaði og hljóp þá upp að Jarðböðunum.
Í eftirmiðdaginn þegar fundahöldum var lokið fór ég inn í Dimmuborgir. Ég vissi að þar er fálkahreiður og taldi mig vita nokkurn veginn hvar það væri. Það stóð heima, eftir skamma stund sá ég höfðingjann sitja á háum kletti. Ég kom mér fyrir með runna í bakið!! og sat þarna góða stund. Kellingin sat á hæsta kletti fyrir ofan ungana en mér syndist þeir vera þrír í hreiðrinu. Eftir dálitla stund flaug hún burt og ég heyrði vælið í henni dálítið í burtu. Skömmu síðar heyrði ég mikinn hvin fyrir aftan mig. Þar var kella komin og ætlaði greinilega að láta mig vita að ég væri ekki velkominn. Hún steypti sér nokkrum sinnum niður að mér þar sem ég lét lítið fara fyrir mér undir runnanum en settist svo á klett. Ég fór bráðlega burt því úrillur fálki er ekki beint mínar kjötbollur. Ég fór síðan út að Laxá að taka myndir af straumöndum og spóatetur var þar einnig að vakka. Þegar ég kom útundir Skútustaði datt mér fyrst í hug hvort það væri moldrok við bæinn. Þegar ég kom nær sá ég að þetta var mývargur. Ég hef aldrei séð annað eins. Það var grátt lag af vargi yfir jörðinni. Flugan ætlaði að drepa mig út við Laxána þegar ég var að sinna straumöndunum og fyllti líka bílinn. Þetta var ljóta helvítið. Það hefði ekki verið gaman að hlaupa maraþon við þessar aðstæður. Undir kvöld fór ég svo niður að vatnsbakkanum fyrir neðan Reykjahlíðina og sat þar góða stund í blíðunni og myndaði. Þar voru nokkur flórgoðapör, fullt af öndum og síðan hettumáfsskollinn eins og þjófur í paradís.
Það passaði svo við daginn að kvöldmaturin var borðaður í Fuglasafni Sigurgeirs út í Neslöndum. Safnið er sett upp til minningar um Sigurgeir Stefánsson sem fórst á Mývatni ásamt tveimur vinnufélögum sínum þann 26.10. 1999. Sigurgeir var mikill fuglaáhugamaður og átti mikið safn uppstoppaðra fugla. Safnið var opnað síðsumars í fyrra. Það hefur alfarið verið byggt upp fyrir söfnunarfé ásamt sjálfboðaliðsstarfi. Það er forsenda fyrir því að þetta gangi upp því rekstur safna er ekki sérstaklega arðvænleg búgrein. Það var afar gaman að skoða safnið og er óhætt að mæla með því að fólk sem á leið um Mývatnssveitina renni niður að Neslöndum til að skoða Fuglasafn Sigurgeirs.

Ég sá að fótboltamenn kvörtuðu undan hita í Makedoníu og kenndu hitanum meðal annars um verðskuldað tap. Leikurinn stendur þó ekki yfir nema í einn og hálfan tíma. Ultrahlauparar hafa fyrir löngu fundið leiðir til að draga úr áhrifum hitans við mikla áreynslu. Meira um það síðar.

Engin ummæli: