þriðjudagur, nóvember 03, 2009

Vorið 1970 komu tveir bræður í sumardvöl vestur að Móbergi, þeir Guðni og Gestur. Þeir voru þá 12 og 13 ára gamlir. Þeim var komið vestur af barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna einhverra aðstæðna sem ég þekki ekki og skipta svo sem ekki máli. Þeir voru hjá okkur í tvö sumur og Gestur hálfum vetri betur. Þetta voru ágætir strákar, góðir á heimili og hjálpuðu til eftir megni enda þótt þeim hafi kannski ekki alltaf þótt gaman að tína grjót úr flögum eða raka dreifar. Það er nú bara eins og gengur og manni þótti það svo sem ekki alltaf voða skemmtilegt sjálfum á þessum aldri. Eitthvað hafði Gestur svo skrensað eftir að hann kom suður eftir seinna sumarið því eftir áramót er hann sendur að Breiðavík. Maður hafði heyrt það á þeim bræðrum að lægra væri ekki komist í mannfélagsstiganum en að lenda í Breiðavík. Þann stað bæði óttuðust þeir og hötuðu eftir frásögnum stráka sem þeir þekktu. Gestur hafði haft á orði að hann myndi strjúka undireins ef hann yrði sendur þangað. Hann stóð við það því hálfum mánuði eftir að hann var kominn þangað strauk hann með öðrum strák. Það þykir nú ekki aldæla að leggja á fjöllin upp af Breiðavík í febrúar fyrir fullorðið fólk hvað þá ókunnuga og óharnaða unglinga. Þeir voru í sjálfu sér heppnir að þeir fundust undir myrkur og munaði kannski ekki miklu að illa færi. Mamma tók ekki í mál að hann færi að Breiðavík aftur og því var hann heima fram á vorið. Það fylgdi eitthvað bréf honum frá yfirvöldum syðra og mamma sagðist hafa brennt það þegar hún var búin að lesa það því hún vildi ekki að önnur eins lesning og var í bréfinu um strákangann kæmist í umferð. Hún kannaðist ekki við eitt einasta orð af þeirri lýsingu sem var skrifuð um hann þar. Henni þótti alltaf sérstaklega vænt um Gest eftir þennan vetur. Hann var alltaf kátur og ánægður, hjálpaði til eftir megni og var þægilegur á heimilinu þótt tilbreytingin væri kannski ekki mikil um háveturinn. Hann fór suður um páskana og lofaði að koma aftur eftir viku sem hann stóð vitaskuld við. Um vorið fór hann síðan suður og fór að vinna sem messagutti á varðskipi, fjórtán ára gamall. Síðan varð sjómennskan atvinna hans þar til hann slasaðist það illa á sjónum rúmlega þrítugur að hann varð öryrki upp frá því. Lítið atvik frá þessum árum sýnir manni að það þarf kannski ekki alltaf mikið til að það skilji eftir sig spor sem ekki fyrnast. Seinna sumarið í ágústmánuði var slæm flensa heima og lágu allir rúmfastir á heimilinu nema við Gestur. Við fórum að eiga við hey eins og gengur einn daginn og Gestur hjálpaði mér eftir megni. Við vorum hvort eð er þeir einu sem vorum uppistandandi. Mig minnir að Gestur hafi fengið að keyra traktorinn og eitthvað svoleiðis sem ungum strákum þykir töluverð upphefð í. Þegar við komum heim þá hrósaði ég Gesti kallinum fyrir dugnað og sagði eitthvað sem svo að það væri enginn einn sem hefði Gest með sér. Þetta var svo sem ekki merkilegt en þessu gleymdi hann aldrei. Þarna fékk hann kannske á tilfinninguna að hann skipti einhverju máli og það hafði kannske ekki oft verið sagt við hann fram að þessu. Þegar hann talaði við mömmu einhverjum tuttuguogfimm árum síðar þá minntist hann á þetta litla atvik sem hann sagðist aldrei gleyma. Ég var auðvitað fyrir löngu búinn að gleyma þessu en þetta rifjaðist vitaskuld upp þegar á það var minnst. Gestur var jarðsunginn í dag frá Fossvogskirkju, 51 árs gamall. Hann lést á líknardeild Landspítalans fyrir skömmu. Það er eins og Forrest Gump sagði, maður veit aldrei hvaða konfektmola maður fær úr kassanum.

Það kom í ljós að það þýddi ekki annað en að hafa hraðar hendur við að skrá sig í Comrades hlaupið. Þau 5000 pláss sem voru laus fyrir þá sem ekki hafa hlaupið þetta hlaup áður fylltust á 27 klst. Alls eru því 20.000 hlauparar skráðir til leiks í þetta langfjölmennasta ultrahlaup í heimi. Þótt einhverjir forfallist þá verða ekki teknir aðrir í þeirra stað. Þetta er náttúrulega dálítið mál en sama er, það verður alltaf að hafa einhver markmið. Síðan er bara spurnig hvernig þeim verður náð.

Ég var á smá fundi niður í FRÍ í dag. Þar á bæ er kominn mikill áhugi og vilji til að fara að tengja sambandið betur almenningshlaupum og leggjua sitt af mörkum við að hafa utanumhaldið og regluverkið skipulegra. FRÍ er orðinn aðili að IAU (International Association of Ultrarunners) og einnig að alþjóðasamtökum götuhlaupara. Þróunin er þannig í götuhlaupum, utanvegahlaupum og ultrahlaupum að þarna er kannske mesta gerjunin sem stendur. Afstaða RÚV til almenningshlaupa og frjálsíþrótta barst í tal og það eru ekki uppbyggilegt sem maður heyrir um þau mál.

1 ummæli:

Gisli sagði...

Gaman væri að heyra meira um þennan fund, Gunnlaugur, sem þú nefnir í lok færslunnar.