laugardagur, janúar 16, 2010

Í nýútkominni Birtu er forseti 100 km félagsins í nokkrum skylmingum við formann íþróttafréttaritara út af þeim áherslum sem íþróttafréttamenn leggja í umfjöllun sinni um það sem þeir skilgreina sem íþróttir. Þarna er einnig vitnað í blogg mitt þar sem ég læt nokkur orð falla eftir að hafa séð annan besta íþróttamann síðasta árs að mati íþróttafréttamanna tjá sig um matar- og drykkjarvenjur sínar í unglingaþætti. Það er fínt að það sé tekið eftir því hvað maður segir í þessum efnum.
Formaður félags íþróttafréttaritara er ekki sammála forseta 100 km félagsins og telur upp nokkur rök í því sambandi. Hann segir meðal annars að ekki þurfi annað en að líta á fjölda iðkenda í hverri íþróttagrein til að sjá hvar landið liggur. Ætli almenningshlaup sé ekki þriðja fjölmennasta íþróttagrein hérlendis. Það hlaupa þúsundir manna á hverjum vetri í Poweratehlaupunum. Það hlaupa þúsundir í Gamlárshlaupinu, Miðnæturhlaupinu og öðrum götuhlaupum. Laugavegurinn er fjölmennasta ofurhlaup á Norðurlöndum og er haldinn undir regnhlíf ÍBR og ÍSI. Áhuginn fyrir Laugaveginum hefur vaxið gríðarlega á síðsutu árum og selst upp í hann á einum sólarhring. Í fyrra nenntu sumir fjölmiðlamenn ekki einu sinni að fletta því upp hverjir voru í öðru og þriðja sæti í hlaupinu. Engum íþróttafréttamanni fannst ástæða að gefa því gaum að Þorbergur Jónsson bætti metið á Laugaveginum um nær 20 mínútur og var það þó gott fyrir. Í Reykjavíkurmaraþoninu tóku um 11,500 manns þátt. Það er fjölmennara en samsvarandi hlaup í Osló. Það var varla hægt að segja að fjölmiðlar minntust á þennan viðburð. Þessi fjöldi virðist skipta þá litlu máli sem taka ákvörðun um hvað eru íþróttir og hvað ekki í umfjöllun fjölmiðla.

Það má spyrja hvort það sé meiri eða sannari íþrótt að hlaupa 100 metra heldur en 100 kílómetra eða 200 kílómetra eða 300 kílómetra. Ég sé í sjálfu sér ekki eðlismun á þessu tvennu utan að annað hlaupið byggir á snerpu og sprengikrafti en hitt á úthaldi og seiglu. Hvorutveggja kostirnir eru góðir. Formaður íþróttafréttamanna segir að sumir dragi línuna kringum það sem fellur innan Íþrótta- og ólympíusambandsins. Það ágæta samband vinnur fínt starf en hvers vegna ætti IAU (International Association of Ultrarunners)að vera ómerkara samband. Það ég best veit er það nær 100 ára gamalt og er viðurkenndur samstarfsaðili Alþjóða frjálsíþróttasambandsins.

Hvað mig sjálfan varðar þá þykist ég hafa fengið nokkuð óyggjandi vísbendingar um að hlaup sem eru 100 km og lengri séu ekki talin til íþrótta af íþróttafréttamönnum. Ég var í þriðja og fjórða sæti í opna Danska meistaramótinu í 24 tíma hlaupi á árunum 2007 og 2008. Ég sigraði í alþjóðlegu 48 tíma hlaupi í Danmörku á síðastliðnu ári svo annað dæmi sé tekið. Sá árangur dugði m.a. til 11. sætis á heimsafrekaskrá á síðasta ári. Umfjöllun allra íþróttafréttamanna landsins um þessi þrjú hlaup rúmast á fjórum fersentimetrum á íþróttasíðu Morgunblaðsins. Ég hef aldrei fengið upphringingu eða tölvupóst frá íþróttafréttamanni. Það er langt í frá að það haldi fyrir mér vöku en það er engu að síður staðreynd. Á hinn bóginn eru margir aðrir fjölmiðlamenn áhugasamir um hvað er að gerast á þessum vettvangi og hafa gaman af því að fylgjast með því. Það er vitaskuld ánægjulegt og ber að þakka. Umfjöllun skapar áhuga hjá öðrum og er þeim hvati til frekari áfanga. Umfjöllun fjölmmiðla hefur því verulega þýðingu um þessi mál sem og önnur. Það er hins vegar umhugsunarvert hvers vegna lengd hlaupa virðist hafa áhrif á hvort þau eru metin sem íþrótt eða ekki af íslenskum íþróttafréttamönnum.

Formaður félags íþróttafréttamanna segir að það sé fjallað um frjálsar íþróttir af íþróttafréttamönnum. Það er alveg rétt og þó það nú væri. Íslendingar hafa varla unnið merkari afrek á alþjóðlegum íþróttavettvangi gegnum tíðina en á sviði frjálsra íþrótta. Þar hafa sigrarnir verið hvað stærstir þegar vel hefur gengið. Fámennið hefur þó sín áhrif á hve breiddin er mikil. Nú eigum við þó eina af betri spjótkösturum kvenna í heiminum og efnilegustu sjöþrautarkonu í heimi. Það er ágætur skali að mæla sig á.
Á morgun er haldið eina alþjóðlega frjálsíþróttamót ársins innanhúss, Reykjavík International Games. Þar etur okkar besta frjálsíþróttafólk kappi við erlenda kollega sína. Til að fá beina útsendingu í sjónvarpinu milli 13:00 og 15:00 á morgun þarf FRÍ að greiða RUV nokkra hundraðþúsund kalla fyrir að mæta og sýna frá mótinu. Þetta væri svo sem í lagi ef hið sama gengi yfir alla. RUV greiðir hins vegar stórar fjárhæðir fyrir að fá að sýna beint frá leikjum í handbolta og fótbolta. RUV er ekki einkarekinn fjölmiðill heldur opinber stofnun. Því vekur þetta upp ákveðnar spurningar um áherslur og forgangsröðun og hevrs vegna íþróttagreinum sé mismunað á þannan hátt. Í íþróttafréttum STÖÐ 2 í kvöld voru tvær fréttir um Liverpool en ekki minnst einu orði á RIG, þriggja daga alþjóðlega íþróttahátíð, sem fer fram hérlendis yfir helgina. Mér finnst ósköp eðlilegt að það vakni ýmsar spurningar þegar horft er á þessar áherslur.

3 ummæli:

Stefán Gísla sagði...

Þetta fjölmiðladæmi er allt saman með ólíkindum! En: Til hamingju með viðurkenninguna í gær! Hún var ákaflega verðskulduð. Reyndar hefði ég gjarnan viljað sjá þig líka á lista þeirra sem fengu stig í kjörinu um íþróttamann ársins. Afrek þitt á Bornholm í fyrravor á sér ekki margar hliðstæður í íþróttasögu ársins 2009. En þarna kemur jú við sögu mat fréttamanna á því hvað séu íþróttir, þar sem það telst meira afrek að sitja í nokkra mánuði á bekk en að vera í fremstu röð í heimi í ofurhlaupum!

Nafnlaus sagði...

Til Ham-Yngju Gulli með titilinn í gær! Þú fékkst mitt atkvæði. Margir aðrir góðir eins Biggi og Þorbergur en þú varst sá besti!
Og nú ætla læknar á Læknadögum að fara "á rás fyrir Grensás" 21 jan kl 07:30. Mín hugmynd frá þér! Fimm km hlaup í Laugardalnum. Allur ágóði til Eddu Heiðrúnar og félaga.
kv, trausti

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góðar kveðjur félagar. Ég vil nú segja að það er uppskera hlaupasamfélagsins í heild sinni hvað margur glæstur árangurinn náðist á síðasta ári. Það var ekki dónalegur hópur sem var samankominn hjá Torfa í gær. Svona er eðli góðra hugmynda Trausti. Þær eru fjölnota. Gangi ykkur vel.