föstudagur, nóvember 12, 2010

Ég las meginniðurstöður skýrslu sérfræðingahópsins sem vann úttektina á skuldamálum heimilanna, gerði úttekt á mismunandi valkostum og skilaði tillögum. Skýrslan er gagnleg á fleiri en einn hátt. Í fyrsta lagi leggur hún fram upplýsingar um umfang vandans. Allskonar tölur hafa verið á þvælingi, fólk hendir þær á lofti og svo eru þær orðnar staðreyndir sem lifa sjálfstæðu lífi. Hin svokölluðu Hagsmunasamtök heimilanna hafa verið mjög iðin við að blása upp tölur um umfang vandans og málað ástandið mjög dökkum litum. Samtökin hafa fullyrt að um 30.000 heimili væru í miklum vandræðum og um 30.000 til viðbótar væru að lenda í miklum vandræððum. Tugir þúsunda heimila skulduðu meir í húsnæðislán en sem næmi verðmæti íbúðareignar. Í skýrslunni kemur allt annar sannleikur fram. Tæp 11.000 heimili eiga við greiðsluvanda að stríða eða 11% fasteignaeigenda. Ég er ekki að segja að þetta sé ekki meir en nóg en þetta er allt annar veruleiki en áður hefur verið málaður á vegginn. Um helmingur þessara heimila skuldar meir í húsnæðislánum en sem nemur verðmæti fasteignar. Auðvitað er verðmæti fasteingar alltaf afstætt. verð fasteignar er alltaf jaðarverð. Nú er frost á fasteignamarkaði, umsetning lítil og verð þar af leiðandi lágt. Í góðæri myndi verð fasteigna einnig hrynja ef of margar fasteignir yrðu settar í sölu og seljendur færu að bjóða verðið niður evr fyrir öðrum.

Í öðru lagi er flatri niðurfellingu lána algerlega hafnað í skýrslunni. Það á náttúrulega ekki að vera þörf áþví að skrifa langar skýrslur um þá niðurstöðu, það þarf ekki meir en heilbrigða skynsemi til að sjá hver vitlaus sú leið er. Það segir sitt um hve mikið vit fólk hafði á því sem það var að tala um þegar ákveðinn stjórnmálaflokkur boðaði 20% niðurfærslu fyrir síðustu kosningar og töldu þá aðgerð leysa stærstan hluta vandans. Það er bæði dýrasta lausnin og leysir minnst úr vandanum. Hin svokölluðu Hagsmunasamtök heimilanna láta sér ekki segjast heldur halda sínu striki og vilja flata niðurfellingu. Það er eins og þar sé á ferðinni fólk sem mun ráða við sín mál en vill með öllum tiltækum ráðum knýja það fram að ríkið eða bankarnir taki yfir eitthvað af lánum þeirra svo að þeir hafi það heldur betra eftir en áður. Auðvitað ætti ég að slást í för með þessum kór og reyna að fá nokkrar milljónir slegnar af mínum lánum. Mér dettur það hins vegar ekki í hug. það þurfa aðrir meir á slíkri aðgerð en ég.
Ég hef með sjálfum mér skipt húsnæðiseigundurm í þrjá flokka í grófum dráttum.
Fyrst kemur það fólk sem þarf ekki á neinni aðstoð að halda og klárar sig sjálft. Það getur borgað sínar skuldir enda þótt lífskjörin séu lakari en þau voru. Þannig er það bara.
Annar flokkurinn á í erfiðleikum út af ýmsum ástæðum. Skuldsetning hefur verið í hærra lagi og jafnvel of mikil áhætta tekin. Launin hafa lækkað og fólk jafnvel misst atvinnu. Þessum hóp á að hjálpa eftir föngum svo greiðsluviljinn sé fyrir hendi. Það má gera með kreppulánasjóð eða einhverjum þeim aðgerðums em eru skynsamlegar og leiða til lausnar vandans og báðir aðilar (skuldari og kröfuhafi) eru betur settir eftir en áður. Þriðji hópurinn skuldsetti sig upp úr öllu og var kominn í vandræði áður en gengið fór að falla og hrunið var staðreynd. Það þýðir ekkert að hjálpa þessum hóp því afskriftir lána yrðu það háar að það væri óverjanlegt.
Það er ekki til bóta í þessari stöðu þegar ýmsir tala þannig að almenningur heldur að heildarlausnin sé alveg að koma og bíður því og bíður með að gera eitthvað í sínum málum. Það er óábyrgt og betur ógert en gert.

Auðvitað er það ekki vansalaust að þessar upplýsingar liggi fyrst fyrir nú, einum tveimur árum eftir að efnahagslífið hér krassaði.

Það ber fyrir augu í blöðunum greinar sem segja að fyrirkomulag stjórnlagaþingsins væntanlega sé hámark lýðræðisins. Í mínum huga er sá prósess allur þveröfugur eða hámark vitleysunnar. Það hafa vitaskuld ekki allir möguleika á að hverfa úr vinnunni um 2ja til 4ra mánaða skeið og sýsla við eitthvað annað. Það er t.d. ekki tilviljun að svo fáir bændur og sjómenn hafi gefið kost á sér. Fólk sem stundar venjulega vinnu hvort sem er í einkageiranum eða opinbera geranum er ekki heldur fjölmennt. Lögfræðingar og framkvæmdastjórar úr höfuðborginni er fjölmennasti flokkurinn sem hefur boðið sig fram. Er þeim best treystandi til að setja landinu stjórnarskrá? Ég held barasta ekki með fullri virðingu fyrir þessum stéttum. Hvað með fólk utan af landi, hefur það innhlaup í húsnæði í höfuðborginni eða mun stjórnlagaþingið borga undir að hótelvist? Auðvitað verða þeir síðan kosnir sem annað tveggja eru þekkt andlit eða hafa fjölmenna kosningamaskínu á bak við sig. Hvort það er þverskurður þjóðarinnar læt ég ósagt. Fyrst hafði ég séð að allur þessi prósess myndi kosta 500 m.kr. en nú heyrast tölur upp á 700 m.kr. Það væri svo sem í lagi ef nóg væri til af penignum til að leika sér með en þegar þarf að taka hverja krónu að láni þá snýr dæmið svolítið öðruvísi við. Þetta minnir töluvert á framboðið til Öryggisráðsins sællar minningar.

Ætla að fara að herða á brettahlaupunum næstu vikurnar. Það sem eftir er mánaðarins verðum við nokkur frá sambandinu með námskeið út um land á föstudögum og laugardögum svo prógrammið ruglast aðeins. Hvað með það, það verður að láta á þetta reyna.

Engin ummæli: