fimmtudagur, janúar 27, 2011

Hér fyrr á árum voru stöndugar útgerðir stolt hvers samfélags á landsbyggðinni. Það þýddi trygga vinnu og góðar tekjur fyrir íbúana. Enn í dag er sjávarútvegurinn mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar enda þótt hlutfallslegt vægi hans hafi minnkað síðustu áratugi. Ég hef áður minnst á það að mér finnst stundum rætt um þá sem stunda útgerð á Íslandi í dag sem nokkurskonar óbótamenn og þegar lengst er seilst sem hálfgerða þjóðníðinga. Ég las nýlega grein eftir fyrrverandi alþingismann sem heggur í þennan knérunn. Þar er enn verið að tala út frá mýtunni um gjafakvótann. Ég man vel eftir því þegar kvótinn var fyrst settur á. Leyfilegur afli var skorinn verulega niður frá því sem áður veiddist eða um ein 20% að því mig minnir. Man það reyndar ekki alveg nákvæmlega því það eru um 30 ár síðan. Ástæðan niðurskurðarins var ofveiði á bolfiskstofnum við landið. Talið var nauðsynlegt að draga úr sókn í stofnana til að þeir gætu náð jafnvægi og farið að byggja sig upp aftur. Á þeím árum þegar kvótinn var settur á (um 1980) fiskuðu íslenskar útgerðir um 400 þúsund tonn af bolfiski á íslandsmiðum. Kvótinn hefur síðan verið skorinn niður jafnt og þétt í kjölfar hverrar svörtu skýrslunnar á fætur annarri. Nú er útgefinn kvóti á bolfisk á íslandsmiðum um 160 þúsund tonn það ég best veit. Lægst fór hann í um 135 þúsund tonn eða 1/3 af því sem veiddist þegar kvótinn var settur á.
Þeir aðilar sem stunduðu útgerð á sínum tíma urðu fyrir miklu áfalli þegar kvótinn var skertur en margir þraukuðu áfram, hagræddu í rekstri og aðlöguðu sig breyttum tímum. Margar útgerðir hafa þraukað þessi ár þrátt fyrir að oft hafi ýmislegt gengið á. Bæði hefur niðurskurður á kvóta verið þeim erfiður en aðrir erfiðleikar hafa oft valdið ekki minni erfiðleikum sem of hátt skráð gengi um árabil.
Nú skyldi maður halda að það væri ekki lagt viðkomandi aðilum það til lasts að hafa stundað útgerð allan þennan tíma heldur fengju þeir klapp á bakið. Svo er nú ekki að heilsa af hálfu ýmissa.

Þingmaðurinn fyrrverandi sem ég minntist á telur upp allnokkurn fjölda útgerða sem hefur starfað allan þennan tíma og segir m.a. eftirfarandi: Flestar stórútgerðir í landinu eru enn með sömu kennitölu og þær höfðu við upphaf kvótakerfisins og því byggja þær á nýtingarrétti sem þau borguðu ekki neitt fyrir. Síðar segir: Ef farið er hringinn í kringum landið sést að það eru enn sömu fyrirtækin og sama fólkið sem er enn í útgerð og byggir á þeim gjafakvóta sem þau fengu í upphafi.
Af mínu litla viti á þessum málum finnst mér það virðingarvert að sama fólkið með sömu kennitölur sé enn í sama atvinnurekstri og það var fyrir 30 árum þegar kvótinn var settur á sem aflaskerðing. Vildu menn heldur að a) Þetta fólk hefði selt kvótann og farið að nota peningana í annan atvinnurekstur? b) Dregið stórlega úr útgerð og leigt kvótann frá sér c) Farið á hausinn.

Eftirfarandi fyrirtæki eru talin upp sem gjafakvótafyrirtæki:

Í Vestmannaeyjum eru það Vinnslustöðin, Ísfélagið, Glófaxaútgerðin, Bergur-Hugin útgerðin, Dala-Rafns útgerðin, útgerðin á Frá, Bergi, Hugin, Þórunni Sveinsdóttur og Bylgjunni, ásamt fleiri útgerðum í Eyjum.
Á Hornafirði sameinuðust Skinney og Þinganes og tóku yfir Kaupfélags útgerðina.
Það eru sömu aðilar í útgerð á Fáskrúðsfirði og voru og á Eskifirði þar sem Eskja e.h.f. er og er hún rekin af afkomendum Alla ríka. Það eru sömu eigendur að Síldarvinnslunni á Norðfirði en þar eiga reyndar Samherjar orðið 30-40% hlut. Á Þórshöfn er Ísfélagið komið inn í útgerðina með heimamönnum og Grandi er komin inn í útgerð með heimamönnum á Vopnafirði. Á Siglufirði er Þormóður Rammi og hefur hann sameinast útgerð sem var á Ólafsfirði. Samherji og Brim eru á Akureyri. Á Sauðarkrók eru sami aðili í útgerð og verið hefur og er það Kaupfélagið. Á Grenivík er Gjögur. Gunnvör á Ísafirði hefur sameinast nokkrum öðrum útgerðum þar. Oddi er á Patreksfirði. Á Snæfellsnesi er og hafa verið meðal annars útgerð Kristjáns Guðmundsonar, Hraðfrystihús Hellisands, Steinunnar útgerðin í Ólafsvík, Rakel Ólsen í Stykkishólmi, Guðmundur Runólfsson í Grundarfirði. Í Reykjavík eru Grandi og Ögurvík. Stálfrúin í Hafnarfirði. Nesfiskur í Garði. Happasæls, Arnars útgerðin og Saltver í Keflavík. Þorbjörninn og Vísir í Grindavík. Í Þorlákshöfn er útgerðir Einars Sigurðssonar og Hannesar Sigurðssonar.

Þegar ég renni huganum hringinn í kringum landið af minni litlu þekkingu á þessum málum þá man ég t.d. eftir HP á Patró, HT á Tálknafirði, útgerðum á Bíldudal og Þingeyri, Flateyri og Súganda, Norðurtanganum og Íshúsfélaginu á Ísafirði, Básafell á Ísafirði, Guðbjörgin á Ísafirði, EG í Bolungarvík, útgerðinni í Súðavík, útgerðinni á Hvammstanga og Blönduósi, Skagstrending, útgerð á Sauðárkróki, Sæunni Axels á Ólafsfirði, Útgerðarfélagi Akureyrar, FH á Húsavík, Jökli á Raufarhöfn, útgerðum á Reyðarfirði, Djúpavogi, Breiðdalsvík og Stöðvarfirði, Árnesi í Þorlákshöfn og HB á Akranesi. Þessar útgerðir eiga það allar sameiginlegt að þær eru hættar. Sumar urðu gjaldþrota, aðrar voru seldar og eigendur tóku féð út úr greininni. Vafalaust má bæta fjölmörgum fyrrverandi útgerðum við þennan lista sem ég man ekki eftir. Ég tel fyrst og fremst upp þær stærri og þær sem voru burðarásar í atvinnulífinu á einstökum stöðum. Þessar útgerðir fengu hins vegar úthlutað kvóta eftir sömu reglum og þær sem enn lifa. Væri það nú betra fyrir land og lýð ef þær sem taldar voru upp í fyrri hópnum hefðu hlotið sömu örlög og þær sem hættar eru? Það þarf alla vega að sýna mér fram á það með gildum rökum. Mér finnst það miklu frekar vera aðdáunarvert að hafa haldið þessum fyrirtækjum gangandi allan þennan tíma við misjafnar rekstrarforsendur, iðulega erfiðleika vegna rangrar gengisskráningar og nær því samfelldan samdrátt aflaheimilda.

Engin ummæli: