fimmtudagur, mars 10, 2011

Ferðin til Oxford var fín í alla staði. Við fórum til Lundúna á föstudaginn að skanna útsölur en útskriftin sjálf var á laugardaginn. Mæting var upp úr klukkan 10 um morguninn og veitti ekki af því það var farin að myndast biðröð. Húsið var opnað um kl. 10:30 og hver útskriftarnemi mátti bjóða þremur gestum með sér. Athöfnin fór fram í gömlu leikhúsi sem er í stíl við allt annað sem byggir á gömlum merg. Sá sem stjórnaði athöfninni hélt í upphafi ræðu á ensku þar sem hann skýrði það sem framundan var en sagði að sjálf athöfnin færi fram á latínu. Latínan hefði verið notuð í þessu skyni í um 800 ár, það hefði gengið vel og því væri ekki breytt sem vel gengi þar á bæ. Nemendur voru kallaðir fram í ákveðinni goggunarröð. Fyrst fóru doktorar, svo meistarar og síðast þeir sem voru að ljúka B.Sc eð BA námi. Fulltrúi hverrar deildar lýsti því að hans nemendur hefðu staðist þær kröfur sem gerðar væru til ans, þá hneigðu nemendur og fulltrúar skólans sig fyrir hvor öðrum og svo gengu nemendur út. Eftir töluverða stund komu þeir svo inn aftur en þá höfðu þeir íklæðst útskriftarskikkjunum. Þær voru í 37 mismunandi afbrigðum allt eftir því hvaða nám hver nemandi stundaði. Þá voru menn leiddir aftur fyrir fulltrúa skólans, þá var aftur farið með latneska kveðju, nemendur fóru með eið skólans, menn hneigðu sig hvor fyrir öðrum og svo gengu nemendur út, útskrifaðir frá Oxford. Þetta tók hátt í tvo klukkutíma. Eftir það var farið í borðhald í matsal skólans og síðan voru myndatökur og annað sem til heyrði. Þetta var hin hátíðlegasta athöfn og gaman að fá tækifæri til að upplifa hana.

Það var ekki mikið hlaupið úti, heldur fyrst og fremst rólað létt í viðhaldsgírnum.

Engin ummæli: