mánudagur, september 05, 2011

Að undanförnu hefur átt sér stað allnokkur umræða um fyrirhuguð kaup kínverja nokkurs á jörðinni Grímsstaðir á fjöllum. Umræðan er eins og svo oft hún fer út og suður og magnið meir en gæðin. Margir sjá ekkert athugavert við það að erlendur aðili kaupi upp 0,3% af Íslandi. Þar á meðal má nefna bæði forsætisráðherra og forseta Íslands. Í því sambandi er mjög eðlilegt að spyrja: "Hvar eru mörkin?" Mega erlendir aðilar kaupa 1% af landinu, 10% eða 100%? "Hvar eru mörkin?" Þess þá heldur er nauðsynlegt að fá umræðu um slíka hluti þegar helstu ráðamenn þjóðarinnar tjá sig á þennan hátt. Forsetinn nefndi erlent eignarhald í Össuri og Marel til samanburðar. Eignarhald í fyrirtækjum eða fasteignum er ekki það sama og eignarhald í landi. Allt frá landnámi hefur landinu að mestu leyti verið skipt upp í bújarðir af eðlilegum ástæðum. Þar tók einn við af öðrum og ákveðið kerfi var í gangi öldum saman. Það gekk árekstralaust og menn byggðu upp ákveðið samhjálparkerfi um smalanir og aðrar skyldur og það var sett á fót ítala þar sem þurfti að takmarka beit. Á síðustu áratugum hefur þetta breyst. Aðgengi að landi er orðið verðmæti út af fyrir sig. Einstaklingar eru farnir að kaupa land í þeim tilgangi að eiga það út af fyrir sig. Það á bæði við um innlenda aðila og erlenda. Slík þróun kallar á skoðun á fyrri gildum og hefðum. Það getur orðið stórmál ef einstaklingar fara að takmarka umferð á gríðarstórum jörðum sem ná langt inn á hálendið. Í Noregi er við lýði ákveðin búsetuskylda á eignarhörðum. Þar er dálítið langt seilst en sama er, almannaréttinn verður að virða í þessu samhengi þar sem það á við.
Hvað kínverjann varðar þá er fyrsta spurningin, getum við keypt land eins og okkur sýnist í Kína? Ef eru takmarkanir á því þá er rétt að spyrja: "Hvers vegna?" Síðan má ekki gleyma því að íslenskt hagkerfi er svo örlítið að það bliknar í samanburði við þann mikla auð sem finnst á einstaklingshöndum erlendis. Íslendingar eru afar svag um þessar mundir fyrir því að vilja fá erlenda fjárfestingu inn í landið. Þeir þurfa að halda á erlendu fjármagni inn í landið. Væri ég kínverjinn þá myndi ég nota mér það fram í ystu æsar. Ef ég fengi að kaupa landið með ákveðnum skilyrðum sem myndu hindra á einhvern hátt möguleika mína til að nýta þá aðstöðu sem þar væri til staðar, þá myndi ég gera það að skilyrði fyrir því aukinni fjárfestingu að þessum skilyrðum yrði létt af. Asni hlaðinn gulli kemst inn um hvaða borgarhlið sem er. Kínverjar hugsa mjög langt fram í tímann og eru strategiskir. Þeir hafa keypt upp auðlindir í fjölmörgum Afríkulöndum þar sem stjórnkerfið er veikt og principin fá. Við erum á margan hátt ekkert sterkari á svellinu sem stendur. Í huga margra skiptir það eitt máli að fá peninga inn í landið. Afleiðingarnar skipta minna máli. Að bera saman fjárfestingu í landi og í húsi er náttúrulega fáránlegt. Hús er afskrifað en land ekki. Maður spyr sig af hverju er ekki nóg að fá leigulóð til næstu 100 ára fyrir hótelreksturinn go golfvöllinn uppi á Hólsfjöllum eða hangir eitthvað annað á spýtunni. Erlendir auðmenn eru ekki í neinni góðgerðastarfsemi. Allt tal um slíkt er vægt sagt fáránlegt en beinlínis hættulegt ef það kemur frá einhverum þeirra sem mikið eiga undir sér.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er með landið eins og nýtingu fiskimiðanna að ef þetta á að vera í eigu einstaklinga sem geta ráðstafað því að eigin vild þá skiptir það mig engu máli hvort það er í eigu útlendinga eða íslendinga. Ég á jafn lítið í því sjálf hvort heldur sem er.
Bibba

Nafnlaus sagði...

Á þessu tvennu er alger eðlismunur. Veiðirétti er úthlutað til eins árs í senn samkvæmt því sem stjórnvöld telja skynsamlegast og hagkvæmast. Í jarðasölunni er verið að selja landið um alla eilífð. Óafturkallanlegt. Gera verður þá körfu til stjórnvalda að þau móti reglur um hve mikill hluti landsins má vera í eigu erlendra aðila. Er það 1%, 10% 50% eða allt. Kað vildi japanskur auðkýfingur kaupa Færeyjar eins og þær lögðu sig fyrir 10-15 árum. Indíánar höfðu reyndar þá skoðun að það gæti enginn átt landið.