þriðjudagur, október 04, 2011

Við Haukur renndum vestur á Rauðasand á laugardaginn. Það fer hver að verða síðastur að draga þunga kerru vestur landleiðina þegar komið er fram í október ár hvert. Við fórum með stóran hluta af panelnum í húsið sem var eftir að koma vestur. Ferðin gekk vel og hvassviðrið sem var búið að spá lét ekki sjá sig en þó var vissulega drjúgur strekkingur á leiðinni. Haustlitirnir skörtuðu sínu fegursta í austursýslunni en maður hefði viljað hafa aðeins betri tíma til að taka myndir. Rétt sunnan við Bjarkalund sveif þessi myndarlegi örn yfir veginn. Ég hef ekki séð örn þar áður en það er náttúrulega ekki að marka. Maður er ekki á ferðinni þarna upp á hvern dag. Húsið heima var eins og skilið var við það í vor. Ólíkt hreinlegra er í kringum það eftir að ég girti það af í sumar. Skepnugreyin vildu safnast í skjólið þegar hvessti eða rigndi eins og eðlilegt er. Við gerðum ekkert á laugardagskvöldið annað en að bera viðinn í hús. Það var líka eins gott að ljúka því skömmu eftir að við lukum því fór að hellirigna og var stórrigning alla nóttina og fram undir hádegi morguninn eftir. Það flóðóx fljótt í öllum ám. Við kíktum út að Lambavatni um kvöldið í kvöldkaffi. Það er alltaf gaman að setjast við eldhúsborðið hjá gömlum kunningjum og rifja upp gamla tíma og gleymdar sögur. Af nógu er að taka í þeim efnum. Við sniðum efni og negldum á tvo veggi áður en við fórum af stað á sunnudaginn. Það var á nippunni að það væri hægt að saga úti en það bjargaðist. Eftir stuttan stans á Patró heldum við af stað sem leið lá suður. Á líklegum arnarslóðum sem ég vissi af sat einn eins og klettur rétt fyrir ofan veginn. Maður skilur harla vel að fólk vestra vilji ekki sætta sig við þá framtíðarsýn að landleiðin liggi yfir hálsana í framtíðinni. Það er á hreinu að það er sama hve góður vegur verður gerður yfir þá þá nær vegurinn aldrei upp úr óveðrum og ófærð. Óásættanlegt er á okkar tímum að aðalsamgönguæð héraðsins eigi að vera lögð þannig til allrar framtíðar.

Ég var eitt sinn viðstaddur þegar Göran Persson, þáverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, hélt ræðu. Hann talaði blaðalaust í hátt í klukkutíma yfir 2500 manns, klæddur í gallabuxur og stutterma skyrtu sem var opin niður á bringu. Hann hélt óskiptri athygli allra allann tímann. Þannig eiga skipstjórar að vera. Mér kom þessi ræða í hug þegar ég opnaði fyrir útvarpið í gærkvöldi laust eftir klukkan 20:00.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég er ekki viss um að ég mundi vilja sjá núverandi forsætisráðherra Íslands flytja ræðu í stutterma skyrtu sem er opin niður á bringu...

Nafnlaus sagði...

Tek að vissu leyti undir þetta sjónarmið!! en að öðru leyti er þetta samanburðarhæft.