miðvikudagur, nóvember 09, 2011

Ég heyrði sagt frá einni döprustu skoðanakönnun sem ég hef heyrt sagt frá lengi í fréttum í gær. Raunar er það spurning hver standardinn sé á því sem kallað eru fréttir og er lesið upp í ríkisíutvarpinu. Hin svokölluðu Hagsmunasamtök heimilanna (sem eru náttúrulega ekkert annað en hagsmunasamtök tiltölulega fárra heimila) höfðu látð gera skoðanakönnun og m.a. var spurt: Vilt þú láta fella niður hluta af höfuðstól lána hjá Íbúðarlánasjóði? Vitaskuld svöruðu langflestir því að það vildu þeir vitaskuld. Hver vill það ekki? Það fellur yfirleitt í góðan farveg ef fólk heldur að einhver annar muni borga skuldir þeirra. Það er bara svo sjaldan að það gerist. Hver myndi svo borga skuldir þeirra sen fengju skuldir sínar felldar niður að hluta til hjá Íbúðarlánasjóði. Það væru lífeyrisþegar og þeir sem fá greitt úr lífeyrissjóðum í framtíðinni. Íbúðarlánasjóður fjármagnar sig með skuldabréfaútgáfu sem m.a. lífeyrissjóðirnir kaupa. Ef þau eru ekki greidd til baka þá tapa lífeyrissjóðirnir. Það er ekki flóknara.
Önnur spurningin var: Viltu að verðtryggingin verði felld niður? Mikill meirihluti þeirra sem svöruðu vildu það vitaskuld. Umræðan hefur verið á þann veg að sá hluti af vöxtum lána sem heitir verðbætur muni falla niður en vextir standa eftir óbreyttir. Ég fæ ekki séð hvernig það geti gerst. Ef verðtryggingin verður felld niður þá munu vextir hækka. Það er svo einfalt. Á hinn bóginn myndu vaxtahækkanir Seðlabankans bíta mun betur en þeir gera í dag. Þeir færu lóðbeint út í verðlagið. Til þess væri leikurinn gerður. Það myndi fæla fólk frá að taka lán því þau gætu orðið svo dýr ef verðbólga hækkaði og vextir í kjölfar þess. Verðtryggingin var tekin upp fyrir um 30 árum í kjölfar þess að vextir höfðu verið neikvæðir í áraraðir og gríðarleg fjármunatilfærsla átt sér stað frá þeim sem áttu aura í banka til þeirra sem höfðu aðgengi að lánsfé. Ef menn eru að tala um spillingu nú, þá ættu menn að líta þessa áratugi aftur í tímann. Ég man eftir að hafa verið á opnum fundi með Ólafi Jóhannessyni vestur í Stykkishólmi að vorlagi árið 1979. Þá fór Björn á Kóngsbakka í Helgafellssveit í ræðustól og kvað bera vel í veiði að ná beinu sambandi við dómsmálaráðherra landsins. Hann sagðist hafa lagt sem svaraði sjö kýrverðum inn á bankabók fyrir nokkrum árum. Þegar hann tók svo aurana út skömmu fyrir fundinn þá fékk hann sem svaraði andvirði sjö smákálfa. Hann sagðist einfaldlega hafa verið rændur og krafðist leiðréttingar af hálfu dómsmálaráðherra. Ólafi vafðist tunga um tönn en sagði að svona væri þetta bara. Þetta var náttúrulega forkastanlegt svar en það má segja það Ólafi til hróss að hann hafði frumkvæði að því fáum misserum síðar að koma verðtryggingu lána í framkvæmd. Það að þeir sem lögðu fjármuni inn á banka eða lánuðu öðrum gátu gengið að því vísu að fá peningana sína til baka gerði allt lánaumhverfi í landinu heilbrigðara. Nú vill þröngur þrýstihópur brjóta þetta kerfi niður. Þegar ekki þarf að hafa sérstaka verðtryggingu í nálægum löndum þá byggir það á því að öll efnahagsstjórn þar er miklu agaðri en hér. Við eigum langt í land með að ná nálægum þjóðum í aga og yfirsýn um almenna efnahagsstjórn.

Shit. Ég var ekki dreginn út í GUCR hlaupinu í Bretlandi. Það var dregið nú á sunnudaginn var. Um 140 manns taka þátt í því. Ég verð þá bara að prufa aftur á næsta ári. Nú verður einfaldara og ódýrara að taka þátt í hlaupum í Bretlandi þegar Easy Jet verður farið að fljúga hingað. Miði fram og til baka kostar undir tuttugu þúsund þegar maður tekur eina tösku með.

2 ummæli:

Grímur Sæmundsson sagði...

Fúlt að þú hafir ekki fengið að vera með í Bretlandi.

Varstu búinn að frétta af þessu hér?
http://www.kondis.no/trondheim-oslo-foot-race-2012.4977588-127676.html

Nafnlaus sagði...

Svona er þetta. Það verður ekki á allt kosið. Nei ég var ekki búinn að sjá þetta hlaup. Áhugavert en líklega dálítið dýrt þar sem maður þarf að hafa allt úthald með sér í bíl. Þetta hefur verið nagli sem hljóp þetta fyrir 25 árum síðan.