laugardagur, desember 31, 2011

Ég fékk fyrir skömmu í póstkassann nýtt tölublað af Þjóðmálum. Þetta rit er eina almennilega ritið um þjóðfélagsmál sem kemur út hérlndis um þessar mundir. Í því eru yfirleitt vandaðar greinar um mörg þau efni sem eru ofarlega á baugi hverju sinni. Auðvitað er það svo að það eru ekki allir sammála þeim áherslum sem fram koma í ritinu en það er bara þannig. Skoðanir eru settar fram til að skapa umræðu og leiða fram mismunandi vinkla. Maður hefur stundum á tilfinningunni að það sé búið að ákveða einhversstaðar hvernig skoðanir maður á að hafa á hinum og þessum málum, sé miðað við viðbrögðin ef fram koma skoðanir sem ekki falla í kramið hjá ýmsum þeim sem betur þykjast vita en allur almúginn. Það er áhugavert að bera saman umræðu dagsins á maga lund og úmræðuhefðina sem þótti sjálfsögð á fyrri áratugum síðustu aldar. Það er ekki að sjá að mikið hafi breyst. Þá voru hreintrúarmenn einnig fyrirferðarmiklir og orðavalið gagnvart þeim sem voru á öndverðum meiði var ákaflega áþekk þeirri umræðuhefð sem bloggheimurinn hefur leyst úr læðingi.

Mér þóttu nokkrar greinar í Þjóðmálum mjög áhugaverðar. Gunnar Rögnvaldsson skrifar um áhlaupið á íslensku krónuna. Það er ekki áhlaup af hálfu erlendra vogunarsjóða og hrægamma heldur eru innlendir framámenn þar fremstir í flokki. Krónunni er fundið allt til foráttu og hún talin upphaf og endir alls þess sem misfarist hefur í efnahagsmálum hérlendis. Það á við í þessu efni eins og í svo mörgu öðru að "Árinni kennir illur ræðari". Það er nú einu sinni svo að efnahagsstjórnun á Íslandi hefur oftar en ekki verið afskaplega frumstæð og vanhugsuð. Tveggja áratugaskeið óðaverðbólgu á árunum 1971-1991 var ekki krónunni að kenna heldur þeim sem sátu við stjórnvölinn. Krónan var felld kerfisbundið til að rétta hag útflutningsgreinanna (sjávarútveegsins) sem bar sig illa. Afkoma hans var yfirleitt erfið vegna þess að það störfuðu alltof margir við hann, fyrirtækin voru of mörg, afköstin voru of lítil og bátarnir of margir miðað við þann afla sem dreginn var að landi. Það var því ekki krónunni að kenna að gengið va rfellt heldur var krónan notuð sem tæki til að halda þjóðarbúinu gangandi og halda avinnuleysi í lágmarki.

Gunnar kemur í grein sinni inn á örlög Nýfundalands, Nova Scotia og Prince Edward Island. Þessi smáríki sem eru á asuturströnd Kanada misstu öll sjálfstæði sitt árið 1949. Nvers vegna gerðist það? Meginástæðan var að allar meginstoðir efnahagslífsins voru komnar í hendur erlendra aðila. Kaupskipaflotinn var í eign erlenra aðila, bankarnir sömuleiðis, landbúnðaðarvörur voru fluttar inn og síðan var búið að binda myntina við Kanadadollar. Þannig gátu Nýfundnalendingar sig hvergi hrært og töpuðu allri samkeppnisstöðu á fiskmörkuðum gangvart Íslandi og fleiri fiskveiðiþjóðum sem höfðu sveigjanlegra hagkerfi. Væri ég að víla og díla um inngöngu Íslands í ESB þá myndi mér finnast það ómaksins virði að gera úttekt á því hverju það myndi breyta gangvart samkeppnisstöðu sjávarútvegsins ef við værum búnir að taka upp Evru og hefðum þar af leiðandi misst allan sveigjanleika hvað gengismál varðar. Norðmenn hefðu áfram sína norsku krónu og hefðu þar af leiðandi aðra möguleika til að laga sig að aðstæðum. Ég veit það alla vega að Finnar öfunda Svía af því að hafa sína sænsku krónu og geta þannig tekið sjálfstæðar ákvarðanir í utanríkisviðskiptum. Sænska krónan hefur heldur látið undan síga til að tryggja stöðu útflutningsatvinnugreinanna og bæta hag atvinnulífsins.
Sigrun Þormar skrifar grein um hvað sé í ESB pakkanum. Sigrún hefur buið í Danmörku í 30 ár og þekkir umræðuna því vel frá þeirra sjónarhorni. Hún rekur ein 15 atriði sem muni breytast við inngöngu landsins í ESB og hafa veruleg áhrif á stöðu þess.
Síðan er minnst á bók Snorra G. Bergssonar, "Roðinn í Austri" sem fjallar um sögu kommúnistahreyfingarinnar hérlendis á árunum 1919-1924. Ég hef ekki lesið þessa bók en þó gluggað í hana. Hún á það sammerkt með bók Hannesar Hólmsteins að með þeim er þessi hluti íslandsssögunnar skýrður og settur fram á nýjan og afar áhugaverðan hátt. Það er ljóst að margt það sem haldið hefur verið fram til þessa þarfnast mikillar endurskoðunar við. Ég hlakka til að lesa bók Snorra ítarlega.

Árið í ár hefur ekki verið neitt sérstakt hlaupalega séð. Ég var dálítið lengi að jafna mig eftir brettahlaupið í desember í fyrra. Skrokkurinn var þungur og neistinn á andanum skki sérstaklega skarpur. Ég bjó mig því ekki eins vel undir hlaupið í Belfast eins og ég vissi að ég þyrfti að gera ef ég ætlaði að ná hámarksárangri. Árangurinn var engu að síður í lagi en hann byggði meir á reynslu heldur en getu. Ég fann eftir það að það var kominn tími á að hvíla mig, bæði líkamlega og andlega. Ég hafði hlaupið á fullu í þrjú ár samfleytt. Ég hef verið að predika það að hvíldin sé nauðsynlegur hluti að æfingaskipulaginu og nú var ekki lengur undan því vikist. Því hægði ég verulega á öllum hlaupum seinni hluta ársins, baslaði við að ná mér góðum af meiðslum, borðaði mat sem ég hef ekki borðað um nokkurra ára skeið og bætti á mig nokkrum kílóum. Nú um áramót finnst mér ég vera tilbúinn í slaginn aftur. Á næsta ári bíða nokkur áhugaverð verkefni s.s. GUCR hlaupið í Englandi, Hamingjuhlaupið á Ströndum sem nú verður hlaupið frá Trékyllisvík til Hólmavíkur (það er fullorðið) og svo vonast ég til að komast á heimsmeistaramótið í 24 tíma hlaupi sem haldið verður í Póllandi í september. Þetta verður áhuagvert.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Textinn í þessari færslu er eins og hann sé tvítekinn hjá þér eða hafi verið settur inn tvisvar. Annað sem þú ættir að ath. er að fara inn í design stillingarnar á blogginum þínum og laga uppsetninguna á blogginum, þ.e. breiddina t.d., en textadálkurinn og dálkurinn hægra meginn virðast skarastþ

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta. Ég kann bara ekki að stilla dálkbreiddina hjá mér enn sem komið er!!

Nafnlaus sagði...

Í stýrikerfi bloggsins, svokölluðu "dashboard" þar er linkur sem kallast Design. Þarna er hægt að gera ýmsar breytingar, en þetta er samt gamla stjórnkerfið. Uppi til vinstri á þessari design síðu er linkur sem heitir "Template Designer" sem býður upp á alls konar skemmtilegar breytingar og lagfæringar á blogginum, þar á meðal "Adjust widhts" stillingu. Vona að þetta hjálpi.