fimmtudagur, mars 01, 2012

Ég hlusta stundum á beina útsendingu frá Alþingi. Það gerist nú fyrst og fremst þegar maður hefur grun um að eitthvað bitastætt sé til umræðu en stundum kíkir maður án sérstakrar ástæðu. Svo var í dag. Ég datt þá inn í umræðu um tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipan fiskveiðistjórnunar. Þessi umræða vakti forvitni mína. Það var vegna þess að sjávárútvegurinn er ennþá miklvægasta atvinnugrein þjóðarinnar, umræða um sjávarútvegsmál hefur stundum verið dálítið út og suður að mínu mati og í þriðja lagi vegna þess að ég var svo heppinn sl. vor að fá tækifæri til að taka þátt í sérfræðigavinnu um að leggja mat á frumvarp til breytinga á sjávarútvegskerfinu. Ég ætla ekki að fjölyrða um umræðuna á Alþingi. Hún var eins og svo oft áður, misdjúprist. Texti þingsályktunarinnar vakti hins vegar athygli mína.

Þjóðaratkvæðagreiðsla er dálítið stórt mál. Að öllum jafnaði eru mál ekki lögð í almenna atkvæðagreiðslu, hvort sem um er að ræða í stærri eða minni hóp, nema valkostir séu skýrir svo niðurstaða atkvæðagreiðslunnar geti verið óyggjandi og annað hvort verið endanleg eða veitt skýra leiðbeiningu um í hvaða átt haldið skuli fyrir þá sem taka endanlega ákvörðun.

Ég get ómögulega séð að um slíkt sé að ræða í þessu tilviki. Lagt er t.d. til að bornar séu upp grundvallarspurningar í þjóðaratkvæðagreiðslunni s.s. hvort eigi að taka upp nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi. Á að leggja fram slíka spurningu og biðja um já eða nei svar? Nýtt kerfi eða ekki nýtt kerfi. Ef svarið er já, hvað þá? Hvað segir niðurstaðan? Jú, það er óánægja með gamla kerfið en út frá hvaða forsendum? Það hlýtur að vera grundvöllur þess að vita í hvaða átt skal halda með að þróa nýtt kerfi.ef svarið er nei, á þá ekki að breyta neinu um aldur og æfi? Spyr sá sem ekki veit.

Í öðru lagi á að bera upp grundvallarspurningu um hvort eigi að setja sérstakt ákvæði í stjórnarskrána um þjóðareign auðlindarinnar. Hvað þýðir það? Hvað þýðir að þjóðin eigi auðlindina? Þjóðin er ekki sama og ríkið. Þjóðin er virkilega ofnotaður frasi um þessar mundir. Meir að segja er hugtakið þjóðin fléttuð inn í umræðu um 30.000 undirskriftir sem bornar voru heim að bæ nokkrum hér í nágrenninu fyrir stuttu. Þar var minnst á þjóðarvilja enda þótt einungis rúmlega 10% kosningabærra einstaklinga hefðu tekið þátt í undirskriftasöfnuninni.

Svo kemur þetta fína orðalag.... og innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar. Hvað þýðir þetta: innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar. Hvað þýðir að innkalla aflaheimildir? Jú það þýðir að taka aflaheimildir frá þeim fyrirtækjum sem nú stunda sjóinn og úthluta þeim að meira eða minna leiti til annarra. Það hlýtur að kalla á bætur til þeirra fyrirtækja sem hafa keypt heimildirnar og missa starfsgrundvöll sinn. Verður þessa látið getið í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu hvað „já“ niðurstaðan gæti kostað ríkið og þar með þjóðina? Verður þess látið getið í atkvæðagreiðslunni hvernig staðið verður að endurúthlutuninni? Ríkir almenn sátt um þá aðferðafræði? Eru ekki margir möguleikar þar á ferðinni?
Svo er ákvæðið að endurúthluta aflaheimildum gegn gjaldi til þjóðarinnar. Er hér verið að tala um skattlagningu í ríkissjóð eða er verið að tala um að hver íbúi landsins fái senda ávísun? Hvernig á að vera hægt að fjalla um slík mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á það má minna í þessu sambandi að meirihluti þjóðarinnar býr á suðvesturhorninu. Hann yrði vafalaust ánægður með að fá meiri peninga í ríkissjóð til að auka og bæta þjónustuna við þennan landshluta. Ætli íbúar annarra landshluta yrðu jafnánægðir með þá þróun mála.

Alþingismenn eru kosnir á þing til að setja löggjöf og skipa öðrum þeim málaum sem því tengist. Þeir þurfa oft að taka ákvarðanir sem eru misvinsælar. Á seinni árum hefur vægi skoðanakannana farið vaxandi í almennri umræðu. Stjórnmálamenn nota niðurstöður þeirra gjarna og taka afstöðu út frá því hvað „þjóðin vill“ í hinum og þessum málum. Nú sýnist mér að það eigi að fara að nota þjóðaratkvæðagreiðslur í álíka tilgangi. Slíkar aatkvæðagreiðslur hafa einungis eitthvert gildi ef spurningarnar sem svara skal séu mjög afdráttarlausar og skýrarr. Ég fæ ómögulega séð að það eigi við í þessu tilefni.

Engin ummæli: