miðvikudagur, janúar 26, 2005

Ég hef ákveðið að taka þátt í 100 mílna haupinu WS100 í Kaliforníu þann 25 júní í vor ef all gengur upp sem fyrirhugað er. Í tengslum við það hef ég orðið var við nokkurn áhuga hjá hlaupurum um að geta fylgst með hvernig undirbúningurinn gengur. Það er því ekki af eintómri sýniþörf að ég mun á næstu mánuðum skýra frá undirbúningnum fyrir hlaupið, bæði þeim andlega sem og hinum líkamlega. Mér finnst sjálfum gagnlegt að hafa aðgengilegt samandregið yfirlit, þegar upp verður staðið, um hvernig til hefur tekist því þetta er ekkert venjulegt verkefni. Eins getur þetta kannski orðið einhverjum að gagni, hvernig sem til tekst. Ef allt gengur upp þá getur það orðið einhverjum hvatning og eins ef miður tekst til þá geta menn vonandi lært af því sem úrskeiðis fór. Það er nefnilega alveg klárt að þegar lagt er upp með för eins og þessa að þá er ekki öruggt mál að maður komist í mark. Það getur margt komið fyrir á langri leið. Bæði getur eitt og annað hent í undirbúningnum sjálfum, meiðsli eða veikindi sett strik í reikninginn og eins getur eitthvað klikkað í hlaupinu sjálfu.

Ég ætla að reyna að nýta mér til undirbúnings reynslu annarra fra viðlíka hlaupum, bæði þeirra sem hafa náð settu marki og eins þeirra sem hafa þurft að gefast upp. Það minnkar líkurnar á því að maður taki rangar ákvarðanir, gleymi einhverju eða geri of lítið úr því álagi sem felst í hlaupi af þessu tagi. Hlaup af þessari tegund snúast nefnilega ekki einvörðungu um hlaupagetu heldur einnig að verulegu leyti um skipulagningu fyrir hlaup og í hlaupinu sjálfu. Ég mun því á næstunni skýra frá því sem á dagana drífur í undirbúningnum, bæði hvað varðar skokkið sjálft og eins frá ýmsu þar fyrir utan.

Engin ummæli: