föstudagur, janúar 28, 2005

Hljóp léttan rúnt í gærkveldi eftir bókinni. Fer síðan aftur út í kvöld til að bæta upp það sem féll niður á miðvikudaginn. Ég hef verið að lesa mér til um WS100 og meðal annars reynslusögur fyrri þátttakenda. Ég sé að ég þarf að taka nokkra rúnta aleinn í kolamyrkri með höfuðljós til að venja mig við að hlaupa í myrkri. Best er ef óslétt erundir fæti því þannig eru aðstæður um nóttina, vaðið yfir ár, pjakkað upp bratta og staulast niður bratta. Það er því að mörgu að hyggja í þessu efni ef maður á að geta sagt þegar af stað er lagt; ég gerði það sem ég gat til að undirbúa mig.

Aðalfundur UMFR36 verður haldinn á mánudagskvöldið kemur. Ég ætla að láta renna þar í gegn DVD disk frá 100 km á Borgundarhólmi. Hann hefur verið í láni hjá félaga Gísla og þegar ég kannaði hvar hann væri til að hafa allt á hreinu þá fékk ég eftirfarandi limru sem svar:

Í óreiðu eflaust sekk
á mínum glámkennda bekk
mér tókst að gleyma
geisladisk heima
og græt eins og gimbill við stekk


Ég varða að gjalda líku líkt og sendi honum aðra til baka:

Diskinn minn fús vill hann finna
og fer þá víst grátnum að linna.
Þá Gísli mun hoppa
og sem gimbill skoppa
og gestum í bílskúrnum brynna


Af öðru er mér ofarlega í huga hin beinskeytta þriggjablaðsíðna skýrsla þar sem kemur fram að kostnaður við göng til Vestmannaeyja sé ekki þrjátíu og eitthvað milljarðar heldur 14 - 16 milljarðar þegar eitt og annað hefur verið tekið til hliðar svo sem kostnaðinn við að koma mulningnum út úr göngunum á meðan á borun stendur. Mér finnt þetta vera eitt af því mest absúrda sem ég hef heyrt lengi að menn séu í raun og veru að tala um það í alvöru að bora tæplega 20 km löng veggöng út í virkt eldfjall.

Engin ummæli: