föstudagur, júní 17, 2005

Hljóp léttan rúnt í hverfinu í dag, vel klæddur og svitnaði vel. Fékk þriðja bréfið frá WS100 í dag. Þar voru vangaveltur um ýmislegt, meðal annars snjóinn. Hann bráðnar hratt þessa dagana og þeir gera ráð fyrir að það geti verið snjór á leiðinni sem svarar 5 - 12 mílur. Það gæti verið mimklu verra og er ekki svo slæmt.

Var einnig í samskiptum við Rollin. Salttakan er eitt af því sem ég hef nokkrar áhyggjur af. Hann notar salt- og steinefnapillur sem hann tekur með ákveðnu millibili. Við hittumst fyrst við Robinson Flat sem er um 25 mílur inni á leiðinni. Þá ætlar hann að láta mig hafa góðan lager sem ætti að duga vel áleiðis eða þangað til ég hitti hann aftur við Foresthill School á 62 mílu.

Var einnig í samskiptum við Kristleif í San Francisko. Það er orðið klárt að þeir verða tveir sem ætla að crewa mig á leiðinni sem er afar gott. Það gerir margt auðveldara. Þá þarf ég t.d. ekki að hugsa fyrir útsendinu birgða nema á fyrri hluta leiðarinnar.

Í kvöld var félagsfundur í félagi 100 km hlaupara. Það var tímamótafundur því nú var tekinn fyrsti nýi félaginn til viðbótar við þá sem stofnuðu það sl. haust. Húfan var borin fyrir Halldór á glæsilegum púða úr stofu Ágústar eftir að sýnt þótti að hann stæðist allar kröfur um inngöngu í félagið. Alls erum við nú sex sem höfum skrefað 100 km, tveir oftar en einu sinni. Halldór fór síðan yfir ýmsa hluti úr hlaupinu og hvernig það gekk fyrir sig. Það er alltaf gagnlegt því ekkert hlaup er eins. Við spjölluðum síðan aðeins um WS 100 og þeir voru þegar farnir að skipuleggja vakt við tölvuna á sunnudagsmorgun þegar millitímar geta farið að birtast á netinu til að ganga úr skugga um hvort kallinn væri enn á ferðinni.

Víkingur tapaði 0 - 2 fyrir KA í kvöld. Það voru ekki góð tíðindi.

Engin ummæli: