miðvikudagur, júní 21, 2006

Fór á Esjuna seinnipartinn. Þetta er því miður bara í þriðja sinn í ár sem ég nýti mér hana blessaða. Það var hlýtt en svolítið hvasst á móti og alveg fullt af fólki. Það er búið að setja upp leiðbeiningaskilti á allavega tveimur stöðum það ég sá og einnig er búið að laga götuna upp að litlu brúnni undir brekkunni og bera í hana. Nú getur maður gasað niður á fullum krafti síðasta spölinn. Ég var 42 mín upp að steini og 22 niður. Það er ekkert sérstakt en að lagast þegar ég fer að fara oftar. Fæturnir í fínu lagi.

Því miður kemst ég ekki á Mývatn í ár. Það verður fótboltamót á Sauðárkróki í staðinn. Það er alltaf gaman á Mývatni, heimamenn annast framkvæmdina af prýði og leggja metnað sinn í að gera þetta vel. Þótt að Pétur Franzson ætli að hlaupa 100 km í Lapplandi eftir rúma viku þá bregður hann sér engu að síður norður að skokka maraþon á Mývatni. Hann og Siggi Ingvars eru þeir einu sem hafa hlaupið öll Mývatnsmaraþonin. Hvað er eitt Lapplandshlaup gagnvart því að halda slíkum sessi. Það lítur út fyrir gott veður þetta árið fyrir norðan. Megi gott á vita.

Þegar ég flutti til Svíþjoðar á sínum tíma þá stakk maður sér í að reyna að læra málið. Eitt af því sem skipti máli var að lesa og lesa. Því keypti ég mér m.a. allar tíu bækurnar eftir Sjövall og Wahlöö. Maðurinn á þakinu., Maðurinn sem hvarf, Brunabíllinn sem hvarf o.s.frv. Ágætir glæpareyfarar. Ég var ekki búinn að lesa margar bækur þegar ég fór að átta mig á formúlunni. Það er framinn glæpur. Lögreglan rannsakar málið, Martin Beck og félagar. Martin Beck á í ýmsum persónulegum erfiðleikum heima fyrir og lesendum er gerð nokkur grein fyrir því jafnhliða því sem sagt er frá rannsókn málsins. Svo finnst alltaf sönnunargagn eða lykill að lausn gátunnar fyrir algera tilviljun. Málið leysist og Martin Beck gat farið heim til sín og hugsað um sín eigin vandamál. Arnaldur Indriðason fer nokkuð svipaðar slóðir í uppbyggingu sinna bóka en þó ekki alltaf. Mýrin og Grafarþögn eru ekki samkvæmt hefðbundinni formúlu og eru ágætar bækur. Ég keypti mér hins vegar Vetrarborgina fyrir skömmu. Þokkalega skrifaður formúlureyfari samkvæmt uppskrift Sjövall og Wahlöö. Morð er framið. Lögreglan rannsakar málið en hefur lítið sem hönd festir á. Ýmsir áhugaverðir vinklar tengjast rannsókninni. Lögreglan á í ýmsum vandamálum heima fyrir og ber með sér drauga úr fortíðinni. Starfsmaður Sorpu hirðir hníf úr ruslinu sem hent er í gám og skilar honum síðan til lögreglunnar vegna auglýsingar. Málið leysist. Dæmigerður formúlureyfari. Arnaldur er meira að segja búinn að segja að það eigi að vera 10 bækur í seríunni. Getur hann ekki látið þær vera níu eða ellefu til að brjóta sig aðeins út frá Sjövall og Wahlöö?

Engin ummæli: