þriðjudagur, júní 27, 2006

Ég tók þá ákvörðun í gær að hætta að reykja. Ekki það að ég hafi verið að laumast til að reykja í þess orðs fyllstu merkingu en ég kalla það þessu nafni til að sýna sjálfum mér alvöruna. Ég hef verið rólegur eða allt að því latur frá Stige, bæði til að láta fæturnar jafna sig vel og einnig vildi ég ná ökklanum alveg góðum. Í svona stöðu freistast maður til að sökkva í hóglífi og þá er ekki að sökum að spyrja, kílóin fara að laumast á skrokkinn. Maður stendur sig að því að finna að löngunin í sælgæti verður skynseminni yfirsterkari og áður en maður veit af þá er maður búinn að éta helling af sælgæti í miðri viku þegar það átti bara að vera einn moli. Þetta er eins og ákveðin fíkn þar sem stutt er í stjórnleysið. Því hef ég tekið ákvörðun um að hætta að reykja. Það er yfirleitt til nóg af ávöxtum í eldhúsinu og nú verður ekki farið lengra ef maður þarf á einhverju að halda milli mála. Það er allt annar hlutur að borða eitthvað orkuríkt undir miklu álagi heldur en að sitja við sjónvarpið með skál við hliðina á sér.

Ásgeir J. sem er að undirbúa sig undir Ironman í júlí hefur minnt mig á nauðsyn þess að halda blóðsykrinum jöfnum til að orkubúskapurinn verði í sem bestu standi. Það er óþarfi að gera sér erfiðara fyrir með einhverri vitleysu svo sem að vera að gúffa í sig sælgæti í tíma og ótíma. Það skilur hvort sem er ekkert eftir nema óþarfa.

Jói hljóp 10 km í miðnæturhlaupinu. Hann hefur príma byggingu fyrir langhlaupara, yfir 190 cm á hæð og laufléttur. Hann hefur ekki hlaupið 10 km í tvö ár en kláraði hlaupið á um 43 mín alveg æfingalaus. Ég hef verið að segja við hann að hann eigi að fara að sinna hlaupum af meiri alvöru en hann hefur varla nennt því. Nú bar svo við að honum fannst mjög gaman og er farinn að spökulera í æfingum, næstu hlaupum o.s.frv. Megi gott á vita. Ef hann æfir sig svolítið fyrir RM þá bætir hann sig um 1 - 2 mínútur. Hann þarf að komast í læri hjá Gunna Palla í vetur.

Ég las grein á baksíðu Fréttablaðsins í morgun. Nú var vitnað í "fræga danska vísindakonu" sem hafði fundið það út að konum sé markvisst gefið lægra fyrir lokaritgerðir heldur en körlum. Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt. Ætli sé ekki svindlað á tímatökunni líka þegar konur eru að hlaupa í götuhlaupum samhliða körlum? Kæmi mér ekki á óvart.

Engin ummæli: