sunnudagur, febrúar 10, 2008

Fór ekki út í morgun heldur tók brettið inni á Laugum. Fór alls 25 km sem er það lengsta sem ég hef tekið á bretti. Það gekk vel enda hefur maður með sér nóg af músík til að hlusta á. Best er þegar takturinn harmonerar við skrefin, þá kemst maður í nokkurssonar trans og rúllar áfram án þess að hugsa. Fer lengra á brettinu síðar.

Horfði með öðru auganu á Laugardagslögin í kvöld. Þetta er nú meiri elskuvinaklúbburinn sem er í hlutverki álitsgjafanna. Allt er svo stórkostlegt og frábært í þeirra huga nema eina lagið sem er sæmilega grípandi en það er eftir Barða Bang Gang. Hann og hans fólk er greinilega ekki innundir og tilheyrir ekki þessu sjálfhverfa liði sem hælir hvert öðru í hástert hvenær sem tækifæri er til. Líklega heyrir það undir samstöðustjórnmál. Lagið eftir Svölu Björgvinsdóttur var t.d. ótrúlega leiðinlegt og herfilega flutt ofan í kaupið að mínu mati en það var í huga álitsgjafanna eitt þriðja sterkasta lagið í keppninni og alveg stórkostlegt. Það myndi sko brjóta blað í Eurovision ef það yrði sent út og þar fram eftir götunum. Síðan kom í ljós að þjóðinni líkaði lagið alls ekki og kaus það ekki áfram. Gott á þetta lið en bölvað þegar þessi þjóð er fengin til að velja lögin. Barði er minn maður í þessari keppni.

Engin ummæli: