laugardagur, febrúar 14, 2009

Það eru stór tíðindi þegar alræmdur fjármálaflóttamaður frá Rússlandi tekur fram að Ísland hafi verið notað sem þvottavél fyrir illa fengna peninga frá Rússlandi. Afhverju skyldi hann nefna Ísland á nafn umfram önnur lönd þegar SKY er að taka viðtal við hann. Vegna þess að Ísland er honum ofarlega í huga þegar fjármálamisferli ber á góma. Þeta er ekki í fyrsta sinn sem þetta ber á góma. Extrabladet i Danmörku birti greinaflokk um þetta mál fyrir nokkrum árum. Kaupþing brást hart við og kærði greinaflokkinn og fékk blaðið dæmt fyrir óvandaðan málaflutning. Þessi umræða var náttúrulega afgreidd hérlendis sem dæmi um öfund Dana yfir því hvað vel gengi hérlendis. Þannig var yfirleitt öll gagnrýnin umræða afgreidd. Öfundsjúkir útlendingar sem sáu ofsjónum yfir því að lille Ísland hefði skotið þeim ref fyrir rass voru bara að væla sagði útnesjaliðið á skerinu. Annað kom á daginn. Það var engin innistæða fyrir velgengninni. Hún var öll tekin að láni. Var t.d. allt veldi Baugs byggt á sandi vegna þess að fyrirtækið hafði ótakmarkaðan aðgang að lánsfé í gegnum sístækkandi íslenska banka. Þegar harðna fór á dalnum jókst ásóknin í að ná tangarhaldi á banka sem mætti nota að vild. Þegar aðgengi að lánsféþraut hrundi spilaborgin.
Félagi minn sem hefur unnið í einum gömlu bankanna um nokkurra ára skeið sagði mér nýlega hvernig kaupin hefðu gengið fyrir sig þar innan dyra. Allir venjulegir starfsmenn sem höfðu með einhver útlán að gera þurftu að leggja allar lánaumsóknir fyrir lánanefnd bankans ef þau námu meir en 20 m.kr. Eftir þessu var stranglega gengið og viðbrögðin voru hörð ef farið var út af sporinu í þessu efni. Við bankahrunið kom síðan ýmislegt í ljós. Innan bankans hafði verið starfandi nokkurskonar úrvaldsdeild sem annaðist ákveðna lánafyrirgreiðslu. Þar var ekki lánað í milljónum heldur hundruðum milljóna eða milljörðum. Ekkert af þessum lánum hafði farið fyrir lánanefndina. Það brá mörgum af starfsmönnum bankans þegar þeir áttuðu sig á þessu tvöfalda vinnulagi sem hafði viðgengist innan bankans.

Það bera sig margir illa yfir fjárhagslegri stöðu sinni þessa dagana og hafa vafalaust fulla ástæðu til þess. En er ekki ástæða ti að líta aðeins í eigin barm? Eru íslendingar ekki spennu- og áhættufíklar upp til hópa. Er hugtakið: "Þetta hlýtur að reddast" ekki landlægur frasi við ákvarðanatöku. Þegar boginn er spenntur til hins ítrasta við ákvarðanir um fjárskuldbindingar þegar allt er í jafnvægi þá segir það sig sjálft að það má ekki mikið út af bregða svo ekki fari illa. Það vissu allir sem vildu vita að gengi krónunnar var skráð alltof hátt. Engu að síður var lánum í erlendum gjaldmiðlum haldið fast að íslenskum almenningu og hann skuldsetti sig upp í rjáfur með því að kaupa dýra bíla og byggja sér stór hús, iðulega allt upp á krít.

Lúðvík vinnufélagi minn er þýskur. Hann er búinn að búa hérlendis í um 30 ár og er betur upplýstur um land og þjóð en margur innfæddur. Hann hefur sagt okkur að ástandið í Þýskalandi eftir seinni heimsstyrjöldina sitji svo fast í þýskum almenningi enn í dag að hann geti ekki tekið fjárhagslega áhættu með eigin fjárhag. Það komi einfaldlega ekki til greina. Seinni heimsstyrjöldin skildi eftir sig þveröfug áhrif hjá íslensku þjóðinni. Nýrík þjóðin kunni sér engin takmörk. Það má heimfæra ástandið á þessum tíma yfir á ljóðbrotið eftir Stein Steinarr:

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.
En þótt þú tapir það gerir ekkert til
því það er nefnilega vitlaust gefið.

Þetta reddast allt saman.

Venjulegir þýskir bændur kaupa sér ekki mjólkurróbota í fjósin segja mér kunnugir menn. Þeir segjast þurfa að velja á milli þess að greiða sjálfum sér laun eða bankanum vexti. Ef róbotinn er keyptur hirðir bankinn það sem afgangs er og ekkert verður eftir til að greiða laun til bóndans. Á Íslandi hafa tækjaóðir bændur keypt sér mjólkurróbota í hrönnum. Hvort búið getur staðið undir honum verður bara að koma í ljós. Ef búið er of lítið fyrir róbotinn þá er bara keyptur rándýr mjólkurkvóti. Hvernig getur svona lagað endað nema með ósköpum?

Ég fór út um 6.30 í morgun og tók 21 km. Það gat ekki verið lengra því ég þurfti að vera mættur niður í Laugardalshöll upp úr kl. 9.00 til að vinna á öldungamótinu. Það var gaman og flott að sjá kappa sem marga fjöruna hafa sopið mæta þar til leiks. Í góða veðrinu í eftirmiðdaginn tók ég svo annan álíka hring svo markmiði dagsins var náð þótt svo það væri ekki í einum áfanga. Það var mjög hált á köflum í morgun en í dag var færið orðið eins og á sumardegi og vorveður í lofti.

Þegar við Haukur bróðir vorum litlir þá áttum við okkar fyrirmyndir og hetjur eins og gengur. Þær voru ekki sóttar í íslendingasögurnar heldur í samtímann. Ég man helst eftir tveimur pörum. Fyrst voru Tal og Botvinnik, hinir miklu sovésku skákmeistarar. Þegar við tefldum saman þá tefldum við yfirleitt sem Tal og Botvinnik. Tal var eftirsóttari þvi hann var snjallari sóknarskákmaður. Ef annar fór illa hallloka þá þurfti stundum að jafna tapskákina með stuttum slag. Þó slógumst við ekki eins og aðrar tvær hetjur, Floyd Patterson og svíinn ógurlegi Ingemar Johansson. Ingemar var frægur fyrir að geyma hægri hnefann undir hökunni þar til rétta tækifærið kom. Þá sló hann til. Eitt slíkt högg feykti Patterson út af æðsta stalli hnefaleikana og Ingemar steig upp á hann í staðinn. Hann var meistarinn um tíma en svo kom Patterson og rotaði Ingemar tveim árum síðar. Það þótti okkur ekkert skemmtilegt. Þetta rifjast upp þvi Ingemar Johansson dó nýlega og var jarðaður í gær. Champ verður alltaf champ þótt árin færist yfir og líkaminn hrörni. Það er við hæfi að sýna smá klippu frá bardaganum fræga árið 1959.

Engin ummæli: