sunnudagur, ágúst 30, 2009

Ég fékk smá tognunarvott aftan í kálfann á þriðjudaginn og tók því vikuna rólega. Maður fer ekki að risikera neinu þegar stutt er í alvöruhlaup. Ég fór svo Eiðistorgshringinn í gærmorgun og aftur í morgun. Hann er 20 km. Allt var í fínu lagi. Jósep dró mig uppi í Fossvoginum og við hlupum saman svona 18 km. Jósep er léttur eins og fis og dró mig áfram. Þetta varð því fín æfing á góðu tempói sem varð miklu hraðara en ef ég hefði hlaupið einn. Allt var í fínu lagi með kálfann svo að er allt eins og það á að vera.

María keppti á meistaramóti 15-22 ára í Kópavoginum í gær og í dag. Veðrið var fínt og gaman að krakkarnir skyldu vera svo heppnir með þeð því það er ekki á vísan að róa með það eins og gengur, sérstaklega þegar komið er fram í ágústlok. Maríu gekk vel, hún keppti í sex greinum í sínum aldursflokki, vann fjórar og varð í öðru sæti í tveimur. Það bætti svolítið upp ákveðin vonbrigði frá unglingalandsmótinu fyrr í sumar.

Mont Blanc hlaupið var um helgina. Þar voru fjórir íslendingar meðal þátttakenda. Ásgeir og Bibba, Börkur og Birkir tvíburabróðir hans. Það kom berlega í ljós að það er ekkert gefið í þessum efnum í svona hlaupum. Þrátt fyrir mikla reynslu og góðan árangur þá getur margt komið upp á á langri leið. Það sýndi sig á helginni. Ásgeir, Birkir og Bibba þurftu öll að hætta en Börkur hélt út og náði að ljúka hlaupinu á rúmri 41 klst þrátt fyrir hásinarvandræði og vafalaust fleira sem kom upp og gerði honum hlaupið erfitt. Tímaramminn í hlaupinu er nokkuð rúmur eða 46 klst. Það er vafalaust gert til að ná mikilli þátttöku í það því hlaupið er erfitt með miklum hæðarmun á leiðinni eins og gefur að skila í Alpafjöllunum. Sigurvegarinn lauk hlaupinu á góðum tíma eða 21.5 klst. Maður metur oft erfiðleika stuðul hlaupa með hlutfalli á milli tíma sigurvegarans og hámarkstíma. Í Mont Blanc hlaupinu í ár lýkur sigurvegarinn hlaupinu á um 47% af hámarkstíma. Sigurvegarinn er um klukkutíma á undan næsta manni svo hann er í nokkrum sérflokki. Hlaupari nr. 2 lýkur hlaupinu á nálægt 49% af hámarkstíma. Þegar ég fór í Western States hlaupið fyrir fjórum árum síðan þá lauk Scott Jurek hlaupinu á um sextán og hálfum tíma en hámarkstími var 30 klst. Það eru um 55% af hámarkstíma. Í fyrra lauk Scott Jurek Spartathlon hlaupinu á rúmum 23 klst af þeim 36 klst sem hámarkstíminn er. Það eru um 64% af hámarkstíma. Þetta hlutfall gefur nokkra hugmynd um hve erfitt það er að ljúka mismunandi hlaupum innan tilskilins tíma.

Ég sé í fréttum að Vítisenglar hafa náð formlegri fótfestu hérlendis. Við þessu er ekki nema eitt að gera. Alþingi verður að setja lög sem banna þennan félagsskap. Hann er þjóðhættulegur. Það verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum þeirra sem sitja í löggjafarsamkomu þjóðarinnar við þessari þróun mála.

Moggi setur uppsláttarfrétt á forsíðuna í dag að rekstur venjulegrar fjölskyldu sé í miklum mínus og hafi versnað stórlega frá því í fyrra. Það eru í sjálfu sér engin vísindi að kaupmáttur hafi rýrnað frá því í fyrra. Hitt er svo annað mál með mínusinn. Ég hef alltaf vanist því að stilla eyðsluna eftir tekjunum svo maður safni ekki skuldum af því að lifa. Best er að eiga alltaf örlítið borð fyrir báru ef eitthvað skyldi koma upp á. Þegar maður sér listann yfir það sem þessi tilbúna fjölskylda þarf að borga þá miðast það við að hún hafi keypt sér húseign á 33 milljónir fyrir þremur árum. Eigið fé er rúm 20%. Af því að fjölskyldan var flutt í nýja íbúð þá þurfti bíllinn að passa og því var nýr bíll einnig keyptur upp á rúmar 3 m.kr. og allt tekið að láni. Nýi bíllinn er hins vegar hálfgerður skrjóður því það þarf að eyða 24 þúsund krónum mánaðarlega í viðgerðir!! Húsið virðist einnig vera svona og svona því það þarf að eyða nær 400 þúsundum króna á ári í viðhald. Svo virðist að það sé keypt allt sem hugurinn girnist og allt gert sem viðkomandi langar til að gera og auðvitað er niðurstaðan sú að endar ná ekki saman. Fatareikningurinn er upp á nær 400 þúsund á ári. Ræktin kostar sitt, brennivín kostar sitt, skemmtanir og veitingahús taka sinn skerf og svo má áfram telja. Að vísu er ekki gert ráð fyrir tóbaki, það má virða það. Auðvitað verður niðurstaðan sú að endar ná ekki saman ef hvergi má spara. Þannig hefur það alltaf verið og verður alltaf.

Í gær var sagt frá einhverju dæmi þar sem fjölskylda með 1,3 millj. kr í bróttólaun hefði reist sér hús og tekið lán upp á rúmar fimmtíu milljónir króna. Eftir var að taka um 11 m.kr. að láni til að klára húsið. Með krónufallinu varð allt óyfirstíganlegt og lauk með því að þau fluttu úr landi. Ég verð ósköp einfaldlega að segja það að mér dytti aldrei í hug að skuldsetja mig fyrir rúmar 60 m.kr. með 1,3 m.kr í brúttóheimilistekjur. Aldrei. Ef fólk spennir skuldabogann svo hátt að þá megi ekkert bera útaf næstu 40 árin þá er eiginlega 100% öruggt að það fari allt í steik fyrr en síðar. Lífshlaupið er ekki það tryggt að það sé öruggt að það gerist aldrei neitt sem ruggar bátnum enda þótt sjórinn sé lygn þegar lánið er tekið. Það sem var einna athyglisverðast í fréttinni var að það fylgdi með að heimilisfaðirinn hefði unnið sem fjármálaráðgjafi í banka.

Síðan hefur verið sagt í fréttum frá fólki sem skuldar rúmar 8 m.kr og lánið hefur hækkað um töluverðan slatta á síðustu 5-6 árum. Það gleymist að taka það með í umræðuna hvað laun þessa fólks hækkuðu á sama tímabili. Hvernig breyttist afborganabyrðin sem hlutfall af heildarlaunum? Það er það sem máli skiptir en ekki einhliða frásögn af einhverri krónutöluhækkun. Ég vorkenni hins vegar engum að standa undir 8 m.kr. húsnæðisláni á meðan bæði hjónin hafa vinnu. Maður hefur stundum á tilfinningunni að það sé sama hvað sé hringt inn í fjölmiðla í þessum efnum. Allt sé birt gagnrýnislítið. Nú eru vissulega margir í vondum málum og miklum erfiðleikum án þess að hafa lagt út í neina vitleysu. Aukið atvinnuleysi og stórlega skertur kaupmáttur hefur sín áhrif fyrir fjölda fjölskyldna. En með því að birta fréttir af því hvernig allskonar glæfrafjárfestingar hafa endað þá er verið að slæva tilfinninguna fyrir hinum raunverulega vanda.

Kunningjafólk okkar var í Englandi fyrr í sumar eða nánar tiltekið sunnan við mið England eða einhversstaðar sunnan við Newcastle. Þau sögðu að ástandið þar væri skelfilegt. Þar er raunveruleg fátækt landlæg. Þar snýst tilveran fyrst og fremst um að komast af. Í þeim slag eru öll tiltæk meðöl notuð.

Engin ummæli: