þriðjudagur, ágúst 18, 2009

Fyrirlestur Karenar Axelsdóttur í síðustu viku var hreint frábær. Það má vera að þríþrautarkapparnir hafi þekkt hana en ég hafði ekki heyrt á hana minnst þar til fyrir nokkrum vikum. Það er hreint magnað að hún skuli vera í breska áhugamannalandsliðinu og ein af fremstu konum í heiminum í ólympískri þríþraut. Karen ræddi margt s.s. hvernig þetta ævintýri byrjaði hjá henni sem var svona undir áþekkum kringumstæðum og hjá Dean Karnazes, þeim mikla ultrahlaupara. Hún fjallaði einnig um mataræði, æfingaskipulag og race planning. Þrátt fyrir að ég sé ekki þríþrautarmaður þá fannst mér mjög gaman að heyra svona fagmanneskju fara yfir málin. Ég trúi að það sé gott fyrir þá sem hafa lagt sig eftir þríþraut af ýmsum toga að hafa svsona hauk í horni. Það hlýtur einnig að gefa kappsfullu fólki byr undir báða vængi að sjá hvað hægt er að gera ef vilji er fyrir hendi. Mér fannst áhugavert að heyra að mikil harmónía er milli þess mataræðis sem ég hef tileinkað mér og þess sem hún og hennar félagar vinna eftir (nema kakan í löngu hlaupunum). Það var einnig áhugavert að heyra hvað þríþrautakapparnir vinna eftir nákvæmu plani í keppninni sjálfri. Það er allt skipulagt. Það er ekki spurning að öguð vinnubrögð til allra hluta skila enn meiri árangri.

Maður veltir fyrir sér hvort sjálfskipaðir dómarar í hvað er íþrótt og hvað ekki muni telja Karenu Axelsdóttur með þegar kandidatar til íþróttamanns ársins verður valinn í vetur. Einhvern tíma hefði það þótt ágætt að vera í fjórða sæti á heimslista. Maður sér til.

Í smá pirringi um daginn lét ég þau orð falla að maður biði bara eftir frásögn af næsta stórmóti í strandblaki í íþróttafréttum. Sú bið reyndist styttri en mig grunaði. Í dag var frásögn af íslandsmótinu í strandblaki í íþróttakálfi Moggans. Alls mættu 22 lið til keppni samkvæmt Mogga. Reyndar er ekki sagt frá því að það eru bara tveir í liði svo þarna hafa verið 44 einstaklingar mættir til leiks. Í forbifarten er rétt að minna á að það mættu 1400 manns til leiks í Miðnæturhlaupinu. Það er ekki íþrótt að mati Mogga. Það mættu 17 einstaklingar til leiks í hálfum Ironman um daginn og puðuðu þar fleiri klukkutíma. Það er ekki íþrótt. Það hlupu 338 einstaklingar Laugaveginn um daginn og þar var sett glæsilegt íslandsmet. Það er ekki íþrótt að mati Mogga. Virðing sumra þeirra sem kepptu í íslandsmótinu í strandblaki er ekki meir en svo að annað liðið sem átti að keppa til úrslita í karlaflokki mætti ekki til leiks. Þetta er íþrótt að mati Mogga. Nú má enginn halda að ég sé á móti strandblaki. Alls ekki, það er fínt að þeim fjölgi sem iðka strandblak. Landsliðið íslenska fer þá kannski að vinna eins og eina og eina hrinu í leik við erlend lið. Það sem pirrar mig er óútskýranleg flokkun Mogga og ýmissa annarra fjölmiðla á hvað eru íþróttir og hvað ekki.

Ingólfur hringdi í mig í dag og sagðist hafa spurnir af því að það ætti að færa Haustlitahlaupið framar á föstudeginum. Það er fínt því hlaupið er ekki síst upplifunin af að hlaupa þessa fínu leið. Njóta umhverfisins, skoða fuglana, tína ber og svo framvegis. Það gerir maður ekki að áliðnu kvöldi. Í svona hlaupi liggur manni ekkert voðalega mikið á. Það má vel vera að það þróist yfir í að verða keppnishlaup. Það er bara fínt en það er þess tíma viðfangsefni.

Víkingar töpuði í kvöld fyrir Fjarðabyggð eftir að hafa verið komnir í 0-2 á 77. mínútu. Þeir eru orðnir nokkrir leikirnir sem þeir hafa tapað í sumar á síðustu tveim til þremur mínútunum. Það er kallað skortur á úthaldi.

Nú spáir bara vel á laugardaginn. Lægðin fer austur en ekki norðaustur. Það skiptir öllu máli svo nú lítur út fyrir fínt veður í Reykjavíkurmaraþoninu. Það er fínt því óneitanlega setur veðrið stóran svip á daginn. Ég sé ekki annað en að það slagi hátt upp í 1000 þátttakendur í heilu maraþoni. Það líður ekki langur tími til að sá múr verði brotinn. Þetta er flott.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fyrirlesturinn hjá Karen var góður og hún er ótrúleg afrekskona. Ég vil hinsvegar hrósa þér alveg sérstaklega fyrir að koma í Wimbledon bol á fyrirlesturinn, ef ég hefði vitað það þá hefði ég mætt í mínum þar sem við sátum saman.

Annars held ég að íþróttafréttamenn séu ekki heldur búnir að átta sig á því að þú sért afreksmaður á heimsmælikvarða.

bk,
hakon hjólari

Nafnlaus sagði...

Sæll Hákon.
Gaman að þú skulir hafa auga fyrir Wimbeldon bolnum. Það eru svona einstaka menn sem hafa það. Ég fór einu sinni í honum á handboltaleik á Selfossi. Þar sveif á mig maður sem var eins glaður og ef hann hefði hitt gamlan skólafélaga. Við feðgar keyptum bolinn í árdaga þegar Hermann Hreiðarsson spilaði með liðinu. Hann er úr fínu efni og endist og endist.

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnlaugur
Ég kunni ekki við að stökkva á þig. Ég á Wimbledon bol frá 96-97 og hann er spari. Svo á ég líka bol frá 86-87 þegar þeir komust fyrst í efstu deild og þá beint úr fjórðu. Sá bolur er spari-spari en endist auðvitað og endist.
Wimbledon var spáð falli fyrstu 10 árin sín í efstu deild en voru alltaf fyrir ofan miðju. Því miður sá svp Hermann til þess að koma þeim niður um deild með nokkrum skelfilegum varnamistökum í síðustu leikjunum. Hann er reyndar kallaður falldraugurinn enda hefur hann fallið með fjórum liðum úr efstu deild og var ekki langt frá því að koma Porstmouth niður líka og hefði þá sett met.