þriðjudagur, október 13, 2009

Ég fékk ábendingu um að ég hafði tekið of sterkt til orða um að ekkert hefði verið fjallað um Svartbók kommúnismans í íslenskum fjölmiðlum. Það er alveg rétt, svolítið hefur verið fjallað um hana. Ég fylgist með fjölmiðlum svona eins og hver annar en alltaf fer þó eitthvað fram hjá mér. Það hefur komið ritdómur í DV og þýðandi bókarinnar og sagnfræðingur nokkur skiptust á skoðunum um hana á morgunvakt Rás 2. Ég kalla það hins vegar ekki fjölmiðlaumfjöllun þótt einstaklingar eins og ég séu að láta skoðanir sínar á bókinni í ljós á bloggsíðum. Síðan var minnst á hana á Eyjunni og Pressunni sem eru svona hálffjölmiðlar en ekki síður bloggsíðnasafn. Ég þurfti hinsvegar að hlusta tvisvar á fyrrgreint spjall á morgunvakt Rás 2 til að trúa mínum eigin eyrum.

Slóðin er hér: http://www.ruv.is/heim/vefir/ras2/morgunvaktin/frettir/nanar/store159/item297349

Sagnfræðingurinn sagði að framfarir í heilbrigðiskerfi Sovétríkjanna hefðu verið það miklar að þær hefðu einar og sér allt að því réttlætt það að Sovéska ógnarstjórnin lét drepa 85-100 milljónir manna. Ég held að þessi orð dæmi sig sjálf svo ég fer ekki að nota stóryrðaforðann frekar. Það er að mínu mati enginn eðlismunur á gyðingaofsóknunum á nasistatímanum og ofsóknunum gegn kúlökkunum í Sovétríkjunum. Leiðarljós stjórnvalda var útrýming. Mér finnst afstaða þýðandans vera mjög rökrétt. Nútíminn á að sýna fórnarlömbum Sovétkommúnismans jafnmikla virðingu og hann sýnir fórnarlömbum nasismans. Allt humm og jamm gagnvart þessum kafla mannkynssögunnar fer í taugarnar á mér. Af hverju er ekki talað við þá einstaklinga sem héldu sem ákafast fram ágæti Sovétríkjanna og Sovétskipulagsins á sínum tíma? Gagnrýnin umræða um Sovétríkin hér áður var einfaldlega afgreidd sem lygi og áróður auðvaldssinna. Hvað segja þeir sömu menn nú? Manni finnst allt tal um að stéttabarátta hafi verið rauði þráðurinn í innviðum Sovétríkjanna vera hreint og beint hjákátlegt. Kerfið var byggt upp þannig að fámenn yfirstétt réði yfir fjöldanum í krafti ógnarstjórnar. Það var betra að þegja og hlýða heldur en að vera drepinn eða sendur í Gúlagið.

Sagnfræðingurinn gagnrýndi Svartbók kommúnismans fyrir hvað hún gæfi einhliða mynd af framkvæmd kommúnismans í Sovétríkjunum. Mér finnst nákvæmlega allt í lagi að fjalla sérstaklega um þessa hlið Sovétskipulagsins. Auðvitað gerðist margt í landinu sem ekki var tómur djöfulskapur. Skárra væri það nú. En sú staðreynd að það þurfti að loka fólkið inni í skipulaginu með múr og hervaldi svo það tæki ekki á rás til auðvaldsslandanna segir meir en allt annað hvort vóg þyngra í huga almennings, ógnir skipulagsins eða kostir þess. Hvað ætli væri sagt um þann sagnfræðing sem myndi fjalla um nasismann á þann veg að draga fyrst og fremst það fram sem hann gerði vel í Þýskalandi og dráp á 6 milljón gyðingum væri bara svona smáhnökri á annars heldur geðþekkum ferli. Meti það hver fyrir sig.

Mér hefur sjaldan liðið jafnilla við að lesa eina bók og Píanistann. Svartbók kommúnismans stendur henni ekki langt að baki hvað það varðar.

Ég rakst nýlega á ágæta síðu um ultrahlaup í Írlandi. www.ultrarunningireland.com Maður þarf að fara að skoða betur hvað er að gerast hjá þessum frændum okkar í langhlaupamálum.

Engin ummæli: