sunnudagur, október 04, 2009

Ég keyrði fram hjá Laugardalshöllinni um miðjan dag í dag. Það var bikarúrslitaleikur á Laugardalsvellinum og ég held að fyrirtækið sem gerir Evonline út, hafi verið með keppni í Laugardalshöllinni. Það voru bílar út um allt og bílastæðin vitaskuld löngu full. Bílum var lagt snyrtilega upp á grasið við hliðinna á götunni enda engir aðrir valkostir í stöðunni. Þrír lögregluþjónar virtust ekki hafa annað að gera þennan daginn en að ganga á röðina og skrifa sektarmiða á bílana sem lagt var úr neyð upp á grasið. Þetta er náttúrulega alveg óskiljanlegt og fáheyrður ruddaháttur. Borgin tekur ákvörðun um stærð bílastæða við þjóðarleikvanginn og Laugardalshöllina. Það er talið eðlilegt að nota mannvirkin í Laugardalnum eins mikið og hægt er. Vonir allra standa til að þeir viðburðir sem þar eru haldnir fái sem mesta aðsókn. Það er Reykjavíkurlið sem er að spila úrslitaleik. Engu að síður fer lögreglan og bílastæðasjóður af stað og skattleggur þá bíleigendur sem ekki fá neitt bílastæði. Hvað eru menn að meina? Hvaða rugl er þetta? Þetta er sú mesta syngjandi andskotans vitleysa sem maður getur ímyndað sér. Það er eðlilegt að sekta bíleigendur sem leggja ólöglega ef næg bílastæði eru til staðar. En hvað eiga men að gera þega röll bílastæði eru full? Á svona leikjum á KSí að annast tvennt. Í fyrsta lagi að sjá til þess að öll bílastæði vallarins séu fullnýtt. Í öðru lagi á að merkja sérstakt svæði þar sem heimilt er að leggja án þess að viðkomandi séu sektaðir. Svona lagað framferði eins og ég var vitni að í dag er náttúrulega bara barbarismi.

Á mánudagskvöldið var fór ég niður í Vík til að horfa á strákana í 2. flokk kk í handbolta spila við Fram í Reykjavíkurmótinu. Við Víkina eru rúmlega 40 bílastæði. Þau fyllast um leið ef eitthvað er að gerast þar umfram daglegt líf. Svo var þetta kvöld. Ég lagði bílnum því í götunni fyrir ofan Víkina. Til að bíllinn ylli umferðinni ekki óþægindum þá lagði ég honum að hálfu upp á gangstéttarbút sem liggur við hlið götunnar fyrir ofan Víkina. Ég sá ekkert að því vegna þess að hlaupa-, hjóla- og göngustígurinn liggur hinum megin götunnar. Maður var því ekki fyrir neinum. Engu að síður beið sektarmiði á bílnum mínúm og nokkurra annara sem höfðu lagt álíka þegar út var komið. Þá hafði lögreglan átt leið hjá og ekki haft neitt þarfara að gera en að sletta sektarmiða á grunlausa foreldra og keppendur. Hvort íbúarnir hinumm megin götunnar hafi legið út í glugga, séð að þarna bar vel í veiði og hringt í lögguna skal ósagt látið. Þetta pirraði mig vægast sagt mikið því þetta er alger ruddaskapur. Maður var ekki fyrir neinum og kurteisin kom manni í koll. Ef maður hefði bara lagt alveg úti á götunni og því þrengt að umferðinni hefði ekkert verið hægt að segja. Kantarnir eru ekki gulmerktir. Ég hringdi í Bílastæðasjóð á miðvikudaginn og vildi fá skýringar á þessu. Sá sem svaraði hafði það eitt til málanna að leggja að það væri bannað að legga bíl uppi á gangstétt. Sama hvort gangstéttin væri stödd í miðbænum eða fyrir ofan Víkingsheimilið. Ég spurði hann hvort hann þekkti aðstæður í Víkinni. Hann sagði svo vel vera en svo komí ljós að hann hafði ekki hugmynd um hvað hann var að tala um. Þegar ég spurði hann hvar 1000 áhorfendur á knattspyrnuleiki í Víkinni ættu að leggja bílum sínum þá sagði hann að þeir gætu lagt í næstu hliðargötum. Ef það er eitthvað sem vantar í öllum götum í Fossvoginum þá eru það bílastæði. Fossvogurinn var skipulagður og byggður upp á árunum fyrir 1970. Þá var í besta falli einn bíll á hemili. Því er víðast hvar í besta falli eitt bílastæði á hverja íbúð í Fossvoginum. Að stefna flestum bílum 1000 áhorfenda á knattspyrnuleik inn í nálægar hliðargötur er því í besta falli óhófleg bjartsýni en flokkast annars undir tómt rugl. Það er því við því að búast að eftirlitsmenn með stöðubrotum bíði spenntir bak við næsta horn nálægt Víkinni þegar eitthvað erum að vera þar til að rétta af efnahag Bílastæðasjóðs eins og gert var í nágrenni Laugardalsvallarsins í dag. Ég læt þetta mál ganga eins langt og frekast er fært því ég þekki vel umræðuna um skipulagsmál við Víkina. Það er sem stendur engin vitræn lausn á bílastæðamálum næstu árin. Því verður að komast að einhverri vitrænni lausn á þessum málum svo svona rugl viðgangist ekki lengur.

Fór 34 km í morgun. Lagði af stað fyrir kl. 7:00 og var kominn heim um kl. 10:00. Hitti marga á leiðinni og tók tíma í allskonar spjall. Flott veður og fínn dagur.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Af hverju labbar þú ekki heiman frá þér? Nú eða heypur?

Þú veist það sjálfur að bílstjórar bera enga virðingu fyrir gangstéttum - gangandi fólki fólki með vagna nú eða hlaupurum.

Það á bara ekki að veita bíleigendum sjálfdæmi um það hvort og hvenær þeir geta lagt bílum á gangstéttar.

Áfram lögreglan.
Áfram bílastæðasjóður.

Niður með bíleigendur sem leggja á gangstéttum

Kv.
Pétur

Nafnlaus sagði...

Þetta er ekki spurning um mig, þetta er ekki spurnijg um eitthvað virðingarleysi fyrir einu eða neinu, þetta er spurning um aðgengi almennings að atburðum eins og eiga sér stað á Laugardalsvellinum eða á Víkingvellinum eða Vikingsheimilinu. Það er lágmark að menn sem tjái sig um þessa hluti geri greinarmun á því að tuddast til að leggja hvar sem er í miðbænum þar sem nóg er af bílastæðahúsum eða þegar fólk neyðist til að legga út á gras við Laugardalsvöllinn þar sem öll bílastæði voru full. Ég sá ekki að bílum við Laugardalshöllina væri lagt á gangstéttir heldur var þeim lagt snyrtilega út á grasið. Við búum ekki á Spáni, við búum á Íslandi. Hér er veður oft eins og andskotinn, rigning, kalt og hvasst. Ætlar þú að segja hverjum sem er að labba heiman að frá sér ef hann ætlar á landsleik eða annan stórleik á Laugardalsvöllinn. Hvað á að gera ef 20.000 manns mæta á völlinn. Sekta alla þá sem ekki geta lagt á þessi bílastæði sem eru þar til staðar. Hvað að gera þegar koma 1000 manns á Víkingsvöllinn? Sekta alla þá sem ekki geta lagt bílum á þessi 45 bílastæði sem eru við völlinn. Það er er lágmar að þessir hlutir sé ræddir af skynsemi og þekkingu og út frá staðreyndum en ekki af innihaldslausum upphrópunum.