þriðjudagur, desember 22, 2009

Ég var niður í Hagkaup í Kringlunni í eftirmiðdaginn að árita bókina. Lílkega verður þetta seinasta úthaldið. Þetta venst þokkalega. Auðvitað er það dálítið skrítið að sitja þarna og bjóða afurðina til sölu. Það er mesta furða hvað fólk stoppar, spjallar og alltaf eru nokkrir sem ganga burt með bók í hönd. Auðvitað hefði ég getað verið duglegri við að fara um og lesa upp en það er svona að í nokkur horn er að líta.

Á norska vefnum www.kondis.no/ultra er sagt smávegis frá brettishlaupinu um daginn. Líklega eru ekki margir sem hafa lagt fyrir sig svona löng brettishlaup á norðurlöndunum. Johann Lindvall, svíinn sem ég atti kappi við á Borgunarhólmi í vor, hefur þó hlaupið 48 klst hlaup á bretti og náði tæpum 300 km. Einar sem heldur utan um vefinn gefur einnig slóð á gildandi reglur um svona hlaup svo þau verði tekin gild á alþjóðavettvangi. Ég þekkti þessar reglur ekki áður en það er gott að vita af þeim. Gott hjá Sæbjörgu í Vestmannaeyjum að einhenda sér í að hlaupa 100 km á bretti og klára það með sóma.

Ástralskur vinur Sveins kom með honum að utan á miðvikudaginn og dvaldi hjá okkur í nokkra daga. Það hefur vafalaust verið dálítið framandi fyrir hann að koma hingað. hann sagðist t.d. aldrei hafa dvalið í landi sem hefði ekki ensku sem móðurmál. Eitt af því sem hann vonaðist eftir að upplifa var að sjá norðurljós. Við fórum austur á Þingvöll í gærkvöldi á norðurljósaveiðar. Við sáum þau vissulega en frekar voru þau dauf. Það hefði verið gaman fyrir hann að upplifa þau kraftmikil og litfögur en þetta var svona hálfsýning.

Engin ummæli: