miðvikudagur, desember 02, 2009

Kiljan er einn alskemmtilegasti þáttur sem er í sjónvarpinu. Egill hefur gott auga fyrir að halda góðum dampi út í gegn og er alltaf með áhugaverða vinkla inn í bókmenntaheiminn. Páll og Kolbrún mynda skemmtilegt andstæðupar, hún kvik og snögg upp en það rótar honum ekkert. Bestur er þó Bragi Kristjónsson. Það er virkilega góð hugmynd hjá Agli að fá Braga til að botna hvern þátt því karlinn þekkir náttúrulega þetta allt saman út og inn. Það er ekki til sá maður tengdur menningarheiminum síðustu áratugina sem hann þekkir ekki. Það var flott kvæði sem Bragi fór með eftir Jón Helgason og hann orti þegar hann var 13 ára gamall.
Það er ekki allt eins dýrt kveðið sem heyrist í fjölmiðlum og kallað er kveðskapur. Í gær heyrði ég lesið upp eitthvað útrásarsveinakvæði á Rás 2. Þá hafði einhver umsnúið og skrumskælt Jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum yfir á útrásarvíkingana. Hugmyndin er svo sem allt í lagi en þegar þetta er bæði illa gert og algerlega laust við að vera fyndið þá er betra heima setið en af stað farið. Það er eins og fólk haldi að það sé nóg að kalla það kveðskap ef fjórum línum er klæmt saman samhengislaust, án alls hrynjanda og stuðlar og höfuðstaðir eru víðs fjarri. Dægurlagatextar eru ekki svo heilagir en þegar þetta er lesið upp þá verður að gera lágmarkskröfur svo það sé boðlegt.

Við eldum einstaka sinnum hádegismat í vinnunni til að krydda hversdaginn og breyta til í mararæði. Í dag slógum við í rússneska rauðrófu Borch súpu. Ég hafði einu sinni borðað svona súpu í Rússlandi fyrir löngu síðan og langaði að láta á það reyna hvernig hún gengi hérlendis. Uppistaðan var grænmeti af ýmsu tagi sem er maukað eftir að það hefur verið soðið vel. Súpan heppnaðist mjög vel og hlaut mikið lof. Það er hægt að ná í uppskriftir að svona súpum á netinu með því að googla "borch" eða "borch súpa". Það var eldað fyrir rúmlega 20 manns og efniskostnaður var fyrir utan ýmislegt krydd rétt rúmlega 2000 krónur. Í því var innifalið fyrir utan græmmetið flaska af matarolíu, smjörstykki og peli af rjóma. Ef vill þá er hægt að bæta smátt skornu kjöti út í svona súpur. Bara að láta hugann reika.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mmmm, nú poppa um minningar frá Moskvu en þar var boðið upp á Borch alla vega tvisvar í viku í vinnunni. Var hún ekki örugglega bleik hjá ykkur?

Kv. Eva

Nafnlaus sagði...

Súpan var svona meira yfir í rautt. Það var vel í lagt af rauðrófum!!
G