miðvikudagur, febrúar 24, 2010

Ég hef verið heldur latur við að blogga að undanförnu. Maður má ekki gera þetta af einhverri ímyndaðri kvöð heldur af því að maður hefur gaman af því. Það hefur verið verið ýmislegt að gera á kvöldin og þá vill þetta mæta afgangi. Ég hef mætt á nokkra fundi að undanförnu og spjallað um mína sýn á hvernig maður nær árangri og hvaða hlutverk mataræðið spilar í þessu samhengi. Þetta hefur verið mjög gaman og miklar umræður sem spinnast upp í kringum þetta. Sumir koma fyrst og fremst til að sjá þetta fyrirbæri og verða svolítið hissa þegar á ferðinni er bara venjulegur maður. Við Steinn vorum niður í Háskóla Reykjavíkur í dag og spjölluðum við nemendur á íþróttafræðibraut. Það er svolítið gaman af því að koma þarna sem maður hátt á sextugsaldri og ganga fram af afreksfólki hvað varðar æfingaálag og viðfangsefni. Vonandi verður þetta krökkunum einhver hvatning.

Það var falleg kveðjan sem Viðskiptaráð fékk í Fréttablaðinu í vikunni eftir Viðskiptaþing. Bæði fékk Viðskiptaþing þau skilaboð að það mætti aldrei þrífast. Einnig fékk forsætisráðherra meldingar útaf þátttöku hennar í fundinum. Að þessi afstaða stæði í einhverju samhengi við útkomu ákveðinna manna í kosningum til stjórnar og varastjórnar Viðskiptaráðs dettur varla nokkrum í hug eða hvað? Ég minnist þess að fyrir rúmu ári síðan var nokkuð rætt og skrifað um að varasamt gæti verið hvernig ákvarðanir væru um skipan mála eftir að bankarnir hefðu yfirtekið fyrirtæki og ætluðu að koma þeim í rekstur á nýjan leik. Þau viðvörunarorð virðast hafa ræst. Augu manna eru að opnast fyrir ýmsu gagnrýniverðu og stjórnvöld eiga erfitt með að réttlæta ýmsar ákvarðanir sem eru á þeirra ábyrgð.

Ég hef haldið kúrs frá áramótum með að hlaupa sem svarar tveimur maraþonum í hverri viku plú allt annað. Það hefur gengið vel upp til þessa enda veðrið verið gott. Ég er þó ekki að hlaupa neitt mjög mikið enda nokkuð langt í næsta alvöru hlaup. Engu að síður er ég að hlaupa meir í þessum rólegu mánuðum heldur en ég gerði í mestu álagsmánuðunum fyrir fimm árum síðan þegar ég var að búa mig undir Western States hlaupið. Svona getur þetta breyst. Það er allt afstætt í þessu sambandi.

Ég hef selt dálítið af bókinni minni að undanförnu. Hún mjatlast út enda á lækkuðu verði. Þegar útgáfan er sloppin fyrir vindinn er meginmálið er að koma sem mestu út. Ég er alltaf að hitta fólk sem hefur rennt í gegnum hana og haft heldur gaman af.

Engin ummæli: