fimmtudagur, febrúar 11, 2010

Ég sá í norsku blöðunum nýlega að það þótti fréttnæmt að pólskum krimma sem dæmdur var í 18 mánuða fangelsi fyrir einhvern skálkahátt var sleppt eftir 15 mánuði. Það var gert af manngæsku þar sem pólverjinn talaði einungis pólsku og gat ekkert samlagast öðrum krimmum í fangelsinu. Honum leiddist svo svakalega að norðmenn slepptu honum af góðmennsku fyrir tímann. Hérlendis þykir tíðindum sæta ef dæmdir menn sitja inni allann tímann. Helst eru það þrjótar sem hafa stundað skjalafals eða fjársvik. En delum sem slasa fólk, ræna það og selja dóp er yfirleitt sleppt vel fyrir tilskilinn tíma. Það er þetta dularfulla annað dómsstig sem heitir náðunarnefnd sem fúnkerar vel bakvið tjöldin. Ég sé líka að norðmenn sippa þessum þjófagengjum frá Austur Evrópu, sem koma gagngert til landsins til að stela, beint úr landi aftur og banna þeim að koma aftur.

Það var dálítil upplifun í kvöld að sjá að sjónvarpið hafði mætt upp í Árbæ í kvöld og myndað Poweratehlaupið. Batnandi mönnum er best að lifa. Ég held að það sé ekki lakari frétt en margt annað sem fréttnæmt þykir að fleiri hundruð manna koma saman einu sinni í mánuði við Árbæjarlaugina og hlaupa tíu kílómetra hring í vetrarmyrkrinu. Yfirleitt hefur tölvupóstum sem sendir hafa verið íþróttadeild ríkissjónvarpsins verið eytt óopnuðum þegar félag maraþonhlaupara hefur sent tilkynningu um vor- eða haustmaraþon. Það er eitthvað annað uppi á teningunum þegar einhver er að mótmæla. Það þarf varla fleiri en tvö til þrjá sem koma saman og tuða eitthvað að þá er RUV mætt á staðinn. Vandlega er síðan tíundað yfir hverju er verið að hvarta. Síðast voru krakkar í FB að kvarta yfir því að fá ekki að halda árshátíð skólans austur á Selfossi og gista á hótelinu um nóttina. Skólayfirvöld hafa vafalaust verið búin að fá yfir sig nóg af ruglinu sem viðgengst á svona ferðalögum svo þau settu einfaldlega bann á þessa tegund árshátíðar. Þá fóru krakkarnir að tuða og sjónvarpið mætti á staðinn um leið.

Veðrið í vetur hefur verið mestan part alveg ótrúlegt til allra hluta nema skíðaiðkunar. Nú er vorveður á morgnana þegar maður fer út. Milt, logn og hlaupaveður eins og best gerist.

Jói og félagar í 2. fl. Víkings spiluðu við jafnaldra sína Í ÍR í kvöld. Ekki gekk allt sem skyldi og niðurstaðan var tap með tveggja marka mun. Víkingar voru fáliðaðir og sömu strákarnir spiluðu allann tímann án þess að fá áðra hvíld en þegar þeir voru reknir út af. Þeir hafa spilað þétt að undanförnu og fyrir suma þeirra þá var þetta fimmti leikurinn á átta dögum. Margir strákanna í 2. flokk spila einnig meir eða minna með meistaraflokk. Jói hefur tekið skref fram á við að undanförnu og er farinn að skora meir en áður. Ellefu lágu í netinu hjá honum í kvöld. Samt var hann ekki ánægður.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þó þeir hafi mætt með myndavélarnar, þá hafa þeir ekki náð nógu góðri mynd til að setja á vefinn. Nema það sé búið að setja upp parísarhjól í Elliðaárdalnum. Laufguð tré kæmu þó ekki á óvart miðað við fréttirnar sem berast af veðrinu heima.

http://frettir.ruv.is/frett/fjolmenni-i-vetrarhlaupi

En í sambandi við útlenska glæpona i norskum fangelsum. Það kom upp úr dúrnum um daginn að menn vinna sér inn félagsleg réttindi með því að sitja inni ef þeir koma frá EES landi. Það hefur leitt til þess að nokkrir útlenskir glæponar hafa framið stórglæpi, setið lengi inni og flutt síðan heim. Norskar bætur eru kóngalaun í sumum löndum.

Menn eru miskátir með þetta fyrirkomulag.

Grímur