fimmtudagur, apríl 15, 2010

Það gengur mikið á fyrir austan. Það var svo sem viðbúið að það fylgdi eitthvað meira i kjölfarið þegar hraunið var farið að springa upp á Fimmvörðuhalsinum. Stærðarmunurinn sást vel á forsíðu Moggans í morgun. Fimmvörðuhálseldstöðin kúrði svo lítil við hliðina á Eyjafjallajökulseldstöðinni. Síðan má segja að stærðarhlutföllin séu svipuð milli Eyjafjallajökuls og Kötlu. Þá er það alvöru, vatnsflaumurinn ca 100 sinnum meiri.

Það er aðdáunarvert að sjá hvað almannavarnaliðið er vel þjálfað fyrir austan. Það gengur allt smurt og hægt að bregðast við yfirvofandi hættu með mjög skömmum fyrirvara. Kunnugir segja að þetta sé mikið breytt frá því fyrir 10-15 árum síðan.

Það sést vel hvað nútímatækni er viðkvæm fyrir náttúruöflunum þegar flug leggst af um stóran hluta norðanverðrar Evrópu vegna gossins í Eyjafjallajökli. Óvíst er hve það mun vara lengi en áhrifin eru gríðarleg. Fróðir menn hafa velt vöngum yfir því hvort þráðlaus fjarskiptatækni nútímans muni standast áhrif stórra gosa í líkingu við Skaftárelda vegna þess hve rafleiðnieiginlekar andrúmsloftsins muni breytast mikið við slíkar hamfarir.

Ég hef lesið skýrsluna góðu töluvert en ekki ítarlega. Almennt er það mál manna að hún sé ítarleg og fari vel og tæpitungulaust yfir viðfangsefnið sem henni var ætlað að fjalla um. Maður veltir stundum fyrir sér hvort það sé ekki ástæða til að gefa nefndinni framhaldslíf og láta hana fara yfir þróun mála og ýmsar ákvarðanir frá hruni. Ákvarðanir skilanefnda og Icesafe málið allt frá upphafi til enda svo dæmi séu nefnd. Hefur eitthvað breyst. Ég held ekki. Í stórum dráttum er þetta alveg eins. Af hevrju er kjötfarssalinn gamli talinn manna hæfastur til að stjórna Bónusveldinu eftir allt sem á undan hefur gengið. Samskip eru komin í góðar hendur, sömuleiðis Bakkavör. Svo mætti áfram telja. Hvers vegna ætti eitthvað að hafa breyst? Heldur fólk t.d. að hinn svokallaði þjóðfundur hafi breytt einhverju? Það man varla nokkur maður eftir honum lengur. Meginniðurstaða hans var að heiðarleiki þyrfti að vera hafður í fyrirrúmi. Það er nefnilega það.

Það er langt viðtal við hinn mikla hlaupara Scott Jurek í nýjasta tölublaði Runners World. Maður skyldi halda að hann væri í góðum málum og hyggði á frekari landvinninga. Það er best að áhugasamir lesi viðtalið sjálfir. Slóðin er: http://www.runnersworld.com/article/0,7120,s6-243-297--13460-0,00.html

Engin ummæli: