laugardagur, apríl 24, 2010

Vormaraþonið var í dag. Ég var ekki með þátttöku í planinu og reyndi því að hjálpa til í Elliðaárdalnum þar sem var fjölmennt í dag. Ég fór út um 6:30 í morgun og tók dagsskammtinn áður en ég fór inn í dalinn. Alls hlupu tæplega 30 manns maraþon og um 200 manns hálft maraþon sem er metþátttaka í vormaraþoni FM. Það viðraði ekkert sérstaklega vel til bætinga í dag, það var stífhvasst á köflum og ekkert sérstaklega hlýtt. Hlaupararnir fuku vestur eftir en svo þurftu þeir að streða til baka á móti vindinum. Skemmst er frá að segja að frábær árangur náðist í hlaupinu. Björn Margeirsson sigraði í sínu fyrsta hlaupi á rúmum 2.38 sem er frábær tími og sérstaklega þegar tekið er tillit til aðstæðna. Þetta er ein besti tími sem hefur náðst á Íslandi um langt árabil. Stefán Guðmundsson sigraði einnig á fínum tíma í hálfmaraþoni en hann hljóp það á 71 mínútu. Báðir hlupu náttúrulega keppnislaust. Þessir strákar eiga mikið inni ef þeir hlaupa við góðar aðstæður, í hóflegum hita og með góða keppni af öðrum keppendum.Það voru serveraðar vöfflur og kaffi með þeim í Jóatjaldi. Það væri erfitt að halda svona hlaup ef ekki væri innhlaup í skjól því veður geta verið válind. Einu sinni lentum við í slæókri snjókomu í marsmaraþoni að við héldum ekki stígnum en vorum rétt komnir út í skurð.

Það er gaman að fylgjast með svíanum sem er að hlaupa yfir Bandaríkin (www.suneson.se). Hann er búinn með rúma 800 km að 5200. Þetta potast. Hver dagur er ný upplifun. Það væri svakalega gaman að takast á við svona þraut.

Ég hef verið að ganga frá ýmsum þráðum vegna Comrades. Ég fékk tölvupóst um að ég hefði ekki sent inn maraþontíma. Ég sendi tímann inn með umsókninni í haust svo það hefur eitthvað skolast til. Ég hringdi suður eftir til að fá nánari upplýsingar og hélt að þetta væri eitthvað mál með vottorðum og veseni en þá var þetta tekið niður í gegnum símann. Síðan hef ég verið að ganga frá greiðslum á hótelið. Það er annað vesenið. Þeir reiknað allt út í Suður Afrísku Randi og gengisskráningin er eitthvað á reiki. Þetta hefst vonandi. Lars Peter sendi mér skeyti nýlega. Hann er að vinna í Zambíu og ætlar einnig að hlaupa Comrades. Hann er góður hlaupari sem fróðlegt verður að sjá hvernig gengur í svona hlaupi.

Engin ummæli: