mánudagur, ágúst 09, 2010

Ég kaupi stundum slatta af DVD diskum þegar þeir eru til sölu á góðu verði. Síðan eru þeir geymdir óopnaðir oft í mara mánuði eða þangað til að tími og tilefni er til að horfa á þá. Stundum eru þeir ekkert sérstakir þegar til kemur en oftar eru þeir betur keyotir en ekki. Ég keypti mér fyrir nokkrum misserum disk um Peter Green, forsprakka og stofnanda hljómsveitarinnar Fleetwood Mac. Ég þekkti ekkert til hans en Fleetwood Mac gerði meðal annars lögin Albatros og Black Magic Women þekkt í lok sjöunda áratugarins. Svo spiluðu þeir einnig lagið Man of the World sem ég mundi ekki eftir en það er alveg frábært. Diskurinn um Peter Green reyndist alveg magnaður. Það er mikið rætt við gömlu skarfana en þeir eru allir lifandi merkilegt nokk. Reyndar veit ég ekki um einn en hann var ekki meðal upprunalegra stofnenda. Kallarnir eru orðnir dálítið snáðir en sama er, það var fróðlegt og gaman að heyra þá segja frá. Fleetwood Mac starfaði í tæp þrjú ár. Í lok sjöunda áratugarins seldu þeir fleiri plötur en Bítlarnir og Rolling Stones - samanlagt. Þeir eru ein af stærstu hljómsveitum sögunnar en þó hefur farið minna fyrir þeim en mörgum öðrum. Peter Green var mjög merkilegur tónlistarmaður. Hann var gítarsnillingur par exellence. Hann leysti Eric Clapton af hjá John Mayall á sínum tíma. hann samdi þessi mögnuðu lög sem ég minntist á áðan. Meðal flestar hljómsveitir á þessum tíma spiluðu rock and roll og léttpopp og fóru svo út í sýrurokk þá spiluðu Fleetwood Mac rokkaðan blues og gerðu það frábærlega. Sýran kom reyndar mikið við sögu hjá FM. Peter Green og einn gítarleikarinn lentu í slagtogi við sýrugengi í Munchen og biðu þess aldrei bætur að sögn hinna hljómsveitarmeðlimanna. Hljómsveitin leystist upp og Peter varð að utangarðsmanni árum saman. Hann lenti inni á geðsjúkrahúsum og fór alveg niður á botninn. Á níunda áratugnum fór að rofa til og hann er aftur farinn að spila og skapa. Hann virkaði í jafnvægi í myndinni og er hættur lyfjaáti að sögn. Á disknum var farið vel yfir sögu magnaðrar hljómsveitar sem engin hætta er á að gleymist.

Borgarstjórinn fór uppáklæddur í fararbroddi fyrir gleðigöngunni í gær. Ef hann hefur gaman af þessu þá er það bara fínt. Mér dettur hins vegar í hug hvað hefði verið sagt, ef borgarstjórinn, sem mátti þola hróp og öskur af pöllum ráðhússins þegar hann tók við embættinu á sínum tíma, hefði dressað sig upp og staðið keikur á pallunum á fyrsta bíl í þessari göngu þegar hann gegndi embætti.

Þegar ekið er um öræfin þá líða sumsstaðar klukkutímar án þess að það sjáist stingandi strá. Landið er dautt. Enginn gróður, engir fuglar, engin dýr, ekkert líf. En svo getur sumt fólk rekið upp andköf af skelfingu við þessar aðstæður ef það sést grænn blettur. Lúpínan, hinn ógurlegi skaðvaldur, gæti verið kominn á kreik. Í augum ýmissa er hún óþjóðleg yfirgangssöm jurt og þar af leiðandi aðskotahlutur sem ætti að útrýma. Svo langt hefur ruglið gengið að það hefur verið lagt til af málsmetandi mönnum að hafinn verði eiturefnahernaður á hálendinu til að útrýma lúpínunni. Nú er komin umræða í gang um að það eigi að útrýma henni niður að 400 metra hæð. Það má vel vera að lúpína henti ekki allstaðar en víða á hálendinu er hún frábær viðbót í afar fátæklega flóru. Hreinn lífgjafi fyrir dautt land. Lúpínan hefur verið til hérlendis í ca 100 ár. Það væri fróðlegt að gera úttekt á elstu svæðunum til að skoða hvaða þróun hefur þar átt sér stað. Hver er jarðvegsmyndun á þessum stöðum? Hvað með annan gróður? Hvað með fuglalíf? Hvers er að vænta þegar lúpínan hefur unnið sitt verk í 50-100 ár. Það væri vitlegra en að leggja til að það verði farið með eiturefnahernað inná hálendið. Má ekki búast við að allur þessi litli gróður sem þar er verði drepinn við slíka aðgerð og grunnvatnið ofaníkaupið mengað.

Fór tvo hringi í gær eða 40 km. Hitti Jóa, Stebba og Sigurjón við brúna um kl. 8:00 og fórum góðan hring í fínu veðri.

Víkingur missti tvö stig í Víkinni í gær vegna mjög grófra dómaramistaka eins og sást í sjónvarpinu í gærkvöldi. Það er vonandi að þetta ráði ekki úrslitum þegar upp verður staðið í haust.

Engin ummæli: