laugardagur, ágúst 21, 2010

Það var fínn dagur á skráningarhátiðinni í gær. Ég kom með bækur í kassa og seldi þær í Asics básnum. Það gekk bara fínt og margar bækur skiptu um eiganda. Það sem var ekki síður gaman var að margir komu á tal við mig og þökkuðu fyrir bókarkornið. Hún hafði orðið þeim hvatning til að takast á við sjálfan sig þegar þeir lásu um hvernig hlutir gengu fyrir sig hjá mér í gegnum árin. Það er sko alveg á hreinu að að detta fáir alskapaðir ofurmaraþonhlauparar niður af himninum og fara að hlaupa. Þetta er puð og streð, sérstaklega framan af. Það sem mestu máli skiptir er hvað fólk vill sjálft.
Síðar um daginn var ég með fyrirlestur um ofurhlaup á þriðjuhæðinni. Salurinn var pakkfullur af áhugasömu fólki. Hvað vill maður hafa það betra?
Ég vaknaði svo kl. 3:00 í morgun og fór að gera klárt. Planið var að taka tvöfaldan hring eins og ég hef gert síðustu tvö árin. Þetta er fín áskorun því það er mikill munur að vera í fjöldanum á seinni hring. Ég lagði planið út með að vera svona 4:00 klst með hvorn hring. Sá fyrri gekk vel. Ég lagði af stað úr Lækjargötunnum kl. 4:30 og hélt sem leið á eftir maraþonbrautinni. Það var reyndar töluverður blástur úti á nesi og á Sæbrautinni en fínt veður þegar maður kominn inn fyrir Íslandsbanka og síðan allar götur út fyrir Suðurgötu. Ég skipti um bol og blússu við bílinn, birgði mig upp með orku og drykki og lagði svo í seinni hringinn. Reyndar gleymdi ég smá hlut í bílnum sem gerði það að verkum að það voru allir farnir af stað þegar ég fór gegnum markið. Það gekk allt vel þangað til komið var inn á Kringlumýrarbraut. Þá fóru að gera um sig krampar í kálfunum sem endurðu í þvílíkri hörku að ég þurfti að ganga alla leið inn að OLÍS sjoppunni. Þá gat ég farið að rúlla aftur. Því voru öll plön fokin út í veður og vind svo ég einbeitti mér að því að halda þeim dampi sem hægt var og njóta dagsins. Líklega hafði ég ekki drukkið nóg á fyrri hringnum og síðan getur verið að ég þurfi að borða steinefni nokkra daga fyrir svona hlaup. Ég hafði kókflösku í runna rétt fyrir neðan Rauðagerðið og það var mjög kærkomið að svolgra úr henni. Poweratið er ekki minn drykkur á seinni hring í svona hlaupi.
Ég skaust svo inn í sjoppuna úti á Nesi þegar þangað var komið og keypti mér aðra kók. Það hittist svo skemmtilega á að ég hitti gamla manninn í sjoppunni sem lánaði mér kókflöskuna í fyrra þegar ég var orðinn alveg orkulaus. Hann mundi vel eftir mér og það var gaman að geta þakkað honum fyrir greiðann. Hann var nefnilega farinn þegar ég kom og borgaði í fyrra. Nú var ég með pening svo það þurfti engin lánsviðskipti þetta árið.

Þótt svo að plan dagsins hefði runnið út í sandinn þá var ég bara nokkuð ánægður með margt. Fyrir utan krampana var allt í lagi. Lærin voru fín og enginn stirðleiki í þeim. Engir aðrir erfiðleikar birtust hvorki skafsár, blöðrur, fótaeymsli né annað. Það er fín tilfinnig að geta rúllað í gegnum svona hlaup án þess að það taki neitt sérstaklega í, jafnvel þótt æfingar hefi verið af skornum skammti í tvo mánuði.
Þegar ég kom í mark hitti ég tvo kunningja mína sem voru að ljúka sínu fyrsta þoni. Ég talaði svolítið um það í fyrirlestrinum í gær að hlauparar skyldu gæta þess að njóta upplifunarinnar að ljúka sínu fyrsta maraþoni. Það gerist nefnilega bara einu sinni á æfinni að fyrsta maraþonið er í höfn. Þeir höfðu farið inn eftir Lækjargötunni í morgun fyrir ræsingu, horft á markið og hugsað: "Ég SKAL hlaupa þarna í gegn eftir einhverja klukkutíma" Það var svo allur pakkinn þegar þeir komu á beinu brautina í hlaupalok og sáu markið. Fiðrildi í maganum og gæsahúð á bakinu. Betra getur það ekki verið. Um að gera að njóta svona stundar því hún verður ekki endurtekin. Tímarnir hjá mörgum voru mjög fínir. Björn Margeirsson vann góðan sigur og bætti sig, þrátt fyrir strekkinginn. Sama má segja um árangur Rannveigar Oddsdóttur sem hljóp undir þremur tímum. Þetta er frábært. Ég ætla ekki að tuða neitt á svona góðum degi en það bíður betri tíma en þó má benda á eitt. Íslandsmeistaramót í maraþoni var haldið í dag. Ég hef ekki heyrt minnst á úrslit þess í þessu samhengi. Á Ólympíuleikum er sigurvegari í maraþoni maður mótsins. Af hverju ekki að reyna að hefja íslandsmeistaramót í maraþoni á svolítið hærri stall en það er í dag? Bara smá ábending.

Engin ummæli: