sunnudagur, september 26, 2010

Ég var á Hafnasambandsþingi vestur í Stykkishólmi í síðustu viku sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Það rifjaðist upp að árið 1994 var það mitt fyrsta verk sem nýráðinn sveitarstjóri á Raufarhöfn að sitja Hafnasambandsþing einmitt vestur í Stykkishólmi. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og margt gerst. Það var farið í skoðunarferð um nesið eins og fyrir sextán árum. Margt hafði breyst á þeim árum sem liðin eru og flest til betri vegar. Það má segja að hrun skeljarinnar í Breiðafirði hefur mikil neikvæð áhrif á atvinnulífið og samfélögin en annað hefur yfirleitt farið upp á við. Öflug atvinnufyrirtæki, mikil og sértaklega snyrtileg hafnamannvirki og þróttmikil samfélög er að finna vestur á Nesi. Það var hins vegar annað sem vakti mig til umhugsunar. Stemmingin á Hafnasambandsþingum hefur yfirleitt verið veraldlegs eðlis. Þar eru mættir einstaklingar sem kunna vel að meta góðan viðurgjörning í mat og drykk. Ég hef það mig minnir mætt á flest Hafnasambandsþng frá árinu 1994. Það er hins vegar í fyrsta sinn sem umræðu um hreyfingu og útivist hefur borið á góma á þessum þingum það ég man eftir. Einn þingfulltrúi hljóp 10 km í fysta sinn í RM, annar 1/2 maraþon, þriðji hafði hlaupið maraþon. Einn æfði fyrir Þrekmeistarann, annar hafði gengið á Kilimanjaro, enn einn hafði létt sig um á annan tug kílóa og var farinn að hjóla og hlaupa og þannig mætti áfram telja. Mér finnst þetta alveg stórkostlegt.

Í gærkvöldi hélt Jón Kr. frá Bíldudal upp á sjötíu ára afmælið sitt í FÍH salnum hérna hinum megin við götuna. Það var troðfullt og fín skemmtan. Þarna komu fram vinir Jóns og sungu og léku honum til heiðurs s.s Ragnar Bjarnason, Þuríður Sigurðardóttir, Anna Sigga sem söng með Soffíu hér í árdaga, Fjallabræður, Léttsveit Reykjavíkur, söngkonur sem ég kann ekki skil á, stúlknakórinn austan úr Biskupstungum, popparar frá Bíldudal auk ýmissa annarra hljóðfæraleikara og svo sjálfur stórtenórinn Kristján Jóhannsson og vafalaust einhverjir fleiri sem ég gleymi. Þetta var fínt kvöld en hápunkturinn var þegar stórtenórinn söng O Sole Mio. Maður fékk tár í augun, slíkir voru víbrarnir.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

NRK gerir heldur meira úr últrahlaupum en RÚV.
http://www.nrksport.no/friidrett/1.7308986

Grímur

Nafnlaus sagði...

Þetta eru fínar fréttir hjá NRK. RUV gerði ágætis fréttaskýringu þegar ég fór til Grikklands í hitteðfyrra en sendi ekki mann með suðureftir!! Það er nú líka varla heldur hægt að ætlast til þess enda þótt það hefði verið gaman fyrst allt gekk upp.