þriðjudagur, desember 21, 2010

Ég var búinn að ganga með hugmyndina að takast á við 24 tíma hlaup á bretti í nokkra mánuði. Ég fylgdist með sænskum hlaupara sem hljóp svona hlaup fyrr á árinu og þar sem ég vissi að hann var ekkert betri en ég í utandyrahlaupum þá jók það vissuna að ég gæti lokið slíku hlaupi. Vissulega eru ýmsir aðrir óvissuþættir sem maður þarf að takast á við þegar hlaupið er innan dyra en við hlaup undir berum himni. Á hinn bóginn eru aðrir þættir sem hægt er að ganga að vísu. Þeir verstu við brettishlaup eru að hreyfingin er alltaf sú sama. Það eykur líkur á blöðrum og krömpum. Síðan getur hitinn verið vandamál. Ég hafði fundið það við að hlaupa lengi á brettinu niður í World Class í Laugum að ég svitnaði gríðarlega þar. En það er bara svona, annað hvort tekst maður á við verkefnin eða ekki.
Það varð minna úr löngum æfingum í nóvember en ég ætlaði svo ég frestaði hlaupinu um nokkrar vikur. Helgin fyrir jól var því sú eina sem kom til greina. Ég lét slag standa framan af vikunni og óskaði eftir aðstoð við hlaupið á www.hlaup.com. Við í ofurhlauparáðinu samþykktum reglur fyrir hlaup á bretti á fundi fimmtudagskvöldið 16. des svo það mátti ekki seinna vera. Fyrirmynd reglnanna er komin frá sænska ofurhlauparáðinu sem aftur hefur fengið þær frá alþjóðlegum stöðlum. Þær eru sem hér segir:
Reglur fyrir ofurhlaup á hlaupabretti:
1. Nota skal hefðbundna viðurkennda tegund hlaupabrettis sem er almennt í notkun á líkamsræktarstöðvum.
2. Bretti skal vera stillt í lárétta stöðu á meðan á hlaupinu stendur.
3. Það er ekki heimilt að halda sér í handföng eða styðja sig við hlaupabrettið á meðan á hlaupi stendur.
4. Ef hlaupari ætlar að stíga af hlaupabrettinu skal það ekki gert fyrr en brettið hefur stöðvast.
5. Formleg hlaup á hlaupabretti sem eiga að fá skráðan árangur skulu vera opin almenningi.
6. Hlaupari getur hvílst eftir þörfum á meðan á hlaupinu stendur. Klukkan er hins vegar ekki stöðvuð. Sem dæmi má nefna að ef 24 tíma hlaup hefst kl. 12:00 á laugardegi þá lýkur því kl. 12:00 á sunnudegi. Sama gildir með 100 km hlaup að klukkan er ekki stöðvuð frá því hlaupið hefst þar til tilsettri vegalengd er náð.
7. Þegar hlaupin eru vegalengdarhlaup á hlaupabretti (100 km, 100 mílur) þá skulu tveir tímaverðir / trúnaðarmenn vera nærstaddir allan tímann með nákvæma og samræmda tímatöku.
8. Halda skal sérstaka „loggbók“ yfir hvernig tíminn sem hlaupið stendur yfir er nýttur. Í henni skal meðal annars koma fram yfirlit um þann tíma sem brettið er stöðvað og hlaupari stígur af brettinu, vegalengd sem hlaupin er á hverjum klukkutíma eða sá tími sem tekur að hlaupa hvern klukkutíma eða mílu. Viðstaddir tímaverðir / trúnaðarmenn skulu árita bókina í hvert sinn sem þeir hverfa af vettvangi.
9. Staðfestingarskjal skal um árangur hlaupsins skal gefið út í tveimur eintökum að hlaupi loknu áritað af að minnsta kosti tveimur tímavörðum / trúnaðarmönnum.

Reglur þessar voru samþykktar á fundir ofurhlauparáðs FRÍ fimmtudaginn 16. desember 2010.
Ég óskaði því eftir aðstoð á vefnum hlaup.com. Það stóð ekki á viðbrögðum. Sjálfboðaliðar komu hver á fætur öðrum til að leggja þessu verkefni lið. Skipti þá ekki máli hvort um var að ræða daginn eða nóttina. Ég er afar þakklátur öllum þessum góðu félögum sem lögðu mér lið svo að þessi tilraun gæti átt sér stað. Vitaskuld er þetta tilraun því maður veit aldrei hvernig niðurstaðan verður fyrr en upp er staðið.
Ég Lagði upp kl. 12:00 í World Class í Kringlunni. Þar er betra að hlaupa heldur en niður í Laugum. Hitinn er ekki eins mikill og maður svitnar minna. Það skiptir miklu máli á langri leið. Ég hafði lagt út með að nærast fyrst og fremst á Herbalife (Formúlu 1 og 3) á þriggja tíma fresti. Svo var ég með nóg að drekka (Kók, malt, Tonic og djús), salttöflur, kex, kartöfluflögur og fleira sem til þarf.
Ég setti planið upp með að fara út á rúmum 10 km á klst. Það koma alltaf einhverjar frátafir og síðan er alltaf hægt að ganga út frá því að það hægist á manni þegar líður á. Til að ná 200 km markinu hafði ég þó um fjóra tíma upp á að hlaupa. Eitt sem tekur tíma er t.d. að það þarf að endurstilla brettið með vissu millibili. Andlegi þátturinn skiptir höfuð máli við svona hlaup. Ef maður myndi einbeita hugsuninni að því í byrjun hlaups að maður ætti eftir að hlaupa þarna á sama staðnum í næstu 24 stundir þá er það mjög yfirþyrmandi. Ef maður hugsar einungis um næstu 5 – 10 km þá er það allt önnur viðmiðun. Maður étur fílinn ekki í einum bita heldur mörgum.
Síðan rúllaði brettið og tíminn leið. Jói og Trausti voru nærstaddir í upphafi en síðan tók hvert hollið við af öðru. Ýmsir notuðu brettin vel eins og Gunnar Ármannsson sem lauk 50 km hlaupi glæsilega, Trausti Valdimarsson lauk maraþoni og Haukur félagi minn úr ljósmyndaklúbbnum hljóp hálfmaraþon sem var helmingi lengra en hann hafði gert á bretti áður. Eftir um 30 km þá fór ég að ganga smávegis af og til. Það slakar á fótunum og virkar sem nokkurskonar teygjur. Á brettunum niður í Kringlu er hægt að horfa á sjónvarp á brettinu sjálfu. Það er miklu betra en að horfa á skjá upp á vegg. Það væri ekki hægt yfir svona langan tíma. Það er merkilegt hvað tíminn líður hratt þegar lagt er af stað. Fyrirfram virkar þetta dálítið ógnvekjandi en svo rúllar þetta bara. Ef mér fannst tíminn lengi að líða þá hugsaði maður um sveitungana vestan úr Rauðasandshreppi sem sátu í hátt í sólarhring í dimmasta skammdeginu árið 1947 í skítaveðri annars vegar á Flaugarnefinu í miðju Látrabjargi og hins vegar niðri í fjörunni undir bjarginu. Alger óvissa var um hvort þeir sem í fjörunni sátu myndu lifa nóttina af. Í samanburði við slíka þrekraun er ekki mikið mál að láta sér líða vel á bretti innan húss í smá tíma.
Ég skipti um skó undir kvöldið. Ég var ekki alveg sáttur við skóna sem ég byrjaði hlaupið í og fór því í stærri skó. Það má ekkert nudd vera til staðar því þá eru blöðrur komnar fyrr en varir. Einnig fór ég í teygjusokka. Um þrjú leitið um nóttina fór ég að finna fyrir smá krampa í kálfunum. Ég hægði þá aðeins á mér til að slaka á og minnka hættuna á vandræðum. Áætlunin var á plani svo ég var sáttur við hvernig hlaupið gekk. Ég fór yfir 100 mílur um kl. 5:30 undir morgun og þá var þetta orðið nokkuð öruggt ef ekkert kæmi upp á. Ég slakaði því aðeins meir á til að hafa öryggið í fyrirrúmi. Þarna fann ég að vökvaskorturinn var farinn að segja til sín. Það var sama hvað ég drakk og drakk, það virtist allt renna út í gegnum svitann. Maður má passa nýrun svo þau lendi ekki í of miklu álagi vegna vatnsleysis við hreinsunarstarfið. Maginn var síðan aðeins farinn að kveinka sér og einu sinni þegar ég ætlaði að borða banana þá kom allt sömu leið til baka. Það er bara hluti af þessu.
Lokatímarnir liðu fljótt. Þá fór ég einnig að fara fram úr norrænu metunum og síðast féll Kim og hans met. Það létti allt undir. Þorlákur taldi niður og það var vitaskuld ákveðinn léttir að geta slökkt á brettinu og vita að allt var í höfn. Alls hljóp ég 208.760 km. Það mun vera bæði norðurlandamet og 14. besti árangur í heiminum frá upphafi samkvæmt þessari vefsíðu:

http://www.recordholders.org/en/list/treadmill.html

Mér leið í sjálfu sér ágætlega að hlaupi loknu. Skrokkurinn stirðnar að vísu fljótt við að hætta að hreyfa sig eftir svona langan tíma en það jafnar sig fyrr en varir. Ég hef verið miklu stirðari eftir önnur hlaup. Fæturnir voru ósárir og blöðrur fáar. Zinkpastað dugði eins og best var á kosið til að koma í veg fyrir skafsár í klofinu. Herbalifið dugði sem næring eins og ég hef áður haft reynslu af. Þetta var skemmtilegt verkefni sem gekk vel upp með aðstoð góðra félaga.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með stórkostlegt afrek. Þú ert frábær.
Kveðja
Höskuldur

Stefán Gísla sagði...

Til hamingju með þetta einstaka afrek!!!

Ágúst Ásgeirsson sagði...

Vel að verki staðið, til hamingju með þetta mikla afrek. Skemmtileg lesning.
Ágúst