miðvikudagur, desember 01, 2010

Fram til þessa hef ég kosið í öllum þeim opinberum kosningum sem ég hef haft möguleika á að gera. Sama hvort það eru kosningar til sveitarstjórnar, alþingis, forsetaembættisins eða kosningar um brennivín, flugvöll, hundahald og Icesafe. Mér hefur fundist það vera skylda hvers einstaklings sem býr í lýðræðissamfélagi að nýta kosningaréttinn. Það veit enginn hvað hann hefur fyrr en hann hefur misst það. Nú kaus ég hins vegar ekki. Ég gat bara ekki hugsað mér að taka þátt í þessu þjóðfundar/stjórnlagaþingssjónarspili öllu. Það eru takmörk fyrir því hve langt maður getur látið leiða sig.
Þetta byrjaði allt saman í látunum snemma árs 2009. Þá fóru einhverjir að hafa hátt um að nú þyrfti að byggja upp nýtt Ísland. Byggja upp nýtt siðferði, byggja upp nýja stjórnarskrá. Nokkur hópur fólks át þessa frasa síðan upp hver eftir öðrum og þetta var voða mikið „inn“ hjá sumum. Allur fjöldinn lét sér fátt um finnast.
Svokallaður þjóðfundur var haldinn fyrir góðu ári síðan. Hann átti að leggja ákveðinn grunn að Nýja Íslandi. Megináherslan var þó lögð á aðferðafræðina. Hún var orðin aðalatriðið. Þetta hafði hvergi verið gert í heiminum áður. Hvað segir það? Jú, nefnilega að aðrir hafi ekki talið þessa aðferðafræði sérstaklega skynsamlega. Út úr þjóðfundinum hinum fyrri kom ekkert það ég veit eða man nema að nöfn umræðufunda breyttust víða í kjölfar hans og hétu þeir nú þjóðfundir enda þótt einungis fáir tugir mættu á staðinn. Engu að síður var haldinn annar þjóðfundur og nú sögðu ýmsir að hann hafði verið miklu betri en sá fyrri. Reyndar áttuðu einhverjir sig á því að þessi svokallaði þjóðfundur samanstóð af 100 tíu manna fundum.
Svo var farið að undirbúa stjórnlagaþingið sjálft. Sú nýbreytni var tekin upp að nú átti þjóðin að vinna verkið. Ekki einhverjir stjórnmálamenn á vegum fjórflokksins alræmda. Þjóðin var nú eitthvað annað.
Það kom forsvarsmönnum verkefnisins í opna skjöldu hve margir höfðu áhuga á 2ja til 4ra mánaða þægilegri innivinnu við að velta stjórnarskránni fyrir sér. Fyrst allt var opið og litlar hindranir á veginum þá var við því að búast að margir gæfu kost á sér. Annað hefði verið óeðlilegt. Sérstaklega þegar hamrað var á því sínkt og heilagt að nú ætti ÞJÓÐIN að taka málin í sínar hendur.
Þessi mikli áhugi olli ákveðnum vandræðagangi í upphafi en svo leystist það. Gefið var út gott blað með myndum, æviágripi og nokkrum línum um fyrir hvað viðkomandi stæðu. RUV tók viðtöl við alla frambjóðendur og þau voru aðgengileg en að vísu bara á vefnum. Ýmsir þeirra sem hefðu haft tíma og gaman af því að hlusta á þessi viðtöl nota ekki tölvur. Persónukjör er ekkert nýtt í sögunni. Óhlutbundin kosning hefur viðgengist víða um land um áratuga skeið og síðan eru forsetakosningar og prestkosningar ekkert nema persónukosningar svo dæmi séu nefnd. Það var engin fyrirstaða þótt fólk þyrfti að skrifa niður nokkur númer til að hafa hjá sér á kjörstað í stað þess að krossa við nafn. Kosningafyrirkomulagið var nýtt en það lærðist. Ekkert mál. Svo kom kjördagurinn. Þá fór í verra. Það mættu nefnilega mjög fáir á kjörstað. Svo fáir að um það eru fá ef nokkur dæmi í sögunni. Það lá svo við að fjölmiðlar grátbæðu fólk um að fara og kjósa að kvöldi kjördags þegar sýnt var hve kjörsóknin yrði léleg.
Allskonar eftiráskýringar komu fram að kjördegi loknum. Sumir sögðu að fjölmiðlar hefðu brugðist. Aðrir sögðu að háskólasamfélagið hefði brugðist. Sumir sögðu að fólkið hefði hræðst fyrirkomulagið og því hefðu kjósendur brugðist. Mjög fáir hafa minnst á það sem ég held að sé aðalástæðan fyrir lélegri kjörsókn. Allur þorri almennings hefur enga tilfinningu fyrir því að stjórnarskráin sé einhver orsakavaldur í efnahagshruninu. Fólk sér því engan tilgang í því að rjúka í endurskoðun hennar núna og eyða í það verk svo gríðarlegum fjármunum sem raun ber vitni. Nefndar eru 800 milljónir króna sem lágmark. Þessir peningar eru allir teknir að láni. Vegna þessa verkefnis verður að skera enn frekar niður í velferðarkerfinu á komandi árum því lán þarf að borga til baka og þau kosta peninga. Meirihluti þjóðarinnar mótmælti því öllu heila spilverkinu með því að láta ekki sjá sig á kjörstað.
Ýmislegt situr þó eftir sem er umhugsunarvert:
Margir frambjóðenda virtust ekki vita mikið um hvað málið snerist. Ýmsir þeirra boðuðu afar harðan kommúnisma sem skyldi bundinn í stjórnarskrá.
Framkvæmdastjóri verkefnisins var eiginkona eins frambjóðendans.
Talnasérfræðingar sem komu að vali á kosningaaðferðinni fóru í framboð og náðu báðir kjöri. Aldrei kom til tals að nota aðra aðferð en þá sem notuð var.
Framkvæmdastjóri verkefnisins hreytti ítrekað ónotum í þá frambjóðendur sem reyndu að vekja athygli á sér með auglýsingum.
Fyrsta frétt í hádeginu daginn eftir á Bylgjunni var að erlendir fjölmiðlar hefðu fjallað um kosninguna. Þar þótti sem sagt merkilegra að útlendingar litu til landsins en sú staðreynd að yfir 60% kjósenda sáu ekki ástæðu til að kjósa.
Það kostar töluverða yfirlegu að ná að skilja þá aðferðafræði sem notuð er við talninguna.
Framkvæmdastjóri verkefnisins sagði ítrekað að kjörsóknin skipti engu máli. Því hefði líklega verið nægjanlegt í hennar augum að einungis einn kjósandi hefði kosið sé það tekið bókstaflega sem sagt var. Hvaða málflutningur er þetta??
Bakland einstakra stjórnlagaþingsmanna er afar lítið sé það reiknað sem hlutfall af kosningabærum einstaklingum. Því er staða þingsins veik svo ekki sé dýpra í árinni tekið.
Venjulegu fólki sem lítið hafi haft sig í frammi á opinberum vettvangi var talin trú um að það ætti erindi inn í þennan prósess. Það væri þjóðin. Nú liggur fyrir hvað þarf til að ná kjöri í svona kosningafyrirkomulagi.
Það er fróðlegt að sjá hvernig „þverskurður þjóðarinnar“ lítur út.
Mjög skýrt kom í ljós hver verður niðurstaðan í kosningum undir formerkinu „Allt landið eitt kjördæmi“.
Það er vonandi að umræðan um persónukjör hafi ekki verið eyðilögð í þessum kosningum. Það væri verra.
Það setur alltaf að manni hálfgerðan ugg þegar íslendingar segjast vera frábærari en aðrar þjóðir á jarðarkringlunni.

Engin ummæli: