föstudagur, janúar 14, 2011

Ég er stundum pirraður á fjölmiðlum. Vafalaust er vinnuaðstaða fjölmiðlamanna ekkert alltof góð. Þeir fá lítinn tíma til að vinna að undirbúningi og vinnslu frétta og þá er oft stysta leiðin sú auðveldasta. Oft er því tekið fegins hendi við því sem fólk er að hringja inn og vill koma á framfæri. Þó verður sú skylda ekki tekin af fjölmiðlamönnum að sigta það út sem á erindi í fjölmiðla og hvað á alls ekki erindi þangað. Svo er ruglið svo mikið á stundum að maður getur ekki séð annað en að fjölmiðlamenn séu að misnota aðstöðu sína gróflega. Nú er ekki hægt annað en að gera mikinn greinarmun á einkareknum fjölmiðlum og RUV. Einkareknir fjölmiðlar standa og falla með þeim sem borga af fúsum og frjálsum vilja hvort sem það eru auglýsingar eða áskriftargjöld. Öðru máli gegnir um RÚV. Hver einasti íslendingur yfir ákveðnum aldri er þvingaður til að greiða þeim rekstrarfé. Maður hefur ekkert val um það. Því er rétt að gera meiri kröfur til RUV um fagmennsku heldur en annarra fjölmiðla. Eitt allra grófasta dæmið um það sem maður getur ekki túlkað öðruvísi en beina misnotkun sem ég hef séð lengi kom fyrir í Kastljósi á miðvikudagskvöldið. Flestir hana heyrt getið um níumenningana svokölluðu sem ruddust inn í Alþingishúsið fyrir tæpum tveimur árum síðan og fóru þar um með óspektum að því manni skilst. Alla vega kærði Alþingi þá og er málið rekið fyrir dómsstólum. Þar hefur oltið á ýmsu. Mágkona eins þessara níumenninga fékk að koma í Kastljós á miðvikudaginn var og gera tvennt. Í fyrsta lagi fékk hún að auglýsa styrktartónleika fyrir þessa níumenninga. Það er í sjálfu sér of langt gengið ef ákveðið fólk fær aðgengi að Kastljósi til að auglýsa persónuleg áhugamál sín. En í öðru lagi fékk hún að fimbulfamba heillengi þar sem hún útmálaði ranglæti dómskerfisins fyrir að höfða mál á hendur þessu fólki og hvað það hefði átt erfitt á þessum tveimur árum. Fá aðstandendur allra sem eiga skyld- eða tengdafólk sem stendur í málaferlum tækifæri til að koma í Kastljósið og úthúða dómskerfinu? Vitaskuld ekki. Þarna var því í fyrsta lagi gert gróflega upp á milli fólks og í öðru lagi var vegið mjög gróflega að réttarríkinu. Þrískipting ríkisvaldsins er framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald. Þau eiga að starfa algerlega sjálfstætt hvort frá öðru. Löggjafarvaldið setur lög. Framkvæmdavaldið framkvæmir hlutina eftir því sem lög segja fyrir um og dómsvaldið dæmir eftir gildandi lögum. Þetta er grundvöllur réttarríkisins. Það er ekki hlutverk ríkisútvarpsins að grafa undan dómskerfinu í landinu. Þetta mál fer sína leið eins og önnur. Það hefur verið gerð gríðarlega hörð atlaga að dómkerfinu í tengslum við þetta mál og leitað allra leiða til að fá löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið til að grípa inn í verksvið dómsvaldsins. Það er semsagt sótt mjög hart að réttarríkinu. Að ríkisútvarpið skuli stökkva inn á þann leikvöll segir manni meir en margt annað um principleysið sem ríkir uppi á Efstaleyti eða er það kannski svo, sem er miklu verra, að RUV hafi tekið afstöðu og skipi sér í sveitina sem vill veikja dómskerið í landinu. Ef ég hefði um það val myndi ég hætta á stundinni að greiða afnotagjöld til RUV vegna framgöngu stofnunarinnar í þessu máli. Fréttamaður sem hleypir svona löguðu í gegn er óhæfur til starfa og fréttastjórinn sömuleiðis að mínu mati.

Það hefur verið rætt mikið að undanförnu um staðgöngumálið svokallaða. Utan að frá séð virðist mér þar koma fram allir verstu eiginleikar íslendinga. Staðgöngumæðrun er bönnuð á Íslandi. OK, þá er bara farið til einhvers lands þar sem auðvelt er að fá fátækt fólk til að ganga í verkið gegn hóflegri greiðslu. Málið er ekki skoðað til hlítar heldur vaðið af stað í þeirri trú að peningar séu það afl sem til þarf. Þetta muni allt reddast. Engar áhyggjur virðast hafa verið gagnvart því að erfitt gæti verið að koma með barnið til landsins þrátt fyrir að staðgöngumæðrun sé bönnuð hérlendis. Fyrst mánuði áður en barnið fæðist er farið að skoða þá hlið mála með aðstoð lögmanns. Þegar barnið er fætt þá er farið í fjölmiðla og vandræðum lýst. Það er leiðin til að hafa áhrif á stjórnkerfið. Beita þrýstingi í gegnum fjölmiðla. Fá vorkunn almennings. Láta Facebook safna "like" um. Alþingi hleypur upp til handa og fóta og skenkir barninu íslenskum ríkisborgararétti samdægurs (eða allavega mjög fljótt) þrátt fyrir að staðgöngumæðrun sé ólögleg hérlendis. Það þarf að redda málunum þegar allt er komið í ógöngur. Hvar eru principin, hvar er ígrunduð umræða? Svona löguð vinnubrögð eru ekki til að bæta virðingu Alþingis. Í allri umræðunni heyrði ég aldrei minnst á siðfræðilegar spurningar fyrr en í Kastljósi nýlega þegar þá hlið málsins bar loks á góma. Það er farið að saka ráðuneytið um pólitíska misbeitingu valds þegar ekki fæst allt sem um er beðið eins hratt og viðkomandi vilja. Reglur og formfesta eru bara til trafala. Til að bíta höfuðið af skömminni vilja einstaka þingmenn vaða í að leyfa staðgöngumæðrun hérlendis bara si svona. Ég heyrði lesið upp bréf frá einhverri konu í RUV nýlega sem virtist ekki geta beðið eftir því að fara að byrja. Eru virkilega engin takmörk fyrir ruglinu?

Hvað væri gert ef einhvert fólk hefði farið erlendis og keypt barn einhversstaðar úti á götu? Barnið hefði verið staðgreitt og fólkið væri með undirskrifaðan samning þess efnis að það ætti barnið með öllum rétti og hefði innt kaupverðið af hendi að fullu. Það sæti svo uppi með barnið og enginn vildi taka það til baka í heimalandi þess? Það hefðu að vísu komið upp einhver smá vandræði með vegabréfsáritun og annað álíka smotterí. Myndi Alþingi stökkva til og redda málunum eins og að drekka vatn. Líklega.

2 ummæli:

Burkni sagði...

Verst thótti mér thegar Kastljós var med umfjöllun um stelpu sem hafdi látid kljúfa á sér tunguna med skurdadgerd og umfjöllunin var öll á theim nótum hvad thett væri nú snidugt.

Nafnlaus sagði...

þetta mál gengur náttúrulega algjörlega fram af manni.
Hef aðeins verið að skoða fréttir af þessum málum á netinu og þar er talað um "indian baby factory" Staðgöngumæðurnar búa 10-20 saman í íbúð og bíða eftir að meðgöngunni ljúki - þær mega ekki vera með fjölskyldunum sínum og alls ekki má fréttast hvað þær eru að gera því þá eru þær útskúfaðar úr samfélaginu.

http://www.thisislondon.co.uk/standard/article-23686256-couple-buy-child-from-india-baby-factory.do

Jana