miðvikudagur, febrúar 09, 2011

Í gær fylgdum við Kötu frænku til grafar. Hún var ekki frænka mín í raun heldur systir tengdamömmu en engu að síður var hún alltaf kölluð Kata frænka af þeim sem hana þekktu. Kata var orðin rúmlega áttræð og lést södd lífdaga. Þrátt fyrir margháttað andstreymi í lífinu á tapaði hún aldrei glaðlyndinu, bjartsýninni, jákvæðninni og trúnni á hið góða í manninum. Henni leið best innan um stórfjölskylduna og leit á krakkahópinn eins og hún ætti persónulega töluverðan hluta í þeim hverju fyrir sig. Maður fer að velta fyrir sér forgangsröðun hlutanna enn betur þegar þeim er kynnst í návígi. Síðustu mánuðina þurfti Kata að vera inni á hjúkrunarheimili þar sem hugsað var vel um hana á allan hátt. Ekki var samt sem áður hægt að útvega henni herbergi sem hún hafði út af fyrir sig heldur deildi hún herbergi með annarri konu allt til enda. Þannig er búið að fólki síðustu daga lífsins sem búið er að leggja sitt af mörkum til þjóðfélagsins allt það hefur getað frá því það gat staðið undir sjálfu sér. Presturinn minntist á það í minningarorðunum að þegar Kata var einungis níu ára gömul þá var henni falin ábyrgð á að annast kyndingu á húsinu sem fjölskylda hennar bjó í og húsið var kolakynt. Kolakynding er vafalaust eitthvað sem ca helmingur þjóðarinnar hefur ekki hugmynd um hvað er, hvað þá að hann geti ímyndað sér hvernig það hefur verið fyrir níu ára gamalt barn að bera ábyrgð á slíku. Aðstæður á þeim tíma voru hins vegar þannig að það urðu allir að axla sína ábyrgð og leggja sinn skerf af mörkum í lífsbaráttunni, að öðrum kostu gengu hlutirnir ekki upp. Ég hitti konu okkur tengda í jarðarförinni og aðstæður Kötu undir það síðasta bárust í tal. Þá rifjaði hún upp og varð heldur heitt í sinni þegar hún sagði okkur frá því að mamma hennar hefði þurft að deila herbergi á elliheimili í nokkur ár með tveimur öðrum konum. Við slíkar aðstæður er ekkert einkalíf, það er varla hægt að fá fólk í heimsókn, fólk getur varla haft nokkurn persónulegan mun hjá sér nema kannski nokkrar myndir og að síðustu er alls ekki víst að slíkum einstaklingum lyndi saman. Það er ágætt að hafa þetta í huga þegar maður sér í umræðunni að það er talið ófært og allt að því brot á mannréttindum ef sori samfélagsins, dæmdir morðingjar, nauðgarar, dópsalar og barnaníðingar svo ekki sé talað um krimma af minni gráðum, fái ekki prívatherbergi í fangelsinu með tölvu, flatskjá og alleslags þægindum, aðgang að líkamsrækt og ég veit ekki hvað. Það er oft gott að setja hlutina í samhengi.

Talandi um fangelsisbúa þá verð ég að segja að mér fannst PR stunt fangelsisforstjórans fyrir jólin vera vægt sagt óviðkunnanlegt. Að sýna verstu glæpamenn þjóðarinnar í sjónvarpsfréttum trekk í trekk sem einhverja góða og gjafmilda frænda sem voru önnum kafnir að baka kökur, mála jólasveina og á annan hátt að undirbúa jólin í sátt við allt og alla. Á öllum hlutum eru tvær hliðar hið minnsta. Menn eru ekki settir í fangelsi nema þeir hafi brotið á einhverjum. Alla vega á réttarkerfið að tryggja það að saklausir menn séu ekki settir í steininn. Ég get rétt ímyndað mér hvernig mér myndi líða ef ég sæi einhverja gangstera sem hefðu brotið mjög gróflega á mér eða minni fjölskyldu sýnda á þennan hátt í sjónvarpsfréttum. Það er vissulega tilraunarinnar virði að reyna að nota tímann sem menn sitja inni til að gera viðkomandi skárri þegar þeir koma út heldur en þegar þeir fóru inn. Það er hins vegar óþarfi að nudda því framan í fólk sem einhverju PR stunti fangelsismálastofnunar.
Fyrir rúmum 10 árum var ég á ráðstefnu á Nýfundnalandi. Þar las ég blöðin eins og maður gerir oftast erlendis til þess að átta sig aðeins á umræðunni í samfélaginu. Þá sá ég fréttir af því að það höfðu verið birtar í fjölmiðlum myndir úr einu af ríkisfangelsum Kanada. Þar voru fangarnir í veisluhöldum og góðri skemmtan. Meðal fanganna á myndunum var kona sem hafði ásamt kalli sem hún var í slagtogi við drepið systur sína á viðurstyggilegan hátt. Í blöðunum birtust myndir af henni uppáklæddri í veisluhöldunum í fangelsinu eins og hún hefði hvítskúraða samvisku. Það varð allt vitlaust í umræðunni í samfélaginu út af þessu það ég sá. Spurt var hvort fangelsin væru eins og hvíldar- og hressingarhæli af betri sortinni fyrir verstu glæpamenn þjóðarinnar eða hvað. Kanadamenn voru ekki par hrifnir yfir svona birtingarmynd fangelsisdvalar fyrir verstu glæpamenn þjóðarinnar. Svo þekki ég þá sögu ekki lengri.

Engin ummæli: