laugardagur, febrúar 26, 2011

Að skipa 25 manns sem urðu efstir í kosningu sem hæstiréttur landsins hefur dæmt ólögmæta til að undirbyggja breytingar á stjórnarskránni er versta hugsanlega niðurstaða sem hægt var að komast að. Hörmungarsagan í þessu máli virðist engan endi ætla að taka. Það má vera að einhverjum finnist voðalega sniðugt að rétta hæstarétti fingurinn en á hvaða leið erum við sem þjóð ef á að fara að spila svoleiðis leiki. Í öllum þeim löndum sem ég þekki til í þá bera menn virðingu fyrir hæstarétti. Hann er grundvöllur réttarríkisins. Síðan má ekki gleyma því að það er ekki verið að höndla með litinn á einhverjum húsræfli, það er verið að ræða stjórnarskrá landsins, sjálfa undirstöðu þjóðríkisins. Það ættu allir að vita að til að niðurstaða stjórnlagaþings hafi eitthvert vægi þá verður að ríkja þokkaleg pólitísk sátt um tilurð þess. Ef ekki þá hafa niðurstöður þess enga vikt því þá er hún metin sem flokkspólitísk. Maður sér meir að segja að það er notað sem rök að í hæstarétti sitji bara menn, homo sapiens. Því þurfi ekki að taka mark á því sem frá þeim kemur frekar en menn vilja. Ruglið virðist vera án takmarka.
Hvað ætli yrði sagt ef það hefði verið gefið út að þrátt fyrir að kosningar til sveitarstjórnar eða kosningar í sameiningarkosningum sveitarfélaga hefðu dæmdar ólöglegar væru niðurstöðurnar engu að síður látnar standa. Ég er hræddur um að það hefði hvinið í einhverjum skjá og það með fullum rétti.

Umræðan um VIP samkvæmið margumrædda er dálítið fyndin. Það er fínt ef einhverjar stelpur geta látið gestina borga hærra verð fyrir vínið en þeir borga venjulega fyrir það með því að telja þeim trú um að þeir séu merkilegri en annað fólk. Það er í sjálfu sér hið besta mál því þá eru væntanlega báðir aðilar ánægðir með viðskiptin. Það sýnir hins vegar kannski meir en annað hvað lítið þarf til að komast í fréttir út um allt og meir að segja í Kastljós sjónvarpsins að það hafi varla verið rætt um meir um annað mál en þetta í fjölmiðlum alla vikuna.

Annað álíka dæmi er umræðan um Excel skjalið sem fór óvart í umferð út hjá Víkingum. Það er lélegur þjálfari sem ekki punktar niður hjá sér styrkleika og veikleika hvers leikmanns. Það er allavega mín skoðun. Þegar svona skjal fer síðan óvart í umferð þá er það mál málanna hjá fjölmiðlum í fleiri daga og náði umræðan um það að fylla ófáa dálksentimetra og útsendingarmínútur. Ótrúlegt.

Um daginn fengu 67 rithöfundar ritlaun. Samtals fengu þeir ritlaun sem svarar fullu starfi í 42 ár. Það er bara ágætt. Í fréttinni kom reyndar ekki fram hve miklum peningum var úthlutað. (Viðbót. Launin miðast við lektorslaun hjá HÍ. Ég veit ekki alveg hvað þau eru há en en það er hægt að leiða að því líkur að heildarfjárhæðin sé ekki langt frá 130-150 milljónum.) Þrír rithöfundar fengu tveggja ára laun hver, 11 fengu árslaun og aðrir 11 laun í níu mánuði. Svo komu margir fleiri þar á eftir með verulegan en minni stuðning. Rithöfundasambandið úthlutar ritlaununum eða samtök þeirra sem fá ritlaunin. Ég saknaði Gilzenegger á listanum. Hann hefur ekki skrifað ómerkari bækur en margir þeirra sem fá opinbert fé til að fjármagna skriftir sínar.

Um daginn úthlutaði ÍSI styrkjum til afreksfólks í íþróttum. Alls var úthlutað 55 milljónum króna, 45 milljónum úr afrekssjóði ÍSÍ og 10 milljónum úr sjóði framúrskarandi efnilegra íþróttamanna. Þessir styrkir ganga bæði til sérsambandanna til að styðja við ákveðin verkefni á þeirra vegum og síðan til nokkurra einstaklinga. Þessir fjármunir ganga til þeirra íþróttagreina þar sem enginn möguleiki er að sjá fyrir sér að meiru eða minna leyti við að iðka íþróttina eins og er algengt í knattspyrnu, handbolta og fótbolta. Einungis 15 afreksíþróttmenn fá svokallaða afreksstyrki. Eins og í fyrra fær einungis einn íþróttamaður A-styrk. Styrkurinn er um 160 þúsund krónur á mánuði sem er mjög nálægt atvinnuleysisbótum. Hægt er að leiða líkur að því að þetta sé um helmingi lægri mánaðarlaun en rithöfundar fá. Tíu eru á B-styrk sem er þá nálægt því að vera 1/2 A styrkur og fjórir á C-styrk sem nær varla 10 þúsund kr. á mánuði. Framlög í A og B styrk eru samtals rúmar 5 m.kr.

Framlag ríkisins til Afrekssjóðs ÍSÍ var um 25 m.kr. á fjárlögum fyrir árið 2011. Í allnokkur ár þar á undan hafði styrkurinn verið óbreyttur eða 30 m.kr. á ári. Stuðningur ríkisins við afreksfólk í íþróttum hefur því lækkað stórlega á liðnum árum og þurfti enga kreppu eða efnahagshrun til þess. Það er alltaf gott að setja hluti í samhengi. Ætli kostnaður ríkis og borgar við Hörpuna, musterið við höfnina, verði ekki nálægt 800 milljónum á ári næstu 30 árin. Þetta er einungis bundið við bygginguna sjálfa. Þar fyrir utan er daglegur rekstur í húsinu. Þessir fjármunir verða ekki notaðir í annað.

Mér fannst merkilegt að heyra gömlu skólaljóðunum úthúðað í Kiljunni í vikunni. Þeim var t.d. hallmælt þar fyrir að óhefðbundin ljóð hefðu ekki verið í þeim, það hefði hallað á kvenkynið en næstum verst var að kápa bókarinnar var blá. Það var nú eins gott að það var ekki verið að fylla þessa annars ágætu bók af óhefðbundnum ljóðum. Það er náttúrulega bara eins og hvert annað rugl að ætla sér að kenna litlum barnaskólakrökkum slíkan samsetning. Á þessum árum voru ljóð lærð utanbókar. Því miður hefur það dottið upp fyrir eins og að hugarreikningur og þríliðan heyra sögunni til. Ljóð sem fela í sér eftirminnilegar myndlíkingar og hafa góðan hrynjanda eru auðlærð og festast í minninu. Af slíkum ljóðum var nóg í skólaljóðunum og ekki skemmdu myndir Halldórs Péturssonar fyrir. Þess vegna þykir venjulegu fólki vænt um gömlu skólaljóðin. Látum þá sem hafa gaman af hinum óhefbundnu ljóðum um að fara með þau hver fyrir annan. Það truflar mig ekki.

Engin ummæli: