fimmtudagur, apríl 07, 2011

Icesafe málið er mál málanna þessa dagana. Það er bara fínt að fólk ræði það sem máli skiptir og geri tilraun til að setja sig inn í flókin og erfið mál. Það má sí sjálfu sér þakka forsetanum fyrir að hafa vísað þessu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu því það hefur kallað á upplýsta umræðu. Eftir þvís em maður sér best þá er ekkert eingilt svar við því hvort eigi að samþykkja Icesave samninginn eða ekki. Hvor sem niðurstaðan verður þá kemur aldrei í ljós hver hefðu orðið áhrif hinnar niðurstöðunnar, hvort sem hún verður góð eða slæm. Það er eitt sem mér finnst allra verst í þessu máli. Það er "Úlfur úlfur" effektinn. Það var sagt við Icesave I að allt færi fjandans til ef sá armi samningur væri ekki samþykktur. Nú vill enginn kannast við hann og í annan stað þá eru því sem næst allir sammála því að ef hann hefði verið samþykktur þá ætti landið sér ekki efnahagslegrar viðreisnar von. Svo kom Icesave II. Þá byrjaði sami söngurinn aftur. Ég hlustaði nýlega á umræður í þinginu sem fóru fram undir árslok 2009 og það vantaði nú ekki að þetta var bæði sá besti samningur sem mögulegt var að ná og allt átti að fara fjandans til ef hann yrði ekki samþykktur, "þó fyrr hefði verið" eins og einn sagði. Lögunum var vísað í þjóðaratkvæði sem hafnaði þeim með fáheyrðum meirihluta og ágætri kosningaþátttöku. Þá var enn farið og samið enn betur sem átti þó að ómögulegt. Það dylst engum að Icesave III er bestur allra þeirra samninga sem lagðir hafa verið fram um þetta mál. Þá hefst sama röksemdafærslan um hvað gerist ef hann verði ekki samþykktur. Það má vel vera að hvert einasta orð já manna sé satt og rétt. Hvað veit ég? Ef svo er þá hlýtur það að vera gríðarlegt áhyggjuefni fyrir stjórnvöld ef kosningin færi svo að meirihluti þjóðarinnar treysti því ekki sem frá þeim kemur. Verra getur það varla orðið því hér er ekkert smá mál á ferðinni. Það er náttúrulega svo að ef maður er oft búinn að hrópa Úlfur úlfur og aldrei kemur skrattans úlfurinn þá hætta allir að hlusta enda þótt að hann birtist um síðir og ekki fríður í framan. Það verður nú að segjast eins og er að áróðurstækni þeirra sem hafa barist fyrir samþykkt samningsins hefur ekki verið sérstaklega skörp. Hverjum í ósköpunum datt í hug að draga fram tuttugu ex ráðherra og þar trónir fremstur fyrrverandi formaður Fjármálaeftirlitsins sem lagði Icesave áróðrinum lið í Hollandi. Sú tíð er löngu liðin að fyrrverandi ráðherrar séu einhver átorítet sem lýðurinn fylgir í blindni. Þetta hélt ég að allir vissu sem fylgjast eitthvað með. Ég skráði í vikunni mig formlega í 24 tíma hlaup sem fer fram í Belfast seint í júlí. Ég hef aldrei komið til Írlands og hvað þá til Norður Írlands. Þetta verður spennandi. Líklega reynir maður að sjá sig eitthvað um þarna því það er nú partur af þessu dæmi. Það er ekki verið í Norður Írlandi á hverjum degi. Tíminn er fínn. Ég er kominn á ágætis ról svo nú liggur leiðin bara upp á við fram á sumarið. Við fengum Sindra Skúlason áhugamann um fuglaljósmyndun á Fókusfund í vikunni. Hann hélt allt að tveggja tíma fyrirlestur bæði um tæknilega hluti og síðan renndi hann yfir nokkrar frábærar fuglaljósmyndir. Sindri er einn af þeim fremstu hérlendis. Fuglaljósmyndum krefst mikillar yfirlegu, gríðarlegs áhuga, góðra tækja og mikillar þolinmæði. En ef vel tekst til er eftirtekjan óskaplega mögnuð.

Engin ummæli: