þriðjudagur, ágúst 30, 2011

Þegar ég fer erlendis þá gríp ég oft með mér bók / bækur til að lesa í flugvélinni eða á kvöldin uppi á herbergi áður en maður fer að sofa. Það er fínt því þá nær maður að koast yfir bækur sem annar sliggja uppi í hillu ólesnar. Ég tók með mér út um daginn bókina "Maó´s Great Famine" eftir Frank Dikötter. Hún fjallar um þann ægilega tíma í stjórnartíma Maós þegar átti að framkvæma Stóra stökkið (The Great Leap Forward). Stóra stökkið snerist um það að Maó vildi sýna Sovétríkjunum og náttúrulega öllum heiminum hvert væri öflugasta kommúnistaríkið. Kína átti að fara fram úr Bretlandi sem stálframleiðsluríki á nokkrum árum og einnig átti að auka útflutning matvæla landbúnaðarafurða gríðarlega. Áætlunin "Stóra stökkið" stóð yfir á árunum 1958-1962. Á þeim árum er talið að um 45 milljónir Kínverja hafi látist beint og óbeint vegna áætlunarinnar. Þeir dóu af vinnuþrælkun, sjúkdómum vegna hungurs og þrældóms, gríðarlegur fjöldi var drepinn og að lokum dóu milljónir úr beinni hungursneyð. Heilum héröðum var lokað með hervaldi svo ekki myndu berast fréttir út af ástandinu. Á þessum tíma rak hver ruglákvörðunin yfir Kína á fætur annari sem átti rætur að rekja til meistarans sjálf. Eitt var að Maó vildi sýna Krústjoff hverjir væru færari í myndun samyrkjubúa, Kínverskir kommúnistar eða sovéskir. Í Sovétríkjunum hafði fólkið fengið að halda heimilum sínum en það var nú eitthvað annað í Kína. Í gríðarlega umfangsmiklum mæli var allt sem féll undir einkalíf lagt niður og allt fært yfir í samyrkjuna. Fólk mátti ekki einu sinni eiga hnífapör. Allir áttu að matast í matsal samyrkjubúsins. Allir áttu að fara að bræða járn í bakgarðabræðsluofnum. Allt járn sem fannst var sett í bræðsluna. Það átti að vera grunnur að mikilli aukninu á útflutningi járns. Útkoman var náttúrulega hörmuleg því gæðin voru svo léleg. Landbúnaðarframleiðsluna skyldi auka með gríðarlegum hraða til að geta margfaldað útflutning matvæla. Allt sem hönd á festi var mulið niður í áburð. Meir að segja peningshúsin voru tætt niður og sallanum dreift á akrana. Því meira magn af fræjum og áburði sem dreift var á akrana því meiri uppskera átti að skila sér. Það gekk náttúrulega ekki eftir. Þegar héröðin náðu ekki tilskilinni framleiðslu þá var farið að falsa framleiðslutölur. Ríkið tók engu að síður áætlað magn til útflutnings og þá var lítið eða ekkert eftir. Niðurstaðan var matvælaskortur og hungursneyð. Eitt sinn datt Maó í hug að láta drepa alla spörva því það lék grunur á að þeir ætu korn af ökrunum. Aðferðin var sú að það átti að halda þeim á flugi þar til þeir yrðu örmagna og dyttu niður. Þá voru þeir drepnir. Um langt skeið voru því allir landsmenn uppteknir út og suður við að fæla upp spörva. Seint um síðir áttuðu forystumenn kommúnistaflokksins sig á því að spörvarnir lifðu á skordýrum sem herjuðu á kornakrana. Þegar skordýrin fengu að vera í friði þá stórjókst skaðinn sem þau ullu. Þá loks létti spörvaofsóknum í Kínalandinu. Svona var allt hjá Maó á þessum tíma. Ýmsir jarðbundnir menn Liosaqui, Zhou Enlai og Peng Duhai áttuðu sig á ruglinu og reyndu að leiða forystunni fyrir sjónir hvaða ógöngur þeir voru að leiða þjóðina í. Þeir máttu þakka fyrir að halda lífinu. Þessi ósköp stóðu yfir í fjögur ár.

Mér finnst nauðsynlegt að lesa þessa sögu þegar mögulegt er, bæði til að skyggnast bak við tjöldin á þeirri dýrðargloríu sem búið var að byggja upp um Maó og er að nokkru leyti enn. Hann er náttúrulega einn stórvirkasti morðvargur sögunnar og má þakka fyrir að hann gerði ekki meir í þeim efnum. Á þingi kommúnistaflokka í Moskvu ræddi hann í fullri alvöru um að gera kjarnorkuárás á vesturveldin. Ef þriðjungur mannkyns myndi farast þá voru þó tveir þriðju eftir. Það væri mjög ásættanlegt að mati Maós því þessir tveir þriðju væru fljótir að fylla upp skörðin eftir þá sem hefðu drepist. Ég mæli með þessari bók við alla þá sem hafa áhuga á þessari sögu og þessum tíma. Til þess eru vítin að varast þau.

Talandi um kínverja, þá er það mitt mat að það sé óhreint mjöl í pokahorninu við kaup kínverjans á Grímsstöðum á Fjöllum. Það er þekkt af öllum sem vilja vita að kínverjar eru að kaupa upp náttúruauðlindir út um allan hinn vanþróaða heim. Túristahótel og golfvöllur sem kostar tugi milljarða er skrítin fjárfesting. Asni klyfjaður gulli kemst hinsvegar inn um hvaða borgarhlið sem er. Hér er annað hvort spurning um að tryggja sér aðgengi að náttúruauðlindum s.s. vatni til framtíðar eða aðstöðu vegna norðursiglingaleiðarinnar. Margir segja: Hvað má kínverjinn ekki kaupa eina jörð? Hvað ef kínverjinn vil kaupa 10 jarðir, 100 eða 1000? Það verður að hugsa svona mál í principum en ekki út frá sjónarmiðum sem ná bara til næstu magafylli. Danir eru búnir að stoppa kaup Þjóðverja á sumarbústöðum og sumarbústaðalöndum.

Ég heyrði af kínverskri fjárfestingu (hóteli) í norður Finnlandi. Þar voru allir voða glaðir yfir að fá erlenda fjárfestingu. Svo kom í ljós að hótelið sem hafði spilavíti innbyrðis var reyndar umferðarmiðstöð fyrir mannsal frá Rússlandi. Þá fór að fara um Finnana. Sá sem þekkti Finnann sem sagði honum þessa sögu sagði að þetta væri allt annað hérna, kínverjinn þekkti persónulega einn ágætis íslending og því væri honum alveg treystandi. Þá komu smá vöflur á Finnann því það var nefnilega einnig svoleiðis í Finnlandi. Mér finnst það alla vega vera ómaksins vert hjá fjölmiðlum að kanna aðeins bakgrunn hans í stað þess að láta mata sig athugasemdalaust af manni sem er einn af forstöðumönnum lakkrísverksmiðjunnar í Kína hér í denn tíð. Hvernig varð hann svona voðalega ríkur? Fann hann peninga á götunni?

Ég fór nýlega í bíó niður í Kringlu og sá myndina um RAX. Það er mjög skemmtileg blanda ljósmynda, viðtala og heimildamyndar. Sem betur fer hefur kvikmyndafyrirtækið Saga fylgt RAX eftir hér og þar þegar hann er á ljósmyndaleiðöngrum sínum.

Það var myndarlegur hópur sem tók þátt í Mont Blanc hlaupinu UTMB og TCC (ég man ekki hvað þau heita öll) í síðustu viku. Á annan tug íslendinga lagði til atlögu við þessi hlaup sem eru ekkert smáræði. Vitaskuld gekk fólki upp og niður en það eitt að sá hópur sem fer í svona verkefni skuli vera orðinn svona stór er náttúrulega frábært.

Ég er að verða góður í lærinu. Ég hef lagt áherslu á að ná mér góðum áður en ég fer að puða aftur.
Dísa í WORLD CLASS hefur verið svo vinsamlege að hleypa mér inn til að æfa eftir þörfum svo nú fer þett allt að snúast.

Engin ummæli: