laugardagur, ágúst 06, 2011

Það hefur farið heldur lítið fyrir skrifum síðustu dagana. Það er bara eins og gengur. Við renndum austur á Egilstaði um síðustu helgi á Unglingalandsmót UMFÍ. Það er líklega sjöunda unglingalandsmótið sem við höfum farið á en þetta er það síðasta sem virkir þátttakendur því María var í elsta flokki og er nú vaxin upp úr þeim. Við höfum farið á Vík, Laugar, Hornafjörð, Þorlákshöfn. Sauðárkrók, Borgarnes og nú Egilsstaði. Þetta eru ljómandi fínar samkomur, karkkarnir etja kappi hvert við annað í íþróttum og fullorðna fólkið hittist og tekur sólarhæðina. Við gistum hjá vinafólki okkar frá Rauðarhöfn sem býr niður á Reyðarfirði. Það var eins gott og gaman og hugsast gat. Gaman var að gefa sér tíma til að rifja upp gamlar og góðar minningar frá þeim ágætu tíma þegar við bjuggum í nyrsta þorpi landsins. Hitinn á föstudaginn var eiginlega of mikill en svo varð hann aðeins meira normal. Á sunnudaginn ókum við svo sem leið lá norður á Sléttu. Við tókum hús á Ella og Ágústu á hótel Norðurljós á Raufarhöfn og borðuðum þar kvöldmat. Alltaf er gaman að koma á Raufarhöfn því þaðan á maður margar góðar minningar. Því miður hefur íbúum staðarins fækkað mikið og margir af okkar vinafólki sem þar bjó flutt burtu. Ég þarf að gefa mér tíma til að vera þarna í einhverja daga að vorlagi og taka myndir. Af nógu er að taka í því efni á þessum slóðum. Svo er bara að vona að það renni yfir landið hæg suðvestanátt því þá er fallegt á Sléttu. Við gistum í Svalbarðsskóla í Þistilfirði og fórum síðan sem leið lá heim á mánudaginn.

Ég sá á norska hlaupavefnum að þeir hafa tekið saman besta árangur norðurlandabúa í 100 km hlaupi og 24 tíma hlaupi það sem af er árinu. Okkar fólk markerar sig sterkt inn á þessa lista. Sigurjón er í 8. sæti, Gunnar Ármannsson í 23. sæti og Jói Gylfa í 28 sæti í 100 km hlaupi. Sæbjörg er í 5. sæti og Elín Reed í 6. sæti hjá konum. Miðað við árangurinn sem ég náði í 24 tíma hlaupinu í Belfast þá er ég í 18. sæti á norðurlöndum það sem af er árinu en það á örugglega eftir að breytast. Á hinn bóginn hefur einungis einn maður í heiminum sem er jafngamall mér eða eldri náð betri árangri í 24 tíma hlaupi í ár. Þó var árangurinn ekkert sérstakur.

Eftir svona löng hlaup þá hvíli ég yfirleitt í 1/2 mánuð til að vera viss um að ná öllum draugum úr fótunum. Ég fór Eiðistorgshringinn í morgun með Jóa og Gauta. Ég var frekar þungur og eins er ég með einhverja tognun aftan í hægra lærinu. Ef ég næ henni ekki úr mér með teygjum þá þarf ég að hitta Örn í Sporthúsinu og fara í nálastungukúr hjá honum.

Ég næ því miður ekki að vera með í Reykjavíkurmaraþoninu í ár. Ég verð í vinnuferð í Finnlandi dagana á undan og hópurinn fer yfir til St. Pétursborgar þessa helgi. Maður missir ekki af slíku.

Engin ummæli: