fimmtudagur, desember 15, 2011

Norðurlandametið sem ég setti í 24 tíma hlaupi á bretti fyrir rétt rúmu ári síðan féll um síðustu helgi. Ég átti metið því í rétt um eitt ár. Finninn Perti Perttilä hljóp á bretti í Helsingfors og bætti heldur um og hljóp 238,46 km. Það var mikið um að vera meðan á þessu stóð, bein útsending frá hlaupinu allan tímann og fleira í þeim dúr. Þetta er virkilega flott hjá Finnanum. Þessi árangur er með því besta sem hefur náðst í heiminum í brettishlaupi og einn besti árangurinn sem hefur náðst í 24 tíma hlaupi á Norðurlöndum í ár. . Það hlaut að gerast að það kæmi einhver norðurlandabúi og bætti um betur, annað gat ekki gerst. Það er hins vegar gaman að hafa náð þessum árangri í fyrra og að hafa náð að halda metinu í eitt ár. Sænskur langhlaupari sem ætlaði að taka metið í nóvember á sl. ári þurfti að kasta inn dúknum eftir 180 km. Sinadráttur og krampar voru þá búnir að ná yfirhöndinni. Þannig getur allt gerst í þessum efnum. Perti er töluvert yngri en ég eða 45 ára gamall. Hann er allt að því unglingur í þessu sambandi. Það hefði verið gaman að vera kominn á þetta ról fyrir 15 árum síðan. Það er engu að síður fínt að hafa það á sívíinu að hafa sett Norðurlandamet og haldið því um dálítinn tíma. Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir að gera atlögu að þessu nýja meti. Það verða aðrir og meiri menn en ég að gera.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flott hjá Finnanum og til hamingju með þetta, metin eru til þess að slá þau!
kv
Bjössi Margeirs