fimmtudagur, desember 29, 2005

Dagurinn í gær var ekki einn af þeim sem skilur eftir sig stór spor. Hann leið hjá án stórra viðburða. Hitti gamlan félaga frá Raufarhöfn fyrir hádegi. Sátum góða stund og ræddum ýmsa hluti, bæði hvað varðar fortíð og framtíð. Hann hefur staðið sig vel og gert góða hluti á ýmsan hátt. Talandi um norðausturslóðir þá heyrði ég viðtal við Jón lögreglu á Þórshöfn í kvöldfréttum útvarpsins í gærkvöldi. Hann hafði áhyggjur yfir vaxandi fíkniefnanotkun krakkanna í þorpunum á norðausturhorninu. Það er alveg á hreinu að staða mála er ekki betri í þessum litlu samfélögum hvað þetta varðar en í hinm stærri. Kunningjahópurinn er afar þröngur á þessum stöðum og það þarf sterk bein til að standast félagaþrýstinginn. Einn skúrkur getur gert stóran skaða í þessum samfélögum. Verst var þó að heyra að lögreglan skyldi ekki síður eiga í vandræðum með foreldrana þegar hún væri að vinna í svona málum.

Horfðum á leikina á Skjánum í gærkvöldi. Ýmsir fóru illa. Chelsea vann City með heppnismarki en Man. Utd. náði aðeins jafntefli við Birmingham. Birmingham af öllum liðum. Ohh. Heiðar Helguon átti góðan leik með Fulham og er að gera sig gildandi sem framherji liðsins. Ískaldur rúllaði hann boltanum í mark eftir að hafa náð markverðinum til hliðar í vítinu. Glæsilegt hjá honum.

Las góða sögu nýlega. Faðir Julio Iglesias stórsöngvara dó nýlega, níræður að aldri. Hann lét meðal annars eftir sig 2ja ára gamlan son. Þeir feðgar hafa verið nokkuð upp á kvenhöndina gegnum árin og sonurinn þó öllu stórtækari. Gott ef hann er ekki í heimsmetabók Guinnes fyrir afrek í bólförum. Þriðji ættleggurinn, Iglesias jr. er einnig að koma til á þessum vettvangi og þykir efnilegur. Hann reyndi nýlega fyrir sér með viðskiptahugmynd sem gerði þá eldri Iglesiasa æfa af bræði. Viðskiptahugmynd þess yngsta var að framleiða smokka í stærðinni X Small.

Ég hef horft á nokkrar finnskar myndir að undanförnu.Við höfum verið að skiptast á þeim í vinnunni. Ég keypti mér Rokkað i Vittulla í Helsingfors í haust. Þetta er ein besta mynd sem ég hef sé, tragikomisk stútfull af svörum húmor. Minnir töluvert á Djöflaeyjuna. Hún er gerð eftir samnefndri bók sem gerist í þorpinu Pajala í Norrbotten á sjöunda áratugnum þegar Bítlarnir eru að koma fram. Í Pajala veltur á ýmsu sem félagsráðgjafar nútímans myndu varla líða en kunnugir segja að svona hafi þetta bara verið og ég trúi því vel.

Svo horfði ég á myndina Paha Maha eða Kalda landið eins og hún heitir á íslensku. Myndin byrjar á því að menntaskólakennara er sagt upp störfum og hún fjallar síðan um afleiðingar þess á ákvrðnu tímabili. Þær eru vægast sagt hrikalegar eins og við er að búast hjá Finnum, þrjú morð eru framin og einhverjir fleiri láta lífið í tengslum við þetta o.s.frv. o.s.frv. Mjög vel gerð mynd og heldur manni alveg föstum.
Síðast horfði ég á fjögurra mynda samstæðu eftir Auri Kaurismaki. Hann gerði meðal ananrs myndina Týndi maðurinn sem var sýnd í sjónvarpinu fyrir skömmu. Þessar eru allar sérstakar hver á sinn hátt og allar svarthvítar. I hired a contract killer, Juha, Bóhemarnir og Hamlet goes business. Myndin I hired a contract killer fjallar t.d. um að þunglyndur maður sem sér ekkert framundan en hefur sig ekki í að fremja sjálfsmorð ræður leigumorðingja til að ljúka verkinu. Síðan snýst honum hugur og reynir að rifta samningnum en leigumorðinginn er ekki maður sem gengur á bak orða sinna og hættir við hálfnað verk heldur vill standa við gerðan samning. Svolítið stressandi staða fyrir verkkaupann. Það er afar upplífgandi að sjá myndir úr öðrum kvikmyndaskóla en þessum ameríska. Danskar kvikmyndir eru einnig afar góðar. Þeir hafa mjög sterka kvikmyndahefð sem bregst ekki.

Engin ummæli: