miðvikudagur, desember 21, 2005

Nú eru jólakortin farin að koma í hús hér í vinnunni. Sumir vinnustaðir senda reyndar jólakveðju á netinu og láta þá peninga sem ella hefðu farið í korta- og frímerkjakaup renna til góðgerðarmála og allt gott um það. Reyndar er voða notalegt að fá jólakort sem er handskrifað. Það er svolítið öðruvísi með fjölrituðu kortin, hvað þá þau sem eru útprentuð af póstinum eins og ég heyrði sagt frá í morgnútvarpinu sem valkosti í jólakortaundirbúningnum.

Í hádeginu las ég á nokkur kort sem voru komin í hús og rakst þá á þessa vísu í einu:

Jólasveinar ganga um gátt
með gildan staf í hendi.
Móðir þerra hrín við hátt
og hýðir þá með vendi

Upp á hól
stend ég og kanna
níu nóttum fyrir jól
kem ég til manna.

Þessi kveðskapur var merktur "Þjóðvísa".

Þarna fannst mér eitthvað öðruvísi en ég kannaðist við. Í minni barnæsku var vísan sungin sem svo:

Jólasveinar ganga um gólf
með gylltan staf í hendi
Móðir þeirra sópar gólf
og flengir þá með vendi.

Upp á stól
stendur mín kanna
Níu nóttum fyrr jól
þá kem ég til manna.

Endurskoðunarsinnarnir hafa greinilega komist í textabókina og tekið til starfa. Nú á allt að vera rökrétt og í samhengi við staðreyndir. Auðvitað er þessi texti eins og maður kannaðist við hann einhver bulltexti en hvað með það. Að breyta gömlum söngtextum og fara í þrætubókarlist um hvað er rétt og hvað er rangt í þeim efnum er svona svipað að fara í rökræður um hvort jólasveinninn sé til eða ekki til, hvort þeir séu einn, níu (einn og átta) eða þrettán eða kannski bara bara eitthvað allt annað.

Þarf þá ekki að endurskoða vísuna um hann Adam sem átti syni sjö? Í henni stendur á einum stað: "hann sáði, hann sáði, hann klappaði saman lófunum" o.s.frv. Seinni tíma rannsóknir hafa leitt það í ljós að þetta með sáninguna er þýðingarvilla en í danska frumtextanum stendur: "som så, som så" eða "sem sá, sem sá". Adam "sá" sem sagt eitthvað í danska textanum en "sáði" ekki neinu eins og segir í þeim íslenska.

Er eitthvað rökrétt að syngja: "Göngum við í kringum einiberjarunn" þegar gengið er í kringum 3ja metra háan Norrmansþin eða grenitré? Einiberjalyng er jarðlæg planta hérlendis en ekki runni. Hún rís ekki upp heldur er hún eins og krækiberjalyng. Marflöt. Það má vera að hún sé háreistari erlendis þar sem gróska er meiri. Það dytti engum manni í hug að nota slíka plöntu til að ganga í kringum.

Í gær heyrði ég færð gild rök fyrir því í útvarpinu að frelsarinn hefði fæðst í október en ekki í desember. Hmmm.

Jólin eru hefðir, menning, siðir, lykt, ljós, stemming og samvera. Að endurskoða gömlu jólavísurnar og breyta þeim út frá einhverri rökhyggju og þrætubókarlist er villuljós af sama meiði og viðbrögð prestsins í Borgarfirði sem sagði börnunum að jólasveinninn væri ekki til.

Engin ummæli: