laugardagur, desember 10, 2005

Tók góðan hring í dag í góðu veðri. Lauk við kennslu í Endurmenntun HÍ þar sem áhugasamt skólafólk situr í stjórnunarnámi. Það er gaman að komast í samband við áhugasamt fólk sem er gefandi af reynslu sinni úr ýmsum áttum.

Ég heyrði eitt skemmtilegt frá Vestmanneyjum ásamt mörgu öðru í spjalli við nemendur. Ég skrifaði litla grein í Moggann í haust í framhaldi af ferð til Finnlands þar sem ég fræddist meðal annars um fyrirkomulag frímínútna í finnskum grunnskóla. Það vakti athygli mína hvernig Finnar skipuleggja frímínútur meðal annars af því að í skólanum þar sem María Rún gengur í er kennslustundir ætíð upp á 80 mínútur. Hún hefur eitt hlé frá 8.20 á morgnana fram til kl. 12.00. Kennarinn frá Vestmannaeyjum sagði mér að þeir hefðu gert tilraun sl. haust með að breyta fyrirkomulagi á skipulagi skólans. Áður hafði verið hefðbundið 80 mín. fyrirkomulag og öllum krökkunum hleypt út á sama tíma. Allt var í vandræðum þegar fór að líða að lokum tímanna og eftirtektin farin út í veður og vind og síðan þurfti sístækkandi her gæslumanna á leikvellinum til að fylgjast með fleiri hundruð krökkum og koma í veg fyrir alls kyns vandræði. Í haust voru kennslustundir styttar og eru nú ekki lengri en 60 mín. Nemendur fá fleiri útivistarhlé. Skólinn er skipulagður þannig að það eru aldrei allir nemendur skólans úti á leikvellinum í einu. Matarhléið var stytt þannig að nú er það einungis fyrir matarhlé en ekki með samhangandi frítíma. Kennarinn sagði að ástandið væri gjörbreytt. Mun rólegra er í tímum þar sem nemendur er hleypt út áður en þeir verða viðþolslausir. Nú veit enginn neitt af neinu á leikvellinum þar sem það er aldrei svo mikill fjöldi úti í einu að það geti valdið vandræðum. Órói á göngum skólans er ekki svipur hjá sjón. Skólastarfið gjörbreyttist til betra þegar var farið að skipuleggja skólastarf og frímínútur sem eina heild og tryggja að nemendur séu ekki parrakaðir lengur inni í kennslustundum en verjanlegt er og þol þeirra leyfir. Ég skaut því óspart að kennurunum og skólastjórunum þegar ég var að kenna þeim og þeu voru farin að tala um pásu áður en klukkutími var liðinn að dóttir mín þyrfti að vera í 80 klst löngum kennslustundum. Þau voru sammála mér um að þetta væri ekki í lagi.

Heyrði í fréttum í gær að norsk stjórnvöld hefðu ákveðið að hvort kynið um sig yrði að vera a.m.k. 40% í stjórnum hlutafélaga í landinu. Það er varla að maður trúi þessum fasisma. Hvað í ósköpunum kemur stjórnvöldum það við hvernig hluthafar fyrirtækja á almennum markaði skipa í stjórnir fyrirtækjanna? Ef að það er svona góður business að hafa þessa blöndun kynjanna í hlutafélögum þá leiðir það að sjálfu sér að hluthafar skynja manna best að þangað er að sækja enn meiri hagnað og bætta stöðu hlutafélagsins "eller hur"? Svona forsjárhyggja er best geymd á grafskrift frá einhverju kommúnistaríkinu þar sem viðhorf stjórnenda ríkisins var að þeir einir vissu hvernig hlutirnir ættu að vera. Ég spá því að það verði ekki langt þangað til umræða um þessa aðferðafræði verði tekin upp hér og fjasað um að þetta sé eina leiðin til að koma konum í stjórnir fyrirtækja og þarna sé ónýttur auður. Ég hef engar ástæður til að ætla að konur séu lakari til stjórnarsetu í fyrirtækjum en karlar en því er alltaf talað um nauðsyn á einhverju skollans kvótakerfi en talið ómögulegt að láta einstaklingana einfaldlega sanna sig og getu sína.

Engin kona fékk Nóbelsprísinn í ár. Ætli verði ekki sett kynjakvótakerfi á þá útdeilingu innan tíðar?

Horfði svolítið á "Best of Silvía Nótt" í fyrrakvöld. Svo gat ég bara ekki meir. Ég veit ekki hvað ég á að segja. Þetta er nú einu sinni sjónvarpsmaður ársins. Er ég orðinn svo botnfrosinn að ég skilji ekki nýja strauma og viðhorf ungs fólks? Má vera. En þessi ósköp. Mér líður bara illa þegar ég horfi á svona kokteil af heimsku og rugli. Eða er kannski málið að það sé verið að kanna þanþol þjóðarinnar gagnvart því hve miklu rugli er hægt að hella yfir fólk úr sjónvarpinu þegar einhver segir að þetta sé flott? Eða er þetta bara sannur og ómengaður bjálfaháttur?

Íslensk stúlka var kosin ungfrú heimur í dag. Gratúlera. Hún er flott og á þetta vafalaust vel skilið.

Hef að undanförnu sett inn nokkrar myndir af yngri stráknum mínum á ýmsum aldursstigum þar sem músíkáhuginn kemur fram frá unga aldri. Þetta er fyrst og fremst gert til að minna þá sem glugga á þessa síðu á nauðsyn þess að taka nóg af myndum. Tími sem er liðinn kemur aldrei aftur en það er hægt að varðveita smá blik af fortíðinni á ljósmynd.

Engin ummæli: