mánudagur, maí 22, 2006

Fór vestur á firði á föstudaginn. Keyrði til Stykkishólms og tók Blldur yfir Breiðafjörðinn. Ný ferja er miklu stærri og þægilegri en sú gamla og er mikill munur að ferðast með henni. Heldur kalt var á leiðinni yfir fjörðinn og ekki sérstaklega gaman að standa úti. Í Flókalundi voru bæjarritarar og fjármálastjórar sveitarfélaga að safnast saman. Þegar fólk var búið að koma sér fyrir þá var haldið af stað og farið sem leið lá yfir í Arnarfjörð, í gegnum Bíldudal og út í Selárdal. Þar var stoppað nokkra stund og safn Samúels skoðað og svo var farið inn að Selárdal. Ég skrapp inn að Uppsölum og myndaði bæ gamla mannsins Gísla, en ég hafði ekki komið þangað fram eftir áður. Þegar komið var til baka í Flókalund beið dýrindis máltíð. Fundahöld voru fram að hádegi daginn eftir og var rætt um breytingar á Landsskrá fasteigna sem heldur utan um grunninn fyrir fasteignaskattinum. Upp úr hádegi var haldið út á Látrabjarg, komið við í Breiðuvík og síðan var rennt yfir á Rauðasand. Bjart var yfir og sólríkt enda þótt hitastigið væri ekki hátt. Það var þá bara spurning um klæðnað. Margir úr hópnum höfðu ekki komið á þennan landshluta áður og voru mjög ánægðir með túrinn. Undir kvöldið var haldið til Patreksfjarðar, ný íþróttamannvirki sveitarfélagsins skoðuð og að lokum haldið í kvöldverð í boði sveitarfélagsins. Daginn eftir fór svo hver til síns heima. Heldur kuldalegt var fyrir vestan í gær. Ég skrapp yfir á Sand og fór yfir nokkra hluti heima og skoðaði hvernig húsið kemur undan vetri. Þar var allt í fínu standi og bíður þess að framkvæmdum verði haldið áfram. Á leiðinni yfir fjallið til baka var allt orðið alhvítt. Það hefði manni einhvern tíma þótt kuldalegt á miðjum sauðburði.

Sé að góður árangur náðist hjá mörgum í Köben á helginni. Flott. Set myndir að vestan inn á myndasíðuna (Nýjar myndir)

1 ummæli:

kókó sagði...

HALLÓ - afhverju var ég ekki leiðsögukona? Halló (dl - í merkingunni hallærislegt).