þriðjudagur, maí 16, 2006

Hvíld í dag eftir góða helgi. Ég held að ökklinn hafi haft mjög gott af góðum hlaupum á laugardag og sunnudag því ég held að þetta sé allt eins og það á að vera. Gerði ekki sérstaklega mikið í dag. Keypti mér þó stækkara á linsuna sem ég fékk í vetur. Þetta er 1.4 stækkari sem bætir verulega við linsuna án þess að draga úr gæðum hennar. Fór í kvöld vestur á Nes til að skoða fuglalífið. Það var að falla út svo fjaran var ekki eins skemmtileg eins og þegar útfallið er.

Aðeins um mál dagsins. Maður lendir ekki í því að keyra fullur eða undir áhrifum áfengis. Það er meðvituð ákvörðun. Maður lendir hins vegar í árekstri eða lendir í því að vera tekinn af löggunni. Þegar maður sem hefur verið tekinn fyrir ölvum við akstur segist ekki hafa lent í þessu áður þá verður manni fyrst fyrir að hugsa hvort hann hafi keyrt drukkinn áður en ekki lent í því að vera tekinn. Nú er farið að klifa á því að menn axli ábyrgð. Ætli frasinn um að einn eða annar sé maður að meiri verði ekki dreginn fram í dagsljósið innan tíðar?

Manni sýnist hið svokallaða grín í Grikklandi vera að snúast upp í andhverfu sína. Þetta er orðið pínlegt. Ætli liðið sé orðið svo sjálfhvert að því finnist í raun og veru að það sé heimsfrægt og leikurinn sé þannig kominn á auto. Það er nefnilega stutt á milli gríns og kjánaháttar.

Blikarnir unnu Val í kvöld. Það er ekki margt sem fer eftir bókinni á þessum síðustu dögum.

Engin ummæli: