þriðjudagur, maí 01, 2007

Ég les oft norska síðu www.kondis/ultra.no. Fín síða sem hefur púlsinn á því sem er að gerast í ultraheiminum. Rak augun nýlega í að þeir hafa sett upp lista yfir bestu 24 tíma hlaupara og 6 tíma hlaupara á Norðurlöndum. Þeir komast á 24 tíma listann sem hafa hlaupið 200 km og lengra (karlar) og á 6 tíma listann komast þeir sem hafa hlaupið 60 km og lengra. Ég sendi Per, sem heldur utan um vefinn, upplýsingar um 6 tíma hlaupið okkar í september. Fékk svar áðan þar sem hann er mjög þakklátur yfir að heyra hvað er að gerast hjá okkur hér uppi. Við þrjú (Börkur, Elín og undirritaður) sem fórum yfir 60 km komumst á norræna listann. Vonandi fjölgar á honum í haust. Ég fer að senda Torfa ákveðna dagsetningu svo hann geti farið að hafa hlaupið inn á hlaup.is.

Ég hef ekkert hlaupið í dag eða í gær. Nú eru síðustu forvöð til að hvíla sig fyrir 24 tíma hlaupið á Borgundarhólmi á laugardaginn og sunnudaginn n.k. Veit ekki betur en allt sé í lagi. Las leiðbeiningar Löbarlarssons um 24 tíma hlaup. Þetta er ekki síður andleg raun en líkamleg.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnlaugur!

Nú truflar maður ekki andlegan undirbúning með íslenskri pólitík. Veit að þú rennir þessu upp af þínum alþekkta dugnaði og elju. Þú ert sannarlega rós í hnappagat okkar hlaupara, gangi þér allt í haginn um næstu helgi.

Kveðja Halli

Gunnlaugur Júlíusson sagði...

Takk fyrir góðar óskir Halli. Svona þér að segja þá er nú alltaf gaman að vita að það eru ekki allir sammála um alla hluti, það væru nú skárri ósköpin.

Nafnlaus sagði...

Gangi þér allt í haginn, Gunnlaugur, þú rúllar þessu upp. Við sendum þér hlýja, góða strauma.

Bryndís og Úlfar