miðvikudagur, maí 23, 2007

Mér finnst ekki skynsamleg stefna hjá stjórnmálaflokki að gefa það út fyrirfram hvert skuli vera hlutfall kynjanna í ríkisstjórn ef ákveðinn flokkur komist til valda í ríkisstjórn. Þá er formaðurinn bundinn af öðru en hæfileikum, þekkingu og þekkingu þingmanna. Við slíkar aðstæður er sá möguleiki fyrir hendi að það skapist slíkt andrúmsloft að litið sé svo á að einhver ráðgherrann sé valinn til ráðherraembættis á öðrum forsendum en eigin verðleikum. Það er ekki gott vegarnesti.

Það var einkennileg fréttin á Stöð 2 í gærkvöldi um að formaður Framsóknarflokksins hefði rætt það í innsta hring samflokksmanna að hann væri að velta fyrir sér hvort hann ætti að hætta sem formaður í kjölfar kosningaúrslitanna. Slíkar vangaveltur eru ekki óeðlilegar í ljósi stöðunnar, en ef menn geta ekki rætt slíka hluti eða aðra álíka í innsta hring trúnaðarmanna án þess að það sé komið í fjölmiðla, þá er eitthvað meir en lítið að.

Í kvöld var frétt á Stöð 2 um dýraplageri í dýragörðum í Kína. Þar var lifandi dýrum hent fyrir villidýr og síðan skemmtu gestir dýragarðsins sér við að horfa á villidýrin slíta þau sundur lifandi. Eftir að hafa lesið bókina um Maó þá finnst mér þetta í sjálfu sér ekki vera neitt óeðlileg skemmtiatriði miðað við söguna. Á dögum Maós voru álíka skemmtanir haldnar með gríðarlegum fjölda áhorfenda en þá voru það lifandi manneskjur sem voru fórnarlömbin. Tugum þúsunda var smalað saman á torg eða opin svæði og síðan voru meintir svikarar, njósnarar, bókareigendur eða bara einhverjir leiddir fram. Þar voru þeir pyntaðir, niðurlægðir og oftar en ekki drepnir fyrir framan fjöldann. Þannig fékk almenningur að sjá hvað beið hans ef hann hlýddi ekki yfirvöldum í einu og öllu án umhugsunar. Ef menn mættu ekki á slíkar samkomur voru það álitin svik við flokkinn og þá gátu viðkomandi búist við að vera á pallinum næst. Sama var ef menn öskruðu ekki eins og fjöldinn. Það var merki um sviksemi við flokkinn og við því var mjög einföld refsing. Með þessum aðferðum og öðrum álíka viðurstyggilegum tókst Maó að brjóta fjöldann undir sig þannig að hann hlýddi umhugsunarlaust.

Engin ummæli: