sunnudagur, júní 10, 2007

Fór í fyrsta sinn á Esjuna á árinu þótt skömm sé frá að segja. Það var fínt, var tæpan klukkutíma upp og niður. Hitti Höskuld sem var í sinni tuttugustu ferða eða eitthvað svo. Hann æfir stíft fyrir Mont Blanc í lok ágúst. Einnig hitti ég Elías pabba Sveins Elías. Hef ekki séð hann í nokkur ár en við hitumst oft hér áður þegar hann var að hlaupa með syninum. Nú er sá stutti sem var orðinn landsliðsmaður í frjálsum og stefnir hátt.

Fór 30 km hring á laugardagsmorgininn. Margir á ferðinni og víða stoppað og spjallað. Álver, staðan hjá KR í vesturbænum og langhlaup voru meðal þeirra umræðuefna sem tekin voru fyrir hér og þar. Fann þegar heim var komið að Esjan sat svolítið í lærunum, en það er bara gott. Þarf að stunda hana vel fram að Laugavegi.

Margrét Lára landsliðskona í knattspyrnu kom í Víkina í gær og spjallaði við stelpurnar í 4. fl. og nokkra foreldra. Margrét flutti gott erindi um markmiðssetningu, aga, hugarfar, gildi æfinga, mataræðis og svefns auk fjölmargra annarra atriða. Gat tekið undir hvert orð sem hún sagði og erindi hennar var sem endurómur af flestu þvi sem maður hefur verið að hugsa og vinna eftir. Það er víða þekkt vandamál að stelpur detta of fljótt út úr íþróttum. Hlutverk Margrétar Láru er að fara um landið, tala við stelpurnar, hvetja þær, byggja upp sjálfstraust hjá þeim og örfa til frekari dáða. Fyrst og fremst eiga þær að trúa á sjálfan sig.

<3 Svanhvít spilaði á útitónleikum vestur á Seltjarnarnesi í gærkvöldi. Enda þótt ekki hafi verið ákaflegt fjölmenni þá var veðrið mjög gott. Krakkarnir skemmtu sér vel og áhorfendur einnig. Vinningshljómsveitin úr Músíktilraunum spilaði á eftir þeim. Miðað við viðbrögð áheyrenda fór ekki á milli mála hvor hljómsveitin átti að vinna í vetur. Næst er það 17. júní kl. 20.00 á stóra sviðinu. Þetta er dálítið skemmtilegt, hópur krakka sem fer að jamma saman í vetur í bríarí er nú farinn að troða upp hingað og þangað. Plata í bígerð.

Er á leið til Stafanger á fjármálaráðstefnu norsku sveitarfélaganna. Hef aldrei komið til Stafanger áður.

Engin ummæli: