sunnudagur, september 30, 2007

Slagurinn við Spartathlon.
Ég náði að sofa nokkra klukkutíma á aðfaranótt föstudagsins áðir en hlaupið byrjaði. Það er góðs viti því það er verra að fara ósofinn inn í svona verkefni. Það var ræst kl. 4.00 og þá var morgunmatur. Það átti að koma bíll um kl. 5.00 að ná í dótið okkar en það kom enginn bíll svo við Neil löbbuðum yfir á næsta hótel með töskurnar. Þar var margmenni og umstang en alsendis óklárt hvað átti að gera við farangurinn. Fyrst var hann settur inn í rútu og svo var hann tekinn út úr rútunni og settur í hrúgu á gangstéttina og okkur sagt að við myndum hitta hann í Spörtu (hvað og gekk eftir).
Ég hafði fundið fyrir smá ójöfnu í hægri skónum dagana á undan og taldi tryggara að girða fyrir óþægindi og tók þvi af mér skó og sokk í rútunni og setti á mig second skinn plástur. Pólverji sem sat við hliðina á mér var hrifinn af Injinji sokkunum því hann sagðist alltaf hafa átt við nuddvandamál að stríða á tánum. Nú var hann með allt teipað fast til að minnka hættuna á blöðrum. Svo sagði hann. „I see that you have a blue nail“ „Já“ sagði ég. „I have no nails left“ sagði hann. Svona er þetta hjá mönnum sem leggja hart að sér. Við Neil sátum saman í rútunni og hann fór að segja mér ýmislegt af sér. Hann sagðist hafa verið reykingamaður og drinker þar til fyrir 7 árum síðan. Þá fór hann fyrsta maraþonið og þá var ekki til baka snúið. Hann hefur hlaupið maraþon á 2.46 og kærastan hans á undir 3 klst. Hún keppti í Berlín á helginni. Hann sagði mér m.a. af ultra challange keppni sem han tók þátt í í Lýbíu á síðasta ári. Þar var farið yfir ca 120 mílur og einungis gefnir upp GPS punktar. Ekkert landakort. Ef þú komst að fjalli þá þurftirðu að taka sjensinn á hvorumegin við fjallið átti að fara eða yfir það. Annarsstaðar þurft að fara yfir eyðimerkur og klifra upp sandskafla og ég veit ekki hvað. Sporðdrekar og snákar voru víða. Neil var annar á rúmri 41 klst, tæpum klukkutíma á eftir þeim fyrsta, en sá þriðju kom 10 klst þar á eftir í mark. Litlu munaði að stúlka yrði til þarna en hún fannst illa til reika fyrir tilviljun. Vatnið var skammtað, max fjórir lítrar í hvern áfanga.
Rúmlega 6.00 var komið að Akrópólis og fólk fór að gera sig klárt. Myndir voru teknar og þess háttar. Ég hélt sjó með Eiolf og Kjell Ove og konum þeirra. Einn svía hitti ég sem var að fara í sitt 8. hlaup en einungis náð til enda í eitt skipti. Það var mikill munur á stemmingunni þarna og í WS. Kaninn er líflegur og mikið að gerast, hæíað og hvíað en þarna var allt miklu hljóðlátara. Svo heyrðist smellur og hlaupið var byrjað. Það var ekki haglabyssa eins og þar vestra. Strollan hlykkjaðist niður af Akrópólis og út á götur Aþenu. Hlaupið var byrjað. 385 hlauparar lagðir af stað. Mesti fjöldi þáttakenda í sögu þess.
Það var strax ljóst að þetta yrði frekar erfiður dagur fyrir þá sem ekki voru vanir miklum hitum. Hitamælirinn í rútunni sýndi 26 oC á sjötta tímanum og þá var bara tunglið á lofti. Það var erfitt að hlaupa út úr Aþenu. Rakinn var mikill og loftmengun áberandi á miklum umferðargötum. Það tók á annan klukkutíma að komast út fyrir borgina og niður að strönd. Loftið fór þá heldur að batna en þá kom sólin á loft. Næstu 60-70 km voru hlaupnir eftir þjóðveginum sem lá í hlykkjum fyrir ofan ströndina og tær sjórinn fyrir neðan. Smám saman hætti maður að taka eftir landslaginu heldur einbeitti sér að verkefni dagsins og var ekki vanþörf á. Svo fór að draga til tíðinda.
Ég hafði sett orkuduft á tvo brúsa sem ég hafi með mér en skyldi nokkra skammta eftir í töskunum því ég gerði ráð fyrir að manni væri séð fyrir nauðþurftum á leiðinni. Alla vega var svo gefið upp á blöðunum sem við fengum. Á tveim fyrstu stöðvunum var bara vatn en svo átti að vera orka og meðlæti auk vatnsins. Þegar leið á hlaupið var svo boðið upp á meira matarkyns s.s. yogurt, kaffi og te og þess háttar. Þegar búið var að hlaupa hátt í 20 km var ég búinn af brúsunum og fór að svipast eftir orku drykkjum. Nei það var bara vatn og á einstaka stað kók. Síðan voru framreiddar kartöfðuflögur og örlitlar kexkökur sem voru varla fugl eða fiskur. Smá bananabitar voru hér og þar og / eða eplabitar. Maður var orðinn svolítið óþreyjufullur eftir næringunni því sólin fór hækkandi á lofti og sífellt varð erfiðara að hlaupa. Ég fór rólega og hélt mig nokkru fyrir neðan lágmörkin og svo var um marga aðra. Þar kom að maður fór að kvarta við fólkið um að manni hefði verið sagt að það væru orkudrykkir á stöðvunum og maður þyrfti orku. „Everything finished“ var svarið. Á einum staðnum fór kona inn í bíl og sótti flösku. „One left“. Ætli hún hafi ekki ætlað að drekka hana sjálf en samviskan slegið hana þegar hún sá örmagna hlaupara fyrir framan sig. Á öðrum stað fór ég bak við borðið og tók flösku sem ég sá þar án þess að spyrja neinn. Sumsstaðar lá við að hlaupararnir hrifsuðu eplabitana úr höndunum á konum sem voru að flysja og brytja eplin því það var ekkert klárt. Hlaupið snerist smám saman upp í að lifa af milli drykkjarstöðva í þeirri von að það væri næring á næstu stöð. Maður drakk ofsalega því hitinn var orðinn gríðarlegur. 34 oC stóðu á mælum í þorpum sem við fórum í gegnum. Ekki beint passandi að koma úr undirbúningsfasa þar sem hitin var 5 o C – 10 o C. Á 60 km sagði maginn stopp. Þegar ég fór að svolgra vatnið gerði hann uppreisn og ég ældi lifur og lungum. Þegar maður drekkur svona mikið hefur maginn ekki undan að leiða vatnið út í líkamann og á endanum yfirfyllist hann. Ég spjó og spjó þar til allt var búið og þá leið mér betur og gat farið að drekka aftur. Ég var ekki sá eini sem svona var komið fyrir því fleiri létu fara á þessari stöð. Nokkrum stöðvum aðan í frá keyrði allt um þverbak því það var ekkert til. „Water finished“ sögðu kerlingarnar og ypptu öxlum. Sístækkandi hópur hlaupara krafðist þess að fá að drekka því þetta væri spuring um að lifa af milli drykkjarstöðva. „Water finished“ sögðu kerlurnar og höfðu svo sem ekki miklar áhyggjur af því. Loks kom eldri karl með nokkrar vatnsflöskur og gat brynnt hópnum svo hann hélt áfram og hvarf. Víða voru allir ávextir búnir og það var bara þannig. Einungis á einum stað var almennilega staðið að þessu. Nóg af ávöxtum, meir að segja appelsínur og saltbaukur. Ég hélt að í landi sólarinnar einsog í Grikklandi væri ekki mikið mál að hafa nóg af ávöxtum. Í WS var svakalega gott að borða vínber og melónur því þá fékk maður bæði vökva og næringu. Maður hafði á tilfinningunni að fólkið sem var á drykkjarstöðvunum framan af væri ekki undirbúið undir þann fjölda sem var í hlaupinu. Hvergi var ís í vatninu sem maður setti á hausinn á sér með svömpum. Sumststaðar var allt búið úr fötunum en annarsstaðar var vatn ið svo heitt að það skipti engu máli þótt maður setti það á sig eða ekki.
Ég vissi að það var stór drykkjarstöð á km. 81. Maður lifði í voninni að þar væri nóg að borða. Ég var farinn að ströggla við tímamörkin og orðinn vægast sagt svartsýnn. Þegar á stöðina kom hökti ég að borðinu og hvíslaði: Energi, I need energi. Röddin var því sem næst horfin og móðurinn einnig. Ég vil ekki ráðleggja neinum að lifa af 81 km. hlaup í 34 stiga hita og lifa á kartöfluflögum, vatni og nokkrum eplabitum sem basfæðu. „Oh you need something to eat“ sögðu stelpurnar, „do you want some pasta“ og réttu mér skál með þurru pasta. Ekki einu sinni tómatsósu út á. Ég er viss um að ég hefði ælt beint ofan í skálina ef ég hefði reynt að láta þetta upp í mig því þurrt pasta er ekki það lystugasta sem maður fær öllu jöfnu en hvað þá við þessar kringumstæður þegar maginn er næstum því upp á rönd. „Energi, I need energidrink“ hvíslaði ég. „Oh do you want some coke“ Nú voru góð ráð dýr. Ég hef ekki drukkið Coke í 27 ár, fyrst af princip ástæðum en á seinni árum af hollustuástæðum. Málið var mjög einfalt. Ef ég fengi ekki orku þá gæti ég hætt strax. Því lét ég slag standa, svolgraði í mig 3 kókglös, át hnefa af flögum og skreið af stað. Á þessari stöð hættu mjög margir. Fólk valt út af í misjöfnu ásigkomulagi og vissulega hvarflaði þeirri hugsun að manni að best væri að hætta þessari vitleysu.
Þegar ég fór að hlaupa þá hamraði sinadrátturinn á kálfunum eins og ég veit ekki hvað. Ég hafði tekið samviskusamlega electrolyte töflurnar frá Berki og magnesíum og c vítamíntöflur til viðbótar en eitthvað þurfti undan að láta. Því gekk ég fram að næstu stöð. Ég fór fram úr nokkrum sem voru á svipum járnum og ég en ég vissi að nú var farið að sauma að mér með tímann. Ég kom á næstu stöð í þann mund sem fólkið var að pakka niður. Ég fékk þó kók eins og ég vildi og tvo eplabita sem voru eftir. Síðan prófaði ég að hlaupa og nú var allt í lagi. Ég náði fljótlega hóp hlaupara sem var á undan mér og var kominn inn í hlaupið aftur aftur. Maginn var á réttri leið en maður þurfti að umgangast hann eins og fælinn hest. Það mátti ekkert út af bregða þá var allt í uppnámi. Brátt fór sólin að lækka á himni og það var í raun það eina sem hélt í manni lífinu að sjá fram á aðeins meiri svala. Nú fór allt að ganga betur. Sinadrátturinn lét aðeins á sér kræla en maður hoppaði hann úr sér. Nú fóru drykkjarstöðvarnar að vera aðeins betur búnar með næringu og var í raun og veru ekki yfir neinu að kvarta eftir svona 95 – 100 km. Á einum stað voru ísmolar á diski. Ég hreinsaði þá alla ofan í kókglasið og srakk svo kalt vatnið af disknum á eftir, allt til að fá smá kælingu. Annars var eins og ís væri bara ekki til á þessum slóðum. Það má svo sem vel vera að svo sé.
Ég kláraði 100 km á um tólf tímum og var í sjálfu sér sér sáttur við það, bæði miðað við hvernig aðstæður voru og eins var ég óþreyttur og lærin tiltölulega ólerkuð. Ég fór á klósett á 100 km og vildi til að drykkjarstöðin var beint á móti veitingahúsi en ekki úti í skógi. Það var gott að geta hreinsað sig og nú var þetta heldur á réttri leið. Ég missti hópinn aðeins fram úr mér sem var slæmt því nú var skollið á myrkur og ég átti ljósið í poka eftir um 10 km. Þar sem ég kem á krossgötur sé ég ekki merkingar en held til vinstri því ég sé ljós þar. Þar kemur maður á móti mér og spyr hvort ég hafi séð einhver merki. Það hafði ég ekki gert og við fórum að leita og fundum brátt rétta leið. Við töltum áfram og fórum að spjalla og þarna var þá kominn Finni sem hafði verið í 24 tíma hlaupinu á Borgundarhólmi í vor. Án þess að taka um það ákvörðum þá héldum við sjó saman næstu sex klukkustundirnar og spjölluðum margt á leiðinni. Hann vinnur hjá Kaupþingi í Finnlandi, annar hlauparinn í hópnum sem ég hafði hitt í túrnum sem vinnur hjá íslenskum banka. Hann var samskipa Neil með það að hafa algerlega skipt um lífsstíl. Fyrir nokkrum árum var hann vel yfir 100 kg en í vor fór hann undir 80 kg í fyrsta sinn í áraraðir. Æfingarnar fyrir hlaupið höfðu gengið heldur inna hjá honum sökum meiðsla og hann hafði lengst tekið 20 km æfingar síðasta mánuðinn. Hann var mjög glaður þegar hann fór yfir 120 km því það hafði hann farið lengst áður. Okkur skilaði þokkalega áfram en nú var leiðin orðin erfiðari. Langar brekkur bæði upp og niður. Farið var að draga að mörgum. Við hittum Seppo Leionen, frægan finnskan hlaupara, sem hefur lokið Spartathlon oftast allra eða 15 sinnum. Maginn hjá honum hafði gert uppreisn og hann gekk rólega og gat ekki annað. Það væri þá í fyrsta sinn sem hann lyki ekki hlaupinu. Á öðrum stað lá japanskur hlaupari í vegkantinum og gat sig hvergi hreyft. Hann var sóttur og síðan kom sjúkrabíll og fór með hann. Við gengum mikið í þessum brekkum. Vorum alltaf heldur undir tímamörkunum en ekki mikið.
Nú fór að bera á vandræðum í löppunum hjá mér. Skafsár á lærunum og í klofinu voru farin að angra mig verulega og vaselínið lagaði það ekkert. Saltblandað vaselín er ekki beint gott í sár. Fæturnir voru einnig orðnir alsettir blöðrum eftir að hafa verið í blautum sokkum og skóm stóran hluta dagsins. Ég hafði vanrækt að hugsa um fæturna í baráttunni við hitann og næringarskortinn fyrr um daginn og nú fór það að segja til sín. Það var hins vegar allt í lagi með lærin að innanverðu en blautar buxurnar höfðu skrapað þau og skafið á ytra borðinu. Við ræddum mikið um hvort við myndum ná til Spörtu innan tilskilins tíma. Ég var svartsýnn á það því ég vissi að það átti að verða enn heitara á laugardaginn en var á föstudaginn og var það svo sem alveg nóg. Finninn reiknaði á augabragði í huganum hvað við ættum margar mínútur eftir á göngu og meðalhraða og allt og taldi það mögulegt. Samkvæmt teoríunni átti þetta að vera mögulegt en það er annað teoría en praxís. Upp úr þessu öllu tók ég ákvörðum um að hætta í hlaupinu á 150 km. Ég sá ekki neinn tilgang í að vera að þrælast áfram með skemmda fætur og hafa ekki möguleika á að ná á áfangastað. Ég var sáttur við þessa ákvörðun því ég vissi að hún var rétt. Við kvöddumst og finninn hélt áfram og vildi láta reyna á hvað hann kæmist langt. Í rútunni sem týndi upp hlauparana voru svona tíu manns, flestir illa á sig komnir. Sumir með hljóðum ef þeir hreyfu sig. Argentínumaður hvíslaði eftir vatni sem var svo heppilegt að ég átti nóg af þannig að honum leið aðeins betur. Rútan lagði af stað til Spörtu tæplega sex og við vorum komin þangað rúmlega 7. Þá var Scott Jurek nýlega kominn í mark. Við keyrðum leiðina sem liggur til Spörtu og er hluti af hlaupaleiðinni. Á þremur stöðum ók lögregla með blikkandi ljósum eftir hlaupara. Mér leist ekkert á að þurfa að fara þessa leið í brennandi sólskini. Hvergi skuggi, bara berangur. Í herberginu voru fyrir tveir hlauparar sem höfðu hætt fyrr. Annar lauk hlaupinu í fyrra á 33 klst en nú fór allt í klessu. Það er ekkert gefið í þessum efnum. Það gekk ekkert mjög vel að sofna en það tókst á endanum.
Morguninn eftir var ég niðri í anddyri þegar rúta kom með hóp hlaupara sem voru hættir og þar á meðal var finninn félagi minn. Hann hafði farið alls um 190 km en eftir kl. 9. um morguninn þegar sólin kom upp þá komst hann ekkert áfram. Þá átti hann eftir rúma 50 km og hafði til þess 9 klst. Samkvæmt bókinni á þetta að vera hægt og er það undir öllum venjulegum kringumstæðum en það var bara ekki hægt í þessum brennandi hita sagði finninn glaðbeitti. Það var eins og ég vissi að hitinn var enn meiri á laugardaginn en föstudaginn. Maður fann strax brennandi hitann af sólinni þegar maður kom ut undir bert loft. Ég hef einungis einu sinni verið í álíka hita en það var í hitabylgju á Spáni fyrir nokkrum árum. Á slíkum dögum var ekkert annað en að gera en að vera í sundlauginni.
Á leiðinni niður að styttu Leonídasar spurði ég gríska stúlku til vegar. Hún benti mér að styttunni og sagði svo: „Very hot day“. Hlaupararnir tíndust að einn eftir annan eftir að hafa barist í gegnum daginn misjafnlega á sig komnir en hreyknir eftir að hafa unnið það mikla afrek að klára hlaupið. Það er eitt að hlaupa hratt og ná fyrstur í mark en að berjast í gegnum tvo daga í brennandi hita er einnig mikið afrek. Síðasti keppandinn sem lauk hlaupinu var lítil japönsk kona sem birtist svona fimm mínútum áður en tímaglasið rann út. Henni var vel fagnað. Eiolf og Neil luku báðir hlaupinu á kringum 33 klst. Eiolf sagði að þetta hefði verið það versta sem hann hefð‘i tekið þátt í og er hann þó hitakær. „Men man ma sætte fúkus og fortsætte“ sagði Eiolf á sinni klingjandi norsku.
Um kvöldið var verðlaunaafhending á torginu í bænum. Það var tilkynnt í upphafi að hún yrði látlausari en venjulega vegna þeirra hremminga sem gríska þjóðin gekk í gegnum í fyrra mánuði með mannskaða og gríðarlegu eignatjóni vegna skógareldanna. Scott Jurek vann hlaupið, Pólverjinn sem kom gangandi að heiman varð annar og Braselíumaður sá þriðji. Japanskar konur voru í 1. og 3. sæti í kvennaflokki og frönsk kona í öðru sæti. Rúm 30% hlauparanna luku hlaupinu og var það í takt við tölfræðina.
Ég minntist á næringuna á drykkjarstöðvunum fyrstu 100 km við þá Kjell Ove og Eiolf og sagði þeim hvað mér hefði þótt hún léleg og í raun valdið mér miklum vandræðum. Kjell Ove sagði að á fyrri árum þegar hlaupararnir voru færri þá hefði verið nóg af öllu á drykkjarstöðvunum en það hefði síðan farið að breytast með fjölgun hlauparanna. Nú væri það orðið þannig að flestir reyndu hlauparanna væru farnir að treysta algerlega á sig sjálfan hvað varðaði orkudrykki, aðra næringu, vítamín og allt hvað þeir þurfa. Menn senda út á stöðvarnar það sem þeir þurfa til að hafa allt undir kontrol. Þetta kom mér algerlega í opna skjöldu en þó ekki óvænt eftir reynslu gærdagsins. Samkvæmt reynslunni frá WS bjóst maður við að hafa nóg af öllu á leiðinni en þetta kenndi manni að taka ekkert fyrir gefið. Spyrja um allt mögulegt og ómögulegt og hafa allt á hreinu fyrirfram.
Í morgun var svo lagt af stað frá Spörtu. Nú var hitinn farinn að lækka verulega og seinni hluta dagsins var skýjað og milt. Fyrirtaks hlaupaveður, jafnvel fyrir íslending. Svona getur þetta verið mikið lotterí. Áður en Sparta var yfirgefin var boðið til hádegisverðar og á sýningu á bíómyndinni 300 Spartverjar þar sem konungur Leonídas var í broddi fylkingar í baráttu Grikka gegn Persunum. Eftir það skildi maður aðeins betur hina Spartversku hugsun að gefast aldrei upp. Sá hlaupari sem vill klára Spartathlon þarf að hafa ómældan skammt af því hugarfari hvað sem öðru líður. Ég sat við hliðina á pólverjanum knáa í rútunni til Aþenu. Hann sýndi mér myndir frá ferðinni sem leið lá gegnum Evrópu, yfir Alpana og niður eftir Ítalíu. Leiðin að heiman var um 3.000 km og það tók hann 60 daga að komast til Aþenu. Eftir að þangað var komið þá var hann ekki aldeilis hættur því þá náði hann sér í trjádrumb, hengdi hann aftan í dráttarkerruna sem hann hafði haft dótið sitt í á leiðinni og djöflaðist í brekkuæfingum. Þannig æfði hann í 10 daga. Síðustu tíu dagana fyrir hlaupið hvíldi hann sig. Fyrir áhugasama um árangur í Spartathlon er þetta greinilega aðferðin.
Þátttakan í Spartathlon er mikil lífsreynsla enda þótt ekki næðist það markmið sem að var stefnt. Bæði er hlaupið og umgjörð þess mikil upplifun útaf fyrir sig og síðan byggir maður á þeirri reynslu sem maður fékk út úr sjálfu hlaupinu við aðrar og síðari þolraunir. Ýmis atriði hefði ég getað gert betur en ég gerði en það sem vóg þyngst á metunum voru aðstæður sem ég réði ekki við. Það er ekkert við því að gera. Gengur bara betur næst.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nánast vatns og matarlaust fyrstu km... þetta minnir mig á Odense 100 km hlaupið þar sem ég þurfti eins og þú að afgreiða mig sjálfur!! Ekki gáfulegt þar og því síður í 243 km hlaupi.


Scott Jurek sagði frá því í fyrra að hann hefði sent Leah-u konuna sína að kaupa ís. Eini ísinn sem hún fann eftir langa leit var í búð einni þar sem afgreiðslukonan færði fyrst hrátt kjöt af ísnum áður en hún skóflaði honum í poka. Hún lét Scott ekkert vita af því fyrr en eftir hlaup :)

En þetta hefur verið mikil þolraun og þú gerðir rétt að stoppa í stað þess að ganga frá þér.

Steinn Jóhannsson sagði...

Gott hjá þér að fara 150 km í þessum aðstæðum. Það er alltaf erfitt að hætta en skynsamlegra en að ganga alveg frá sér og vera hlaupa-ófær í margar vikur á eftir. Vona annars að þú reynir að ári og þá vonandi í betri aðstæðum.

Nafnlaus sagði...

Ótrúlega illa staðið að þessu fræga hlaupi, engin furða að svona margir neyðast til að hætta á fyrri helmingi leiðarinnar. Líklega hefði hlaupið farið á annan veg ef þú hefðir haft aðstoðarmann. Það er mikið afrek að þú skulir hafa komist 150km við þessar aðstæður.

Nafnlaus sagði...

Skynsamleg ákvörðun að hætta. Svona þrekraunir snúast heldur ekki bara um að berjast áfram fram í rauðan dauðann, heldur ekki síður um að þekkja mörkin. Mér finnst þú hafa unnið ótrúlegt afrek í þessum mikla hita. En mikið er ég hneykslaður á Grikkjunum.