föstudagur, desember 07, 2007

Neil og Börkur voru báðir meðal umsækjanda um að komast í Western States en náðu því miður ekki gegnum lottóið. Alls sóttu um 1300 manns um að komast í hlaupið en einungis 370 verða á startlínunni í vor, þar af rétt um 30 útlendingar. Það er gaman að því að fleiri íslendingar eru farnir að gera atlögu að þessu mikla hlaupi sem er elsta og virtasta 100 mílna hlaup í heimi. Það hófst fyrir tilviljun eins og ýmis önnur mikil hlaup og gaman er að upplifa söguna með þvi að taka þátt í því. Ég sé að bæði Gordy Aingsleigh og Cowman eru með í ár, báðir komnir yfir sextugt. Gordy hljóp hlaupið fyrstur árið 1974 þegar hesturinn hans veiktist í þann mund sem hestaþolreiðin á brautinni var að hefjast.´"Ég hleyp þá helvítis leiðina" sagði Gordy frekar en að hætta við allt saman. "Viltu ekki hafa með þér brauðsneið" sagði nærstaddur áður en Gordy lagði af stað. Hann kom svo til Auburn 23 og hálfri klst síðar og ný íþróttagrein var fædd, 100 mílna hlaup. Cowman var sá næsti sem hljóp leiðina árið eftir en fyrsta formlega hlaupið var ræst árið 1977 og þá lögðu sjö manns af stað. Gordy klárar örugglega en hann hefur lokið því yfir 20 sinnum og oft undir 24 klst. Cowman er hættur að fara lengra en að Forest Hill School sem eru um 100 km. Hann er hins vegar einn af legendunum í hlaupinu sem gaman er að hitta. Það var sérstaklega gaman að upplifa stemminguna í hlaupinu. Um 1300 manns vinna við það og allir jafn kátir og hvetjandi. Þeir vita að þetta er erfitt og hlaupurunum veitir ekki af hvatningunni. Mér fannst mikill munur á WS og Spartathlon hvað þetta varðaði. Enda þótt hitinn geti verið mikill þá tekur hann miklu fyrr af í WS en í Grikklandi. Það er ekki fyrr en upp úr kl. 11 - 12 sem er orðið heitt fyrir alvöru og síðan er farið að kólna um kl. 15. Í Grikklandi var suðupotturinn yfir eldinum frá kl. 9.00 til kl. 19.00. Hvergi skuggi.
Það kemur að því fyrr en síðar að íslendingur stendur í annað sinn á línunni við Squaw Walley og bíður með fiðrildi í maganum eftir haglabyssuskotinu. Það væri gaman að upplifa það aftur.

Ég hef gert dálítið af því að kaupa á Ebay undanfarin ár. Aðallega er það myndavéladót. Verðmunurinn þar og hér heima er oft með ólíkindum en alltaf hefur allt staðist eins og stafur á bók. Nýlega datt mér í hug að skoða hvort maður fyndi hlaupaskó á Ebay. Ég sörfaði eftir Asics skón og það stóð ekki á því að þeir fyndust. Ég bauð í nokkra sem var hægt að fá senda Worldwide, mest til að prufa og sjá hvað þetta kostaði. Ég náði tveimur pörum af Asics skóm. Annað parið kostaði með flutningi um 90 USD og hitt parið um 60 USD. Kostnaður hér heima er um 2500 kr þannig að dýrara parið kostar heim komið um 8.000 kr og það ódýrara að hámarki um 6.000 kr. Mér finnst það ekki vera spurning að kaupa skóna á Ebay eftir þessa reynslu. Þeir dýrustu kosta svipað eins og allra ódýrustu útsöluskór kosta hér og síðan er hægt að fá þá þaðan af ódýrari. Það er hægt að ákveða hámarksverð sem maður vill kaupa skóna á og setja síðan inn slíkt boð á nokkra valkosti. Það kemur svo að því fyrr en síðar að maður nær því að vera hæstur.

Nú um helgina er 24 tíma hlaupið á Bislet í Osló. Það taka rúmlega 100 manns þátt í því. Hlaupinn er 540 m hringur innandyra. Í haust var ég að spökulera í að taka þátt í því en hætti við það. Ég vildi hvíla mig í haust til að geta farið að æfa af fullum krafti undir jólin. Síðan bíður um 9 mánaðaprógram fyrir Spartathlon. Það verður stóra markmið næsta árs. Um síðustu helgi var 24 tíma hlaup innandyra í Helsinki. Þar náðist fínn árangur og fjöldi manns sem hljóp. Þetta er að verða æ vinsælla hlaupaform.

Engin ummæli: